miðvikudagur, 13. maí 2009

Þá er ég orðin stoltur hjóleigandi :)

Ég fór áðan og borgaði hjólið og keypti líka nýjan hjálm (Ísak var búinn að leggja hald á minn gamla) og svarta körfu sem var sett framan á hjólið. Svo hjólaði ég heim. Það er að segja, ég hjólaði fyrsta spölinn, alveg þar til ég var orðin blá í framan, en leiddi hjólið upp restina af brekkunni og hjólaði svo þegar ég var aftur komin á jafnsléttu. Hjólaformið ekki alveg upp á það besta ;-) Kom svo heim móð og másandi og með þvílíka hjartsláttinn. Já, það er nokkuð ljóst að ég þarf að æfa mig.

Ég er reyndar farin að æfa á morgnana - eða þannig... Tók uppá því um daginn að fara að gera Mullersæfingar með hópnum í sundi, alla morgna kl. 8.20. Þau hafa verið að reyna að fá mig í hópinn undanfarin ár en ég hef sett það fyrir mig að ég yrði þá svo sein fyrir. En einn góðan veðurdag þegar ég var sérlega slæm í skrokknum datt mér í hug að þetta gæti nú kannski bara verið gott fyrir mig, enda eru þetta aðallega teygjur. En þá þurfti ég líka að breyta aðeins kerfinu hjá mér á morgnana. Ég fer nefnilega alltaf heim eftir sund og fæ mér morgunmat og geri útbý nesti fyrir vinnuna. Og það tekur bara frekar langan tíma að græja nestið því ég bý til salat og það er tímafrekt að skera niður allt sem í það fer. Þannig að núna geri ég salatið um leið og ég fer á fætur, rétt fyrir hálf átta, og get þá farið í æfingarnar án þess að lenda í brjáluðu tímahraki. Svona getur maður nú breytt rútínunni hjá sér ef áhugi er fyrir hendi :-)

Engin ummæli: