fimmtudagur, 16. apríl 2009

Tvær vikur í Danmerkurferð

Já það er engin lognmolla í kringum mig þessa dagana þó mér finnist það nú stundum. Þann 3. maí fermist Anna, yngri dóttir Palla bróður, og við mamma ætlum að skella okkur saman til Danaveldis og vera viðstaddar ferminguna. Þetta verður nú algjör skottúr, við fljúgum til Kaupmannahafnar á föstudegi og gistum hjá Hrefnu og Erlingi fram á laugardag. Þá förum við með lest til Jótlands allar þrjár því Hrefna ætlar að koma með. Á sunnudeginum er fermingin og á mánudeginum er það svo lest snemma um morguninn og svo flug til Íslands kl. 14. Ég á svo bókað flug til Akureyrar sama kvöld, þannig að þetta verður langur ferðadagur. En það verður gaman að fara og hitta Palla og kó og ekki skemmir fyrir að hitta Hrefnu. Plús að Anna, Kjell-Einar og Sigurður koma líka svo þetta verður sannkölluð fjölskyldustemming. Síðast hittumst við öll í áttræðisafmæli mömmu haustið 2006.
Núna ætla ég hins vegar bara að ferðast inn í draumalandið (mitt, ekki þetta sem verið er að sýna í kvikmyndahúsum þessa dagana) og reyna að vinna upp glataðan svefn frá síðustu nótt.

Engin ummæli: