mánudagur, 13. apríl 2009

Hinir ágætustu páskar senn að baki

og lífið fer að falla í venjulegar skorður á ný. Það gerist nú reyndar ekki fyrr en á miðvikudaginn hjá yngri kynslóðinni á heimilinu en við Valur förum jú í vinnu á morgun. Ég var að vísu að vinna aðeins í dag en Sunna tók tvo tíma á móti mér þannig að þetta var afskaplega létt og þægilegt.

Í gær fengum við fólk í kaffi. Það voru Sunneva kærastan hans Andra, systkini hennar og foreldrar. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er bara 16 mánaða gamall og mikið sem var gaman að fá svona kríli í heimsókn. Húsið bara lifnaði við. Já og það var líka voða gaman að fá þau hin, bara svo það sé nú á hreinu :-)

Í gærkvöldi fór Andri á ball, Ísak gisti hjá vini sínum og við gamla settið horfðum á Rear Window eftir Hitchcook, mynd sem hækkaði blóðþrýstinginn ekki mikið en var engu að síður gaman að sjá aftur.

Ég hef ákveðið að þrífa eldhúsinnréttinguna í mörgum smærri skrefum og hófst handa í dag. Var ægilega grobbin af sjálfri mér að geta hætt þegar ég var svona nýbyrjuð - en það kom nú til af því að ég var að fara að vinna. Spurning hvernig það gengur næst... Mér hættir nefnilega til að ofkeyra mig þegar ég byrja á einhverju svona verkefni og fröken vefjagigt fær þá hellings fóður til að japla á, svo nú er meiningin að vera skynsöm.

Nú er ég hins vegar að fara að gæða mér á eggjaköku að hætti húsbóndans :-)

Engin ummæli: