sunnudagur, 19. apríl 2009

Ái

Ég borðaði yfir mig í kvöldmatnum og er hreinlega að drepast í maganum. Þurfti að hneppa frá og alles. Valur gerði kjúklingavefjur og ég gerði salat með nýrri gerð af salatsósu því ég var orðin svo hræðilega þreytt á að vera alltaf að borða sömu eða svipaða sósu. Þannig að ég fann uppskrift hjá Sollu á Grænum kosti og skellti í eina lögun af salatsósu. Í henni er 1/2 dl. ólífuolía, safi úr einni appelsínu, safi úr einni sítrónu (átti bara lime og notaði í staðinn), 1/2 gúrka, 1-2 hvítlauksrif, 1 cm. engiferrót og 1 tsk. sjávarsalt. Þetta er allt blandað með töfrasprota eða álíka verkfæri. Hiklaust hægt að mæla með þessari sósu, hún er í senn bragmikil, fersk og kröftug (sem gæti nú líka orsakast af því að ég notaði heilan lítinn hvítlauk í staðinn fyrir 1-2 rif...). Mun að minnsta kosti ekki taka hana með í vinnuna svo ég kæfi ekki viðskiptavinina úr hvítlaukslykt ;-)

Verkefnið "þrif á eldhúsinnréttingu" er nú langt komið. Ég á bara eftir að þvo tvo skápa og svo reyndar líka skápinn sem matreiðslubækurnar eru geymdar í. Þannig að þetta er allt að hafast, sem betur fer.

Valur fór í dag og tók fleiri myndir við Leirhnjúk en ég var heima í letikasti. Fór í sund + í Bónus og heimsótti svo vinkonu mína og sat hjá henni í eina tvo tíma. Það var bara mjög fínt en ekki tókst mér þó að njóta þess fullkomlega því ég var hálf partinn að skamma sjálfa mig í huganum fyrir að vera ekki úti í góða veðrinu... Ótrúleg!

Engin ummæli: