fimmtudagur, 30. apríl 2009

mánudagur, 27. apríl 2009

Allt með kyrrum kjörum

Já héðan er bara allt gott að frétta - eins og einhver sagði þá eru engar fréttir góðar fréttir. Á föstudaginn hittumst við þrjár vinkonur á kaffihúsi og það var rosa fínt. Helgin leið svo í rólegheitum, ég var að vinna á laugardeginum og svo fór sunnudagurinn (eða partur af honum) í að lesa yfir ritgerð fyrir Hrefnu. Hún er að klára þriðja árið í læknisfræðinni í Köben og þá þarf að skrifa B.Sc. ritgerð. Valur sá um yfirlestur með tilliti til fræðilegs innihalds og ég sá um að lesa yfir enskuna. Fann samt hvað ég er orðin svakalega ryðguð í svona vinnu og það tók mig nú klukkutíma eða tvo hreinlega að komast í gang. Enda eru víst komin þrjú ár síðan ég var síðast að leiðbeina nemendum með lokaverkefni í HA.
Nú styttist enn í Danmerkurferðina, ég fer suður á fimmtudaginn og svo fljúgum við mamma út á föstudagsmorgunn. Ég stefni að því að (reyna) að setja persónulegt met í að pakka sem minnstum farangri og er mjög spennt að sjá hvernig það gengur. Dett alltaf í að hugsa að ég þurfi nú örugglega að taka þetta og hitt - já og svo þurfi ég að hafa x mikið af fötum til vara, svona ef ég skyldi nú hella niður á mig eða eitthvað. Skil ekki hvernig ég fór eiginlega að því í skátunum hérna í den að pakka bara í einn bakpoka og láta það duga ... ;-)

fimmtudagur, 23. apríl 2009

Misheppnuð ljósmyndaferð

Já maður skyldi alltaf athuga hvort það er ekki örugglega rafhlaða í myndavélinni áður en maður fer út í þeim tilgangi að taka myndir...

Ég fór sem sagt út í Kjarnaskóg með myndavél og ætlaði að smella af nokkrum macro-myndum. En þegar ég áttaði mig á því að miðað við kringumstæður var það óframkvæmanlegt skilaði ég myndavélinni í bílinn og labbaði bara smá hring í staðinn. Það er nú ennþá klaki sums staðar á göngustígnum og vissara að passa sig. En vor í lofti og fuglasöngur stendur alltaf fyrir sínu :-)

Annars hef ég sennilega sofið alltof lengi því ég er eins og drusla í dag. Það er eins og skrokkurinn á mér sé gerður úr deigi og ég nenni eiginlega engu. Er samt að hugsa um að baka brauð núna á eftir - og klukkan þrjú fer ég í vinnuna. Við Sunna skiptum deginum með okkur þannig að þetta verður bara lauflétt.

P.S. GLEÐILEGT SUMAR!

miðvikudagur, 22. apríl 2009

Jæja þá er ég búin að þrífa baðinnréttinguna líka

Þetta smá mjakast allt saman :-) En ég áttaði mig loks á því af hverju mér fannst allt svona skítugt hérna hjá mér. Ástæðan var brjósklosið sem ég fékk fyrir rúmu ári síðan. Þess vegna gerði ég aldrei neina vorhreingerningu síðasta vor og þar sem ég er ekki vön að gera stórhreingerningar í svartasta skammdeginu þá safnaðist skíturin bara upp... En ég tek það fram að ég hef að sjálfsögðu þrifið eitthvað allan þennan tíma, bara svo fólk haldi nú ekki að við höfum vaðið skítinn uppfyrir ökkla eða eitthvað álíka. Bara ekki farið í skápa, hurðar og ýmislegt svoleiðis.

Annars var það nú frekar fyndið í dag. Síminn hringdi og í honum var maður frá Fasteignaskrá Íslands. Hann vildi fá að koma og taka út bílskúrinn sem við byggðum fyrir ... tja, látum okkur sjá... 7 árum síðan! Þannig að hann kemur á eftir og ég er nú eiginlega að bíða eftir honum.

Úti er leiðindaveður - eða öllu heldur ekkert veður. Það er logn og lágskýjað, svo lágskýjað að Súlur sjást ekki heldur sést bara rétt brekkan fyrir aftan Fálkafell. Mér finnst alltaf eins og ég sé með pottlok á höfðinu þegar veðrið er svona.

þriðjudagur, 21. apríl 2009

Skrýtin skrúfa


Strange creatures, originally uploaded by Guðný Pálína.

Mér leiðist og það er nákvæmlega engin ástæða til þess að láta sér leiðast. Ég er búin að synda og gera æfingar með morgunhópnum. Búin að borða morgunmat, búin að fletta í gegnum helling af jólablöðum Morgunblaðsins og henda slatta (uppgötvaði heilan haug af þessum blöðum þegar ég var að þrífa eldhúsinnréttinguna). Búin að ryksuga eldhúsið og forstofuna og er á leiðinni að fara að skúra. Hef ýmis verkefni sem ég gæti sinnt, eins og að fara í gegnum bókhaldið 2008 svo hægt sé að skila því til endurskoðanda, auk annarra verkefna. En nenni engu. Langar út að ganga en eina vinkona mín sem er heima á morgnana fer alltaf út á hundasvæði með hundinn og annarri vinkonu á morgnana, þannig að ekki þýðir að tala við hana. Og aldrei þessu vant nenni ég ekki ein, yfirleitt er mér nefnilega alveg sama þó ég fari ein út að ganga. Úti er prýðilegt veður, sól á köflum og frekar hlýtt en smá gola og stöku vindkviður. Gæti kannski druslast út í Kjarnaskóg með myndavél... En fyrst þarf ég að skúra. Svo fer ég að vinna klukkan tvö. Allra mest langar mig bara eiginlega upp í rúm og sofa... En það er nú alveg bannað!

mánudagur, 20. apríl 2009

Fyndið hvernig lykt kallar fram minningar

Ég keypti nýtt þvottaefni ég gær. Undanfarið hef ég verið með umhverfisvænt þvottaefni sem ég keypti í Heilsuhorninu en mér bara finnst lyktin af því svo vond einhvern veginn að mig langar ekki til að nota það lengur. Þannig að í gær keypti ég lítinn kassa af Aríel þvottadufti, bara svona til að prófa. Ég nota reyndar alltaf miklu minna heldur en gefið er upp á kassanum því það er bara rugl að nota heilan helling af þvottaefni fyrir þvott sem er ekkert svo skítugur. Nema hvað, fyrsta þvottinn sem ég þvoði með þessu nýja Aríel hengdi ég upp úti á snúru og fann því enga sérstaka lykt af þvottinum. En seinni vélina hengdi ég upp í þvottahúsinu því það var orðið svo hvasst úti.

Og þá gerðist það að þvottahúsið angaði af lykt sem ég kannaðist vel við og í huganum var ég óðara komin í þvottahúsið í íbúðinni sem við leigðum í Bergen fyrir heilum nítján árum síðan. Þá notaði ég reyndar eitthvað norskt þvottaefni en lyktin af því hefur greinilega verið mjög svipuð þessari af Aríel efninu. Og um leið og ég mundi eftir þvottahúsinu mundi ég eftir köttunum sem við áttum þá og sváfum í þvottahúsinu á nóttunni, alveg eins og kettirnir okkar gera núna. Þeir voru kallaðir þeim frumlegu nöfnum Svartur og Gráni en það fór nú hálf illa fyrir þeim greyjunum. Við höfðum eignast þá þegar fyrrverandi eigandi ætlaði að láta aflífa þá en af því Hrefna var alltaf að leika við þá fannst okkur að við yrðum að taka við þeim.

En svo leið að heimferð til Íslands um sumarið og við komumst að því að kostnaður við að hafa þá á kattahóteli tímann sem við yrðum í burtu var álíka mikill eins og flugfarið okkar allra fram og tilbaka. Og ekki þekktum við neinn sem vildi taka að sér tvo ketti. Þannig að eftir mikla sálarangist var ákveðið að láta aflífa kettina. Kom það í minn hlut að fara með þá og mikið ofboðslega sem það var erfitt, ég var alveg miður mín á eftir. Og Hrefnu var lofað að þegar við flyttum til Íslands aftur myndum við aftur fá okkur gæludýr. Sem leiddi til þess að við höfum haft fiska, fugla, kanínu og ketti - en kettina sýnu lengst. Birta gamla verður tíu ára á þessu ári, hvorki meira né minna, og þau eru auðvitað orðin eins og ein af heimilis"fólkinu".

Jamm og jæja, þarna sjáið þið hverju smá lykt af þvottaefni getur komið af stað... Það er nú reyndar spurning hvort ég þoli þessa lykt nokkuð frekar en hina - þarf að finna eitthvað lyktarlaust þvottaefni sem líka þvær vel.

sunnudagur, 19. apríl 2009

Ái

Ég borðaði yfir mig í kvöldmatnum og er hreinlega að drepast í maganum. Þurfti að hneppa frá og alles. Valur gerði kjúklingavefjur og ég gerði salat með nýrri gerð af salatsósu því ég var orðin svo hræðilega þreytt á að vera alltaf að borða sömu eða svipaða sósu. Þannig að ég fann uppskrift hjá Sollu á Grænum kosti og skellti í eina lögun af salatsósu. Í henni er 1/2 dl. ólífuolía, safi úr einni appelsínu, safi úr einni sítrónu (átti bara lime og notaði í staðinn), 1/2 gúrka, 1-2 hvítlauksrif, 1 cm. engiferrót og 1 tsk. sjávarsalt. Þetta er allt blandað með töfrasprota eða álíka verkfæri. Hiklaust hægt að mæla með þessari sósu, hún er í senn bragmikil, fersk og kröftug (sem gæti nú líka orsakast af því að ég notaði heilan lítinn hvítlauk í staðinn fyrir 1-2 rif...). Mun að minnsta kosti ekki taka hana með í vinnuna svo ég kæfi ekki viðskiptavinina úr hvítlaukslykt ;-)

Verkefnið "þrif á eldhúsinnréttingu" er nú langt komið. Ég á bara eftir að þvo tvo skápa og svo reyndar líka skápinn sem matreiðslubækurnar eru geymdar í. Þannig að þetta er allt að hafast, sem betur fer.

Valur fór í dag og tók fleiri myndir við Leirhnjúk en ég var heima í letikasti. Fór í sund + í Bónus og heimsótti svo vinkonu mína og sat hjá henni í eina tvo tíma. Það var bara mjög fínt en ekki tókst mér þó að njóta þess fullkomlega því ég var hálf partinn að skamma sjálfa mig í huganum fyrir að vera ekki úti í góða veðrinu... Ótrúleg!

Leikhúsferð í gærkvöldi

Já við skelltum okkur saman í leikhús fjölskyldan (eða það af henni sem er á Íslandi) og sáum Fúlar á móti í gærkvöldi. Sýningin byrjaði klukkan hálf tíu og við sátum á aftasta bekk á svölunum. Ég hafði haft áhyggjur af því að við myndum sjá/heyra illa en þær áhyggjur voru ástæðulausar eins og svo margar aðrar. Þetta var hin ágætasta skemmtun og mátti alveg hlægja vel inn á milli að þeim stöllum Eddu Björgvins, Helgu Braga og Björk Jakobsdóttur. Eina vandamálið var að það var svo ofboðslega heitt þarna aftast uppi á svölunum og mér var hreinlega farið að líða illa af hita undir það síðasta. En ég lifði það nú af. Svo hittum við Ásgeir og Stínu, vinafólk okkar frá árunum í Tromsö, sem eiga heima á Ólafsfirði en við hitttum aldrei og það var líka voða gaman.

Nú er runninn upp nýr dagur með nýjum möguleikum, svo ætli sé ekki best að fara að nýta sér eitthvað af öllu því sem þessi dagur hefur uppá að bjóða :-)

P.S. Já, nú er mín aldeilis að rembast við að vera jákvæð, sannleikurinn er nefnilega sá að ég er að drepast í skrokknum í dag og nenni ekki þeim verkefnum sem ég þarf helst að sinna, hehe).

laugardagur, 18. apríl 2009

Frídagur og fínasta veður

Ekki er nú samt hægt að segja að ég hafi afrekað margt eða mikið það sem af er degi. Vann í pappírum í morgun, fór út í gönguferð og svo í sturtu. Þá er það upptalið. Ætli sé ekki best að reyna að halda áfram að kroppa aðeins í eldhúsinnréttinguna á eftir. Svo er auðvitað margt fleira sem þarf að gera hreint en ég ætla bara að gera þetta í rólegheitum allt saman.
Ég er aðeins byrjuð að skoða liti fyrir húsið og hjónaherbergið en það gengur frekar hægt. Helst langar mig að finna einhvern hlýlegan lit því eftir að hafa málað forstofuna, ganginn og stofuna hvíta þá er ég eiginlega búin að fá nóg af hvítu í bili.

föstudagur, 17. apríl 2009

Nú hefði amma Pálína viljað sitja úti á tröppum gæti ég ímyndað mér

Það er svo yndislegt veður í dag, sól og blíða. Þegar ég kom heim úr sundinu um níuleytið skein morgunsólin á framhlið hússins og uppi á tröppunum var alveg yndislegt að stoppa aðeins og snúa andlitinu í sólina. Þá rifjaðist það upp fyrir mér að amma átti það til að fara út í svona veðri og sitja í sólinni í svolitla stund. Hún bjó sem sagt heima hjá okkur þegar ég var krakki (í sama húsinu og ég bý í núna) og var með herbergi inn af forstofunni. Hún náði þeim áfanga að verða 100 ára í desember 1984 en dó svo í febrúar 1985. Og nú væri gaman að geta skannað inn mynd sem tekin var af ömmu með Hrefnu mína liggjandi í rúminu við hliðina á sér þegar Hrefna var nokkurra mánaða gömul. Amma hafði svo gaman af því að hafa litla krílið hjá sér.

Ýmis verkefni bíða mín og ætli sé ekki best að reyna að koma einhverju í verk áður en ég fer að vinna klukkan tvö. Ciao.

fimmtudagur, 16. apríl 2009

Tvær vikur í Danmerkurferð

Já það er engin lognmolla í kringum mig þessa dagana þó mér finnist það nú stundum. Þann 3. maí fermist Anna, yngri dóttir Palla bróður, og við mamma ætlum að skella okkur saman til Danaveldis og vera viðstaddar ferminguna. Þetta verður nú algjör skottúr, við fljúgum til Kaupmannahafnar á föstudegi og gistum hjá Hrefnu og Erlingi fram á laugardag. Þá förum við með lest til Jótlands allar þrjár því Hrefna ætlar að koma með. Á sunnudeginum er fermingin og á mánudeginum er það svo lest snemma um morguninn og svo flug til Íslands kl. 14. Ég á svo bókað flug til Akureyrar sama kvöld, þannig að þetta verður langur ferðadagur. En það verður gaman að fara og hitta Palla og kó og ekki skemmir fyrir að hitta Hrefnu. Plús að Anna, Kjell-Einar og Sigurður koma líka svo þetta verður sannkölluð fjölskyldustemming. Síðast hittumst við öll í áttræðisafmæli mömmu haustið 2006.
Núna ætla ég hins vegar bara að ferðast inn í draumalandið (mitt, ekki þetta sem verið er að sýna í kvikmyndahúsum þessa dagana) og reyna að vinna upp glataðan svefn frá síðustu nótt.

Maður finnur sér ýmislegt til dundurs


Fading away, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já ég gat ekki sofnað í gærkvöldi og endaði á því að fara að leika mér að gera svona ramma á Flick'r myndir. Þessi var nú sú eina sem fékk að birtast en svona eftir á að hyggja hefði ramminn kannski mátt vera aðeins minni. En það er alveg ferlegt þegar maður getur ekki sofnað á kvöldin. Ég fór í háttinn um 11 leytið en var bara alls ekkert syfjuð. Kannski af því ég hafði verið að þrífa eldhúsinnréttinguna og komið blóðinu á hreyfingu, hvað veit ég. Svo lá ég og bylti mér til hálf eitt en fór þá fram og var þar til klukkan tvö. Þá lá leiðin aftur inn í rúm þar sem ég hélt áfram að bylta mér, örugglegar í einn og hálfan tíma í viðbót. Enda var ég rotuð í morgun! Það var hins vegar ekkert sérstakt sem hélt fyrir mér vöku, engar áhyggjur, ég var bara alveg glaðvakandi.

mánudagur, 13. apríl 2009

Hinir ágætustu páskar senn að baki

og lífið fer að falla í venjulegar skorður á ný. Það gerist nú reyndar ekki fyrr en á miðvikudaginn hjá yngri kynslóðinni á heimilinu en við Valur förum jú í vinnu á morgun. Ég var að vísu að vinna aðeins í dag en Sunna tók tvo tíma á móti mér þannig að þetta var afskaplega létt og þægilegt.

Í gær fengum við fólk í kaffi. Það voru Sunneva kærastan hans Andra, systkini hennar og foreldrar. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er bara 16 mánaða gamall og mikið sem var gaman að fá svona kríli í heimsókn. Húsið bara lifnaði við. Já og það var líka voða gaman að fá þau hin, bara svo það sé nú á hreinu :-)

Í gærkvöldi fór Andri á ball, Ísak gisti hjá vini sínum og við gamla settið horfðum á Rear Window eftir Hitchcook, mynd sem hækkaði blóðþrýstinginn ekki mikið en var engu að síður gaman að sjá aftur.

Ég hef ákveðið að þrífa eldhúsinnréttinguna í mörgum smærri skrefum og hófst handa í dag. Var ægilega grobbin af sjálfri mér að geta hætt þegar ég var svona nýbyrjuð - en það kom nú til af því að ég var að fara að vinna. Spurning hvernig það gengur næst... Mér hættir nefnilega til að ofkeyra mig þegar ég byrja á einhverju svona verkefni og fröken vefjagigt fær þá hellings fóður til að japla á, svo nú er meiningin að vera skynsöm.

Nú er ég hins vegar að fara að gæða mér á eggjaköku að hætti húsbóndans :-)

laugardagur, 11. apríl 2009

Bara ekkert sem pirrar mig í dag


Happy couple, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég hef greinilega fengið svona góða útrás hérna á blogginu í gær, hehe. Það er lykilatriði að hefjast handa og bara framkvæma eitthvað þegar maður er í svona skapi, þá líður manni strax betur :-) Eftir að Valur reið á vaðið og tæmdi brúnu hilluna inni hjá Ísaki þá hélt ég áfram og lagaði til inni hjá honum. Þannig að nú er allt klárt fyrir tölvuna sem hann fær og skrifborðið sem á reyndar eftir að velja. Það getur varla orðið mjög flókið því hér á Akureyri eru einungis tvær verslanir sem selja skrifborð, Rúmfatalagerinn og Vörubær. Ég var búin að kíkja aðeins í þá fyrrnefndu og sá tvö borð sem mér fundust koma til greina en auðvitað fær Ísak sjálfur að velja sér borð, þannig að við förum væntanlega í leiðangur á eftir.

Við Valur erum nokkuð dugleg að skreppa í ljósmyndaleiðangra þessa dagana. Um daginn fórum við út á Gáseyri og á skírdag fórum við í Mývatnssveit. Þar voru reyndar afar óheppileg birtuskilyrði þannig að við ókum upp að Kröfluvirkjun og gengum að Leirhnjúk. Þangað höfðum við ekki komið áður og var virkilega gaman að rölta þarna um í snjónum og gufunni sem lagði frá heitri jörðinni. Hins vegar gerði gufan ljósmyndunina frekar erfiða því hún ruglaði fókusinn svo mikið og margar myndir hreinlega ekki í fókus þó maður héldi að þær væru það. Ég var líka að prófa aðra linsu en ég er venjulega með og hún er föst, þ.e. það er ekki hægt að súmma með henni og því erfiðara en ella að fanga myndefnið. En þrátt fyrir allt þá var þetta hin besta ferð og gaman að við skulum eiga þetta sameiginlega áhugamál hjónin :-)

föstudagur, 10. apríl 2009

Hlutir sem pirra mig

- Kattarhár úti um allt.
- Pirraðir kettir sem fara örugglega bráðum að pissa alls staðar og merkja húsið.
- Óhreina eldhúsinnréttingin.
- Óhreini eldhúsglugginn.
- Óhreini ísskápurinn.
- Gólflistarnir og gereftin sem hafa ekki verið máluð í 10 ár.
- Hjónaherbergið sem þarf að velja lit á svo hægt sé að mála það.
- Húsið sem þarf að velja lit á svo hægt sé að mála það í sumar.
- Skrifborðið mitt sem er útatað í kattarhárum.
- Brúna hillan inni í Ísaks herbergi sem þarf að tæma og taka burt svo hægt sé að koma skrifborði fyrir þar inni.
- Óhreini þvotturinn sem bíður í óhreinatauskörfunni.
- Myndirnar sem ég tók við Leirhnjúk í gær.

Hm, ég held barasta að þetta sé þá upptalið. Þetta varð nú eiginlega ekki eins löng upptalning og ég hafði fyrirfram talið.

miðvikudagur, 8. apríl 2009

Líklega er það ekki góð hugmynd að blogga núna

því ég er eitthvað svo andlaus í augnablikinu. Ein ástæða fyrir því er tannverkur eða seyðingur sem ég er hrædd um að muni verða að einhverju verra. Það brotnaði nefnilega tannveggur utan af jaxli með fyllingu í fyrradag. Ég fór til tannlæknis í gær og ætlaði bara að láta hann pússa aðeins af fyllingunni því hún var með svo beittum brúnum að hún meiddi tunguna. En hann fór þá að krukka aðeins meira í þetta og vildi endilega setja hvíta fyllingu utan á tönnina, í staðinn fyrir tannvegginn. Og á meðan hann var að því þá fékk ég þvílíka stuðið í rótina og kipptist til í stólnum. En svo var allt í lagi í gær en í dag finnst mér ég vera með smá þungan seyðing í þessu, ekki vondan verk, ekki hjartslátt í þessu, bara svona einhverja tilfinningu sem á ekki að vera þarna. Mér finnst samt hálf asnalegt að hringja og ónáða tannlækninn ef þetta er bara eðilegt. En ætli það endi ekki með því að ég hringi til að spyrja hvort þetta sé eðlilegt...

Svo er ég líka hálf lúin í dag þrátt fyrir að hafa sofið til hálf níu og farið í sund. Ég fór reyndar í höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun í gær og maður getur víst verið svolítið eftir sig eftir það. Eins var mikið að gera í vinnunni í gær, ég var að taka upp vörur og á sama tíma var töluvert að gera í afgreiðslu, sem er náttúrulega mjög jákvætt :-) Alltaf skemmtilegast í vinnunni þegar er nóg að gera.

sunnudagur, 5. apríl 2009

Afslöppun

Já það hefur verið hálfgerð afslöppun hjá mér það sem af er degi. Við Valur vöknuðum reyndar "eldsnemma" og meira að segja ég var komin á fætur uppúr átta. Svo tóku nú við smá pælingar varðandi það í hvað skyldi eyða deginum, eða hvað ætti að vera fyrst á dagskrá, og þá datt mínum manni í hug að ganga uppá Hlíðarfjall í góða veðrinu. Og eins og hans er von og vísa þá var ekki látið sitja við orðin tóm heldur dreif hann sig af stað með nesti, myndavél og gönguskíði. Ég aftur á móti vissi ekki alveg hvað ég ætti af mér að gera. Datt í hug að fara á skíði en var ekki alveg að nenna því enda stíf og stirð í skrokknum. Þegar Ísak vaknaði svo loks rúmlega tíu bauð ég honum að koma í fjallið en hann nennti því ekki. Þá bauð ég honum að koma í sund og því nennti hann. Ákvað að bjóða vinum sínum með sér og gerði það. Það tók þá reyndar tímann sinn að taka sig til en á meðan sinnti ég hefðbundnum húsmóðurstörfum. Í sundinu var aragrúi fólks og barna og allir voða kátir enda lét sólin meira að segja sjá sig. Nú er ég búin að fá mér te og brauð en næst á dagskrá er að fara út að ganga með vinkonu og hundi :)

P.S. Í gær fórum við Valur út á Gáseyri að taka myndir. Af 139 myndum heppnuðust kannski 3 og þar af var ein langbest. En hún nýtur sín langbest á svörtum bakgrunni, eins og sjá má með því að smella hér.

föstudagur, 3. apríl 2009

Sjómannamál


More of the lighthouse, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég held uppteknum hætti og fer einungis í heitasta pottinn í sundlauginni. Yfirleitt er ég ein þar en stundum mæta nokkrir sjóarar á sama tíma og ég. Það er forvitnilegt að heyra þá spjalla saman um aflabrögð, bilanir í vélarrúmum og annað sem til fellur. Í morgun kom einn aðeins seinna en hinir og heyrðist þá í öðrum sem fyrir var í pottinum: "Þessi ætlar greinilega ekki að synda sínar 100 ferðir eins og venjulega. Er skrúfan kannski biluð?" Þetta fannst mér pínu fyndið því sjálfri hefði mér ekki dottið í hug að tala um skrúfu í þessu sambandi - en ég er jú heldur ekki sjómaður...

Annað sem mér finnst fyndið í sundinu þessa dagana eru ungu stelpurnar sem hafa greinilega legið mikið í ljósum undanfarið. Þær eru ægilega brúnar og sætar - nema á einum stað. Undir rasskinnunum, eða þar sem rassinn mætir lærunum. Þar blasa við tveir hvítir "goggar" sem opnast og lokast þegar gengið er. Og maður sér langar leiðir að ljósabekkir eru orsök brúnkunnar en ekki sólbað í útlandinu. Og ég er örugglega eitthvað skrýtin að taka eftir þessu en mér bara finnst þetta eitthvað svo hallærislegt.

Annars finnst mér alveg yndislegt hvað daginn er farið að lengja, þó allt sé nú enn á kafi í snjó hér norðan heiða. Ciao,

miðvikudagur, 1. apríl 2009

4 stiga hiti - og snjókoma!

Já það finnst mér hálf furðuleg samsetning en það er greinilega kaldara uppi í háaloftunum en hér niðri við jörð. Fólk er almennt orðið afskaplega þreytt á þessum endalausa vetri, það heyrir maður. Snjókoman var algengasta umræðuefnið í sundlauginni í morgun, nánast allir sem ég hitti höfðu orð á henni. Ég vona samt að það fari að hætta að snjóa því Andri og Sunneva ætla að keyra suður á föstudaginn, á Toyota Yaris, og sá bíll er nú ekki sérlega góður í snjó. Svo er erfitt að ganga úti í þessum snjó/hálku. Ég er alltaf skíthrædd um að detta (og já ég á eftir að fá mér mannbrodda, Valur er búinn að segja mér það svona þúsund sinnum) og verð svo stíf í skrokknum og bakinu eftir gönguferðir í hálku að heilsubótin fer fyrir ofan garð og neðan.

Við uppgötvuðum það um daginn hvað við erum orðin háð sorpkvörninni í eldhúsvaskinum. Hún bilaði nefnilega og er enn í ólagi. Valur tók hana reyndar áðan og fór með hana í póst, það er enginn aðili sem getur gert við svona græju hér fyrir norðan svo það þarf að senda hana suður. En það sem sorpið eykst aftur þegar þarf að henda öllum matarafgöngum, hýði o.s.frv. í ruslið. Við vorum komin niður í tvo haldapoka í viku og stundum bara einn en nú sýnist mér þeir verða að minnsta kosti fjórir. En við getum jú áfram flokkað pappír, fernur, gler, málma og plast, svo það er nú dágott magn sem fer ekki í sorpið þó matarleifar geri það.

Og nú dettur mér bara ekki fleira í hug að sinni.