þriðjudagur, 17. mars 2009

Stund milli stríða

Ég settist sem sagt aðeins fyrir framan tölvuna af því ég er ekki að nenna að ganga frá í eldhúsinu eftir matinn. Og bara svo það sé nú enginn misskilningur í gangi þá er afskaplega lítið sem þarf að ganga frá. Ég var með taco í matinn og við Ísak borðuðum bara tvö þannig að þetta er algjört smáræði. En það breytir því ekki að ég er samt ekki að nenna að ganga frá... Svo er ég líka hálfnuð að hengja uppúr þvottavélinni og nenni ekki heldur að klára það. Hm, ætli ég megi þá ekki með réttu kallast letingi? Núna ætla ég samt að nenna að labba fram í eldhús og setja hita-grjónapoka í örbylgjuofninn því ég er svo agalega stíf í öxlum og hnakka.

Þarna gabbaði ég sjálfa mig aldeilis. Um leið og ég var staðin á fætur og komin fram í eldhús þá gat ég auðvitað ekki annað en sett í uppþvottavélina og gengið frá eftir matinn, þannig að nú er það búið og gert. Ætli næsta mál á dagskrá sé þá ekki að hengja upp þvott. Þarnæsta mál á dagskrá er að lesa leiðbeiningarnar með fatalitnum sem ég keypti í gær og þarþarnæsta mál er að lita buxurnar mínar. Ég keypti nefnilega svartar buxur í haust sem eru ekkert farnar að slitna en liturinn í þeim er bara að gufa upp. Þannig að í stað þess að vera svartar eru þær grábrúnar núna (eða eitthvað í þá áttina). En mér finnst þær ekkert sérlega fallegar í þeim lit og ætla því að reyna að lita þær.

Hm, ég hljóp sem sagt yfir einn lið í dagskránni og fór strax að lesa leiðbeiningarnar og þær eru nú eiginlega frekar flóknar finnst mér. Þegar ég bjó í Noregi var hægt að kaupa fatalit sem var í fljótandi formi og maður setti bara plastdallinn með litnum með flíkinni inn í þvottatromluna og svo sá þetta um sig sjálft. Já og salt líka. En hér á að setja flíkina + salt í tromluna og setja vélina af stað. Ekki nota forþvott. Þegar efnið er orðið gegnblautt og vatnið hæfilega heitt (hvernig veit ég hvað vatnið er heitt inni í vélinni???) er litarefnið leyst upp í 1/2 ltr af heitu vatni og ??? Það stendur ekkert um að það eigi að setja litarefnið í sápuhólfið en það hlýtur þó að vera. Næst á að leysa upp festirinn og hann er svo látinn í sápuhólfið. Flíkin á svo að vera í litarupplausninni í 40-60 mín. Jamm og jæja, ætli sé ekki best að vinda sér í þetta.

Já og hér heldur þessi beina útsending áfram... Nú er ég sem sagt búin að setja vélina af stað og þarf að finna eitthvað ílát sem má nota til að blanda litinn í. En svona rétt til að gera þetta svolítið spennandi þá vigtaði ég buxurnar og viti menn, þær voru 467 grömm en þetta magn af fatalit er skv. leiðbeiningunum bara hægt að nota til að lita 250 gr. Ég vona bara að þar sem buxurnar eru svartar fyrir þá taki þær betur lit...

En nú er ég farin að prenta út flugfarseðla og hætt þessari beinu blogg-útsendingu. Ciao.

Engin ummæli: