laugardagur, 7. mars 2009

Laugardagur = letidagur, eða hvað?

Aldrei þessu vant var ég vöknuð klukkan átta á laugardagsmorgni. Ástæðan gæti hugsanlega verið sú að í gærmorgun lagði ég mig þegar Ísak var farinn í skólann og svaf nánast allan morguninn og vaknaði ekki fyrr en kl. 11.30. Hélt kannski að þá myndi ég ekki geta sofnað í gærkvöldi en var komin uppí rúm um ellefuleytið og steinsofnaði. Sennilega einhver víruspestar-eftirþreyta í gangi. Úthaldið er nú frekar lélegt ennþá eins og ég sá á fimmtudaginn. Þá fór ég að stússast í smá lagertiltekt í vinnunni og steingleymdi að ég væri nýbúin að vera veik. Svo bara helltist þreytan og slappleikinn yfir mig og ég var alveg að gefa upp öndina restina af deginum. Ég fór reyndar á hárgeiðslustofu, sem krafðist nú ekki annars en að ég sæti þar nokkurn veginn upprétt...

Í dag fer ég svo að vinna frá 13-17 og síðan er árshátíð hjá Læknastofum Akureyrar sem byrjar með fordrykk í heimahúsi kl. 18, þannig að það verður ekki mikil afslöppun í dag. Og nú er ég að bræða það með mér hvort ég eigi að nenna í sund. Það opnar ekki fyrr en kl. 10 og þá fyllist laugin af krökkum á sundæfingu, gamalmennum, og fólki eins og mér, þannig að ekkert pláss verður til að synda. En ég gæti nú samt farið í pott, gufu og kalda sturtu. Svo var ég að spá í að kíkja aðeins í eina tískuverslun sem auglýsti 20% afslátt af öllum vörum núna um helgina.

Birta gamla er að drepast úr athyglissýki þessa dagana og hefur elt mig á röndum í morgun til að fá klapp og klór. Svo þegar hún fær klapp og byrjar að mala þá verður Máni afbrýðissamur og kemur til að fá sinn skerf. Ekki veit ég nú samt hvar hann er núna því við Birta "sitjum" hér í sófanum saman og hann er hvergi sjáanlegur. Hún er búin að reyna að troða trýninu og sjálfri sér inní mig (ég er ekki að grínast, hún stakk hausnum undir handarkrikann á mér og reyndi að komast lengra þar inn) en sættist loks á að leggjast við hliðina á mér. Og viti menn, þarna birtist Máni og ætlar að reyna að leggjast ofan á mig en honum er vísað á brott og gerir sér að góðu að leggjast á púða við hliðina á Birtu. En nú held ég að ég drífi mig bara í sund.

Engin ummæli: