miðvikudagur, 4. mars 2009

Loksins að skána af pestinni

Eftir alveg skelfilegan dag í gær vaknaði ég loks í morgun hakinu skárri og hélt svo bara áfram að skána fram eftir degi. Ég fór meira að segja í sund í morgun, í fyrsta skipti í heila viku. Synti reyndar ekki neitt en fór bara í heita pottinn og gufu. Svo þegar ég var að fara út úr gufunni þá var það stóra spurningin, átti ég að fara í kalda sturtu eins og venjulega eða sleppa því sökum slappleika? Ég tvísté þarna í smá stund en ákvað að skella mér undir köldu bununa. Held að það hafi ekki sakað neitt. Nú er bara að vona að ég haldi áfram að hrista af mér slenið, því það er árshátíð hjá Læknastofum Akureyrar um helgina. Ég missti nefnilega af henni í fyrra því þá var ég nýkomin úr brjósklosaðgerðinni og það væri hálf fúlt að missa af henni annað árið í röð.
Annars er allt ósköp tíðindalítið. Maður verður svo andlaus af að hanga svona veikur heima og mér dettur fátt í hug til að tjá mig um hér á blogginu. Ég fékk reyndar þá flugu í höfuðið áðan að draga fram prjónana mína og þar sem ég er með tvö gömul verkefni í gangi þá ætti það að vera lauflétt verk, þ.e. að draga fram prjónadótið - spurning hvernig gengur að koma sér að verki...?
En þessa helgina er það sem sagt árshátíð, næstu helgi á Ísak 14 ára afmæli og þarnæstu helgi er það Stokkhólmur, svo það er nú eiginlega bara nóg að gera á næstunni og ekkert nema gott um það að segja.
Úff, þegar ég byrja að glápa á tövluskjáinn finn ég að verkirnir í augunum eru ekki alveg búnir að yfirgefa mig ennþá. Líklega einhver ennisholubólga að stríða mér. Þannig að ég er bara hætt þessu, over and out.

Engin ummæli: