mánudagur, 30. mars 2009

Þá er skattaskýrslan frá

Og þarf ekki að hugsa meira um hana að sinni. Eins þægilegt og þetta nú er þegar allt er meira og minna komið á netið þá þurfti ég að garfa í hlutum til að geta klárað skýrsluna því það vantaði upplýsingar. Hluti af því var nú eigin tossaskapur, eitthvað sem ég hafði ýtt á undan mér af því ég vissi að það tæki mig smá tíma að komast til botns í því. En sem sagt, nú er þetta farið og einu verkinu minna sem þarf að sinna (hehe, þetta rímaði). Þá er það bara framhald fataviðgerða sem er næst á dagskrá. Svo langaði mig svolítið út að ganga en er alveg að ná því stigi að nenna ekki meira út úr húsi í kvöld þannig að það er óvíst hvort af gönguferð verður. Við Valur fórum út að ganga í gærkvöldi og það var voða hressandi í bítandi vindkælingu. Húðin á mér er hins vegar ekki eins ánægð með að vera úti í frostinu, sama þó ég smyrji mig í framan með Locobase repair. Sem minnir mig á það þegar ég var krakki og mamma var að smyrja Nivea kremi framan í mig þegar það var frost úti. Ég hef ekki átt svoleiðis krem í mörg ár, kannski það virki betur á frostbitnar kinnar?

sunnudagur, 29. mars 2009

Að beiðni bóndans


Strongbuilt, originally uploaded by Guðný Pálína.

birti ég eitthvað annað en myndina hér að neðan úr ljósmyndaferðinni okkar á Hjalteyri. Honum fannst að ég ætti að birta einhvejra flottari mynd...

Sunnudagur


Taking pictures, originally uploaded by Guðný Pálína.

Og næg verkefni sem liggja fyrir í dag. Er bara ekki að nenna að byrja á neinu. Ætli ég fari ekki í sturtu fyrst. Það er alveg búið að klúðra sundinu fyrir mér á sunnudagsmorgnum því laugin opnar ekki fyrr en kl. 10 og þá er ég löngu vöknuð og nenni ekki að bíða svona lengi með að komast í sund. Þannig að ég fæ mér morgunmat og ætla svo kannski seinna í sundið en nenni því svo aldrei. Það er reyndar að koma aleg yndislegt veður núna, spurning hvort það helst. Ég ætti nú kannski að skella mér út í smá göngu áður en ég fer í sturtuna? Sólin er sem sagt að brjóstast í gegnum gráa skýjahulu sem legið hefur yfir bænum í morgun og lýsir núna upp snjóinn sem liggur yfir öllu. Fallegt! Já, alveg í tvær mínútur eða svo... greinilega smá barátta í gangi milli sólar og skýja. Þessa stundina eru það skýin sem hafa yfirhöndina.

Í gær fórum við Valur í smá ljósmyndaferð út á Hjalteyri. Það var reyndar alveg ógurlega kalt og puttarnir alveg að detta af mér á tímabili, en hressandi samt að vera úti. Og hér sést herra Valur niðursokkinn í viðfangsefnið.

miðvikudagur, 25. mars 2009

Ég bara skil ekki

hvað mér gengur illa að halda mér á mottunni í mataræðinu. Vandamálið er enn og aftur sykurinn! Þrátt fyrir að ég viti af reynslu að mér líður betur ef ég sleppi sykri (orkan verður stöðugri og meltingin betri) þá bara fell ég alltaf í sama pyttinn. Arg!

Komin heim frá Sverige

Við Valur gerðum bara ágæta ferð þarna út. Veðrið var allt í lagi, frekar kalt og stundum töluverð vindkæling en við vorum vel klædd og löbbuðum um allt þarna í miðborginni.
Á fimmtudeginum þegar ég kom út þá var hann heima á hóteli og tók á móti mér en svo fórum við og fengum okkur að borða á grænmetisveitingastað þarna rétt hjá. Röltum svo aðeins um nágrennið en svo fór hann á ráðstefnuna en ég var bara í rólegheitum á meðan. Þar sem hótelið auglýsir voða flott að þar sé upphituð útisundlaug með útsýni yfir borgina datt mér í huga að prófa laugina. Hahaha, þetta var þá bara lítið stærra en íslenskir heitapottar en ekki alveg eins heitt vatnið, þannig að ekki gat ég nú synt mikið. En útsýnið var ágætt, sólin var að setjast og ég fór svo líka í sjóðandi heitt sauna. Um kvöldið borðuðum við Valur á alveg frábærum veitingastað á hótelinu. Allir réttirnir voru alveg meiriháttar góðir.
Á föstudeginum fór Valur á ráðstefnuna en ég fór á búðarráp. Var bara eitthvað svo ógurlega þreytt og illa fyrirkölluð framan af að gáfulegra hefði verið að halda bara áfram að sofa. En ég fékk nú samt á mig jakka, einhverja boli, 2 blússur og buxur. Já og eina peysu. Þetta var allt keypt í H&M nema jakkinn sem var keyptur í Vera Moda (minnir mig) og kostaði ákaflega lítið miðað við hvað hlutirnir kosta hér á landi. Svo kom Valur og við fengum okkur að borða og rápuðum svo aðeins meira í búðir. Hann fékk þessa fínu Ecco skó og þá var hann búinn að fá nóg en ég var aðeins lengur að skoða en fór svo líka heim á hótel. Um kvöldið borðuðum við á ítölskum veitingastað sem var því miður algjör túristastaður, þ.e. fjöldaframleiddur matur og fjölmörg borð. Til að kóróna það var maturinn vitlaust afgreiddur og þurfti að bíða dágóða stund eftir að fá réttan mat.
Laugardagurinn var svo heljarinnar labb-dagur frá morgni til kvölds og fórum við meðal annars í Gamla Stan en fannst lítið til koma. Þröngar göngugötur með túristabúllum og veitingastöðum í bland. Einstaka gallerí og hönnunarbúðir inn á milli. Svo ætluðum við að skoða ljósmyndasafn en eitthvað höfðum við nú misskilið bæklinginn því þetta var aðeins ein ljósmyndasýning en ekkert safn. Um kvöldið höfðum við ekki verið nógu forsjál að panta borð í tíma, svo við vorum orðin mjög svöng þegar við fórum að borða og fengum mat um hálf níu leytið um kvöldið. Þá bar svo við að ég var orðin eitthvað skrítin í maganum og hafði voða litla lyst. Og þegar við komum heim á hótel var mér orðið verulega illt og var greinilega alls ekki að melta matinn. Ældi og leið aðeins betur á eftir er var samt ekki góð. Náði að sofna aðeins en vaknaði um tvöleytið og var svona rosalega óglatt. Þannig að ég fór og ældi meira og leið þá betur á eftir. Náði svo að sofna um þrjúleytið og var nokkurn veginn í lagi þegar ég vaknaði. En alveg hrikalega þreytt, bæði eftir þetta ælu- og vökustand og eins eftir allt labbið deginum áður.
Það þýddi lítið að spá í það því eftir morgunmat var kominn tími til að pakka og fara svo út á flugvöll. Leigubíllinn þangað kostaði "aðeins" 600 sænskar kr. eða um 9 þúsund íslenskar, eins fáránlegt og það hljómar, en þetta er reyndar töluverður spotti. Hefði verið miklu ódýrara að fara með rútu en við klikkuðum á því.
Flugið heim gekk vel nema hvað ég fann ekki töskuna mína þegar ég ætlaði að taka hana af bandinu. Beið þar til allar töskur voru komnar og búið var að stoppa bandið en engin taska kom. Ég sá að það voru tvær aðrar litlar svartar töskur en þar sem þær líktust hvorug minni tösku þá skipti ég mér ekkert af þeim. Fyllti út skýrslu um týndan farangur og svo tókum við rútuna inn til BSÍ og þaðan leigubíl á flugvöllinn. Rúmum hálftíma fyrir flugið norður hringir síminn minn og kona spyr, án þess að kynna sig, "Ert þú með töskuna mína?". "Ég er ekki með neina tösku" segi ég. "Jú, þú hlýtur að hafa tekið mína tösku í misgripum" segir hún og ætlar ekki að gefa sig svona létt. Það tók nú smá tíma að koma henni í skilning um að sökin væri hennar en ekki mín og það eina sem hún sá í stöðunni var að senda mína tösku með leigubíl á flugvöllinn. Á minn kostnað að sjálfsögðu... Ég fór nú bara að hlægja því mér fannst það svo fyndið að ég ætti að borga fyrir hennar mistök en hugsaði sem svo að betra væri að fá töskuna heldur en ekki, svo ég sagði konunni að senda hana þá með leigubíl. Og taskan kom og við fórum norður í faðm drengjanna sem höfðu nú ekki saknað okkar neitt gífurlega... enda getað ráðið sér sjálfir í 4 daga án afskiptasamra foreldra ;-)

þriðjudagur, 17. mars 2009

Stund milli stríða

Ég settist sem sagt aðeins fyrir framan tölvuna af því ég er ekki að nenna að ganga frá í eldhúsinu eftir matinn. Og bara svo það sé nú enginn misskilningur í gangi þá er afskaplega lítið sem þarf að ganga frá. Ég var með taco í matinn og við Ísak borðuðum bara tvö þannig að þetta er algjört smáræði. En það breytir því ekki að ég er samt ekki að nenna að ganga frá... Svo er ég líka hálfnuð að hengja uppúr þvottavélinni og nenni ekki heldur að klára það. Hm, ætli ég megi þá ekki með réttu kallast letingi? Núna ætla ég samt að nenna að labba fram í eldhús og setja hita-grjónapoka í örbylgjuofninn því ég er svo agalega stíf í öxlum og hnakka.

Þarna gabbaði ég sjálfa mig aldeilis. Um leið og ég var staðin á fætur og komin fram í eldhús þá gat ég auðvitað ekki annað en sett í uppþvottavélina og gengið frá eftir matinn, þannig að nú er það búið og gert. Ætli næsta mál á dagskrá sé þá ekki að hengja upp þvott. Þarnæsta mál á dagskrá er að lesa leiðbeiningarnar með fatalitnum sem ég keypti í gær og þarþarnæsta mál er að lita buxurnar mínar. Ég keypti nefnilega svartar buxur í haust sem eru ekkert farnar að slitna en liturinn í þeim er bara að gufa upp. Þannig að í stað þess að vera svartar eru þær grábrúnar núna (eða eitthvað í þá áttina). En mér finnst þær ekkert sérlega fallegar í þeim lit og ætla því að reyna að lita þær.

Hm, ég hljóp sem sagt yfir einn lið í dagskránni og fór strax að lesa leiðbeiningarnar og þær eru nú eiginlega frekar flóknar finnst mér. Þegar ég bjó í Noregi var hægt að kaupa fatalit sem var í fljótandi formi og maður setti bara plastdallinn með litnum með flíkinni inn í þvottatromluna og svo sá þetta um sig sjálft. Já og salt líka. En hér á að setja flíkina + salt í tromluna og setja vélina af stað. Ekki nota forþvott. Þegar efnið er orðið gegnblautt og vatnið hæfilega heitt (hvernig veit ég hvað vatnið er heitt inni í vélinni???) er litarefnið leyst upp í 1/2 ltr af heitu vatni og ??? Það stendur ekkert um að það eigi að setja litarefnið í sápuhólfið en það hlýtur þó að vera. Næst á að leysa upp festirinn og hann er svo látinn í sápuhólfið. Flíkin á svo að vera í litarupplausninni í 40-60 mín. Jamm og jæja, ætli sé ekki best að vinda sér í þetta.

Já og hér heldur þessi beina útsending áfram... Nú er ég sem sagt búin að setja vélina af stað og þarf að finna eitthvað ílát sem má nota til að blanda litinn í. En svona rétt til að gera þetta svolítið spennandi þá vigtaði ég buxurnar og viti menn, þær voru 467 grömm en þetta magn af fatalit er skv. leiðbeiningunum bara hægt að nota til að lita 250 gr. Ég vona bara að þar sem buxurnar eru svartar fyrir þá taki þær betur lit...

En nú er ég farin að prenta út flugfarseðla og hætt þessari beinu blogg-útsendingu. Ciao.

mánudagur, 16. mars 2009

Styttist í Stokkhólmsferð

Já Valur fór suður í dag og fer út á morgun. Ég aftur á móti fer suður á miðvikudag, gisti hjá mömmu og Ásgrími aðfaranótt fimmtudags og flýg svo út á fimmtudagsmorgni. Þannig að þetta er allt að skella á. Vildi óska að mér tækist að hrista af mér þessa pesti áður en ég fer en það er víst fullmikil bjartsýni. Svo er bara spurningin hvað maður gerir sér til dægrastyttingar í Stokkhólmi. Veit sama og ekkert um borgina... en það hlýtur að vera hægt að rölta eitthvað um, sitja á kaffihúsum, kíkja á listasöfn, kíkja í búðir (sænska krónan er mun hagstæðari en sú danska), já og bara slappa af ef því er að skipta.

Synirnir verða einir í kotinu á meðan við spókum okkur í Sverige og verður forvitnilegt að sjá hvernig þeir pluma sig einir. Það er að segja, ég veit alveg að þeir geta séð um sig sjálfir, ég er bara ekki að sjá þá nenna að elda mat og þvíumlíkt. Mér finnst nú samt heldur gróft að þeir borði skyndibitafæði 4 daga í röð en það er erfitt að kontrollera það þegar maður er langt í burtu.

En það er ýmislegt smálegt sem þarf að gera áður en farið er í ferðalag og ég tók smá rispu í því í morgun. Fór t.d. og keypti kattamat og byrjaði aðeins að laga til í húsinu. Svo pakkaði ég líka ofan í tösku - hehe, í fyrsta skipti sem ég er svona tímanlega í því. Ástæðan var sú að við eigum bara tvær ferðatöskur, aðra pínulitla og hina meðalstóra og litla taskan er eiginlega of lítil fyrir eina manneskju. Til að leysa þessi töskuvandamál tók Valur megnið af mínum farangri með sér í dag. Þá þarf ég bara að kippa með mér ýmsu smálegu þegar ég kem.

Á morgun þarf ég svo að skila bókum á bókasafnið, lita einar buxur (ef ég nenni því), þvo þvott svo allt verði nú hreint þegar ég fer, prenta út farseðla, taka út pening og ... ég man ekki eftir fleiru. Jú og fara í vinnuna :-)

sunnudagur, 15. mars 2009

Fór á skíði - á þrjóskunni...

Já ég var búin að fá svoleiðis uppí kok af veikindum og slappleika að ég ákvað að fara á á skíði þrátt fyrir að vera eins og drusla. Langaði að sleikja sólina og upplifa að ég væri á lífi til tilbreytingar. Þannig að við Valur drifum okkur uppeftir. Ég hef ekki farið á skíði frá því rétt fyrir páska í fyrra, þegar ég datt úr T-lyftunni og fékk hnykk á bakið, já og svo brjósklos skömmu síðar. Þannig að ég var nú hálf stressuð, bæði útaf bakinu og eins útaf fætinum sem er jú ennþá ekki kominn með allan kraft. En þetta gekk furðu vel þó ekki hafi nú skíðastíllinn verið til að hrópa húrra yfir. Eftir þrjár ferðir ákvað ég hins vegar að láta staðar numið því ég fann að ég var orðin ansi þreytt. Enda er ég búin að vera eins og skítur síðan... þurfti meira að segja að leggja mig inní rúm því ég var alveg búin á því. Er ekki alveg að meika tilhugsunina um 12 stráka í afmælið hans Ísaks kl. 18 en sem betur fer eru þetta orðnir það stórir strákar að þeir hlaupa ekki lengur öskrandi um húsið ;)

laugardagur, 14. mars 2009

Ísak 14 ára í dag


Ísak íbygginn, originally uploaded by Guðný Pálína.

Og nú ætla ég ekki að segja neitt um það hvað tíminn líður hratt... En afmælisbarnið svaf út í morgun og er svo búinn að panta skinkuhorn í kaffinu og heimatilbúna pítsu með kvöldmatnum, þannig að hann er í góðum gír.

Peysan frá Önnu var svo sannarlega ætluð mér og hafði verið prjónuð fyrir mig af því mér var alltaf svo kalt. Þetta er ullarpeysa og hlý og góð. Það er á dagskránni að fá Val til að taka mynd af mér í peysunni svo Anna geti nú fengið að sjá hvernig hún lítur út á mér. Það var nú hálf fyndið, ég fór í peysunni í vinnuna á fimmtudaginn og þá var kona sem var eitthvað svo óttalega svifasein og utan við sig þegar hún var að borga. Ástæðan var sú að hún var að horfa á peysuna og hugsa hvað hún væri flott :)

Ég skellti mér á námskeið í háskólanum í gær. Efnið var "hámörkun reiðufjár frá rekstri". Ég sá það nú strax og ég byrjaði að fletta möppunni með námskeiðsgögnunum að fæst þarna var nýtt fyrir mér. Og við Sunna erum held ég barasta að gera það sem við getum í þessum málum. En í framhaldinu fór ég að hugsa um það hvílíkt magn af upplýsingum maður innbyrðir í 3ja ára háskólanámi og það sem maður notar ekki fljótlega eftir útskrift fellur fljótt í gleymskunnar dá. En vissulega er þetta einhvers staðar í geymslu í heilanum á manni og rifjast upp ef maður kíkir aftur í bók.

Og bara svona í lokin... ég var að segja við Ísak í gær að ég væri loksins að losna við pestina sem ég hef núna haft hangandi yfir mér í rúman hálfan mánuð. Nema hvað, vaknar mín ekki í morgun með hálsbólguskít og slappleika. Þetta er ekki einleikið. Sérstaklega þegar haft er í huga að samkvæmt nýlegum blóðprufum er ég heilbrigðasta kona á Akureyri og þótt víðar væri leitað! Ég var orðin svo óskaplega leið á því að vera alltaf svona þreytt og þó ég vissi að þetta væri bara vefjagigtin að hrella mig þá var ég að vona að kannski væri ég blóðlítil eða eitthvað væri að mér sem hægt væri að lækna. Þannig að ég fékk Val til að skrifa uppá blóðprufu og niðurstaðan var sem sagt þessi. Öll blóðgildi voru innan eðlilegra marka og sumt, eins og t.d. kólesteról var í toppstandi.

En nú er ég farin að gera deig í skinkuhorn. Hafið það gott í dag.

þriðjudagur, 10. mars 2009

Sending frá systur

Ég skil nú bara ekkert í þessu. Í gær fékk ég tilkynningu um að ég ætti sendingu á pósthúsinu en þar sem ég átti ekki von á neinu var ég ekkert að flýta mér að sækja hana. Ætlaði eiginlega að sleppa því í dag líka en af því ég átti leið í bæinn þá fór ég á póstinn í leiðinni. Sá þar að þetta var pakki frá Önnu systur í Noregi. Ekki átti ég nú von á neinni sendingu frá henni svo ég skildi ekki neitt í neinu. Og þó ég sé búin að opna pakkann þá skil ég eiginlega ekki ennþá neitt í neinu. Í pakkanum var nefnilega þessi stórglæsilega handprjónaða peysa og bók um bútasaum. Bókina skil ég því Anna er alltaf að þýða hannyrðabækur úr norsku - en þetta með peysuna er ég ekki alveg að fatta. Varla hefur hún systir mín verið að prjóna heila peysu á litlu systur sína? Og þó, það er eina skýringin, af hverju hefði hún annars átt að vera að senda mér hana. Púff, ég er bara alveg orðlaus og þarf greinilega að hringja í Önnu til að fá útskýringu. En... ég fer að verða of sein í vinnuna, á eftir að græja mig + var að hugsa um að ganga í góða veðrinu. Og svo er Anna örugglega ennþá í sinni vinnu þó það sé tímamismunur... þannig að ég mun víst ekki hringja alveg einn tveir og þrír. En vá ekkert smá flott peysa!

laugardagur, 7. mars 2009

Laugardagur = letidagur, eða hvað?

Aldrei þessu vant var ég vöknuð klukkan átta á laugardagsmorgni. Ástæðan gæti hugsanlega verið sú að í gærmorgun lagði ég mig þegar Ísak var farinn í skólann og svaf nánast allan morguninn og vaknaði ekki fyrr en kl. 11.30. Hélt kannski að þá myndi ég ekki geta sofnað í gærkvöldi en var komin uppí rúm um ellefuleytið og steinsofnaði. Sennilega einhver víruspestar-eftirþreyta í gangi. Úthaldið er nú frekar lélegt ennþá eins og ég sá á fimmtudaginn. Þá fór ég að stússast í smá lagertiltekt í vinnunni og steingleymdi að ég væri nýbúin að vera veik. Svo bara helltist þreytan og slappleikinn yfir mig og ég var alveg að gefa upp öndina restina af deginum. Ég fór reyndar á hárgeiðslustofu, sem krafðist nú ekki annars en að ég sæti þar nokkurn veginn upprétt...

Í dag fer ég svo að vinna frá 13-17 og síðan er árshátíð hjá Læknastofum Akureyrar sem byrjar með fordrykk í heimahúsi kl. 18, þannig að það verður ekki mikil afslöppun í dag. Og nú er ég að bræða það með mér hvort ég eigi að nenna í sund. Það opnar ekki fyrr en kl. 10 og þá fyllist laugin af krökkum á sundæfingu, gamalmennum, og fólki eins og mér, þannig að ekkert pláss verður til að synda. En ég gæti nú samt farið í pott, gufu og kalda sturtu. Svo var ég að spá í að kíkja aðeins í eina tískuverslun sem auglýsti 20% afslátt af öllum vörum núna um helgina.

Birta gamla er að drepast úr athyglissýki þessa dagana og hefur elt mig á röndum í morgun til að fá klapp og klór. Svo þegar hún fær klapp og byrjar að mala þá verður Máni afbrýðissamur og kemur til að fá sinn skerf. Ekki veit ég nú samt hvar hann er núna því við Birta "sitjum" hér í sófanum saman og hann er hvergi sjáanlegur. Hún er búin að reyna að troða trýninu og sjálfri sér inní mig (ég er ekki að grínast, hún stakk hausnum undir handarkrikann á mér og reyndi að komast lengra þar inn) en sættist loks á að leggjast við hliðina á mér. Og viti menn, þarna birtist Máni og ætlar að reyna að leggjast ofan á mig en honum er vísað á brott og gerir sér að góðu að leggjast á púða við hliðina á Birtu. En nú held ég að ég drífi mig bara í sund.

miðvikudagur, 4. mars 2009

Að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið...

er ekki alltaf auðvelt. Sannaðist það núna áðan þegar ég ætlaði að halda áfram að prjóna rauðu ullarsokkana mína sem hafa verið á prjónunum í ca eitt ár núna (held ég). Ég var búin með annan sokkinn og svo langt komin með hinn að ég átti bara eftir að taka úr fyrir tánum og loka. Nema hvað, þegar ég fór að bera sokkana saman og máta þá báða tók ég eftir því að annar var töluvert víðari en hinn. Taldi lykkjurnar og viti menn - á meðan sá fyrri var bara 32 lykkjur var hinn síðari 36 lykkjur. Ég áttaði mig á því að ég hafði farið eftir stærð fyrir 10-12 ára með fyrri sokkinn en dömustærð fyrir þann seinni... Þannig að það lykkjurnar fengu að fjúka ein eftir aðra þar til komið var að hælnum þar sem mistökin höfðu átt sér stað. Og svo byrjaði ég að uppá nýtt og er næstum komin að tánni aftur. Ætlaði ekki að sleppa prjónunum fyrr en sokkurinn væri búinn (til að draga úr líkunum á öðrum mistökum) en var orðin svo lúin í hor-höfðinu og augunum að ég held að ég sé hætt í bili.

Loksins að skána af pestinni

Eftir alveg skelfilegan dag í gær vaknaði ég loks í morgun hakinu skárri og hélt svo bara áfram að skána fram eftir degi. Ég fór meira að segja í sund í morgun, í fyrsta skipti í heila viku. Synti reyndar ekki neitt en fór bara í heita pottinn og gufu. Svo þegar ég var að fara út úr gufunni þá var það stóra spurningin, átti ég að fara í kalda sturtu eins og venjulega eða sleppa því sökum slappleika? Ég tvísté þarna í smá stund en ákvað að skella mér undir köldu bununa. Held að það hafi ekki sakað neitt. Nú er bara að vona að ég haldi áfram að hrista af mér slenið, því það er árshátíð hjá Læknastofum Akureyrar um helgina. Ég missti nefnilega af henni í fyrra því þá var ég nýkomin úr brjósklosaðgerðinni og það væri hálf fúlt að missa af henni annað árið í röð.
Annars er allt ósköp tíðindalítið. Maður verður svo andlaus af að hanga svona veikur heima og mér dettur fátt í hug til að tjá mig um hér á blogginu. Ég fékk reyndar þá flugu í höfuðið áðan að draga fram prjónana mína og þar sem ég er með tvö gömul verkefni í gangi þá ætti það að vera lauflétt verk, þ.e. að draga fram prjónadótið - spurning hvernig gengur að koma sér að verki...?
En þessa helgina er það sem sagt árshátíð, næstu helgi á Ísak 14 ára afmæli og þarnæstu helgi er það Stokkhólmur, svo það er nú eiginlega bara nóg að gera á næstunni og ekkert nema gott um það að segja.
Úff, þegar ég byrja að glápa á tövluskjáinn finn ég að verkirnir í augunum eru ekki alveg búnir að yfirgefa mig ennþá. Líklega einhver ennisholubólga að stríða mér. Þannig að ég er bara hætt þessu, over and out.

sunnudagur, 1. mars 2009

Að fara eftir ráðleggingum annarra... getur verið erfitt

Já, það voru þónokkrir búnir að segja mér að ég ætti að fara vel með mig því þetta væri þrálát pesti. En af því mér fannst ég bara EKKI NÓGU VEIK þá tók ég því bara rólega einn dag og fór svo í vinnu föstudag og laugardag. Var reyndar alveg eins og drusla í gær og ætlaði heim um hálf fjögur en þá kom vinkona mín að sunnan í heimsókn í búðina og ég settist með henni og einni annarri á kaffihúsið fyrir utan Potta og prik. Þar sátum við til rúmlega fimm og spjölluðum og ég var ýmist alveg að drepast eða aðeins hressari. Í gærkvöldi var ég alveg búin á því og ætlaði aldrei að geta sofnað fyrir vanlíðan. Og þegar ég vaknaði í morgun var mér gjörsamlega alls staðar illt. Með beinverki í öllum skrokknum, með hrikalegan höfuðverk og illt í augunum. Þannig að í dag er ég að minnsta kosti alveg nógu veik fyrir minn smekk...