fimmtudagur, 25. desember 2008

Ég sofnaði ekki ofan í diskinn í jólamáltíðinni

en hins vegar var enginn bókalestur fram á nótt. Við "gamla settið" fórum í háttinn fyrir klukkan ellefu og ég svaf til hálf ellefu í morgun, hvorki meira né minna! Annars gekk aðfangadagur og kvöldið afskaplega vel fyrir sig. Valur sá um jólamatinn að venju og eldaði bæði hangikjöt og hamborgarahrygg. Þegar ég kom heim úr vinnunni kláraði ég að pakka inn gjöfum, lagðaði til í stofunni og lagði á borð. Á meðan hlustaði ég á jólaplötu með Sissel Kyrkjebö, í fyrsta sinn fyrir þessi jól. Nokkuð sem mér var bent á en hafði ekki sjálf hugsað út í. Þessi plata er í miklu uppáhaldi hjá mér og ekki finnst mér leiðinlegt að gaula með. Það hefur nú reyndar verið við mismikla hrifningu annarra fjölskyldumeðlima - en þetta er greinilega orðinn órjúfanlegur hluti jólanna hér í húsinu því það voru allir voða glaðir þegar Sissel var komin á fóninn.

Það er árviss viðburður að Valur tekur myndir af krökkunum fyrir framan jólatréð og á því var engin undantekning í gær. Hins vegar getur það verið þrautin þyngri að ná góðri mynd af þeim öllum þremur. Ef Hrefna myndast vel þá er pottþétt að Andri og Ísak eru eitthvað skrítnir á myndinni (Ísak t.d. að fíflast eitthvað) og svo öfugt. En hér kemur skásta myndin frá því í gær:

og svo ein af feðgum tveimur:

Ísak jólabarn :-)

og eins og sjá má þá fengum við Hrefna báðar sömu bókina í jólagjöf.

Engin ummæli: