mánudagur, 22. desember 2008

Freistingar, freistingar....

Já ég sé að jólin gætu hugsanlega orðið skeinuhætt mínum nýja lífsstíl. Smákökurnar þó aðallega. Í gær var ég að setja krem í mömmukossana sem Valur bakaði og mikið sem það var óskaplega freistandi að sleikja kremið sem slæddist á puttana á mér. Þannig að einn og hálfur mömmukoss og smá smjörkrem endaði ofan í mínum maga. Í kvöld var ég svo að setja suðusúkkulaði ofan á kókos-og haframjölssmákökurnar (sem Valur bakaði líka) og án þess að ég vissi af því var ég síendurtekið farin að sleikja puttana. Þannig að ég setti upp plasthanska... og engin kaka fór ofan í minn maga. Það er reyndar allt í lagi að fá sér eina og eina köku, ég dey ekkert af því. Það kemur bara af stað sykurlönguninni og þá er hætt við að ég springi á limminu. En þar sem ég hef staðist þetta síðan í ágúst þá langar mig ekki að gefast upp núna. Finn alveg hvað þetta nýja mataræði gerir mér gott. Sérstaklega auðvitað að borða allt salatið og grænmetið en líka að sleppa sykrinum og hveitinu. Svo fékk ég frábæra uppskrift að morgunsjeik hjá Ingu Kristjánsdóttur næringarþerapista og þegar ég borða hann (sem er nánast alla morgna) þá er ég södd í ca. 3 tíma á eftir og langar ekki vitund í sætindi. Innihaldið er; frosin ber, kasjúhnetur (sem ég bætti reyndar við), hörfræolía, hrísmjólk og hreint mysuprótein. Próteinið er reyndar hrikalega dýrt hér á kreppu-landi en ein stór dolla dugar í marga margra hristinga. Og síðast en ekki síst þá fer þetta afar vel í magann á mér. Plús að eftir að ég fór að borða olíuna á hverjum morgni þá er húðin á mér miklu betri og er hætt að springa á fingrunum. Hm, þetta varð kannski eitthvað skrítinn pistill en skýrist væntanlega af því að ég er nánast með óráði af þreytu og er í þessum skrifuðu orðum á leið í háttinn.

Engin ummæli: