laugardagur, 30. ágúst 2008
Jæja, nýr pistill kl. 1.30 að nóttu... hvað er í gangi?
Ekkert í gangi - venjulega er ég að vísu steinsofandi á þessum tíma sólarhrings en aðstæður eru svolítið frábrugðnar að þessu sinni. Valur er í veiði, síðasta veiðitúr sumarsins, Andri er úti með vinum sínum, Ísak gistir hjá vini sínum og ég var í heimsókn hjá vinkonu minni og vaki þess vegna lengur en venjulega. Annars er ég eiginlega að fara að sofa. Fór bara að kíkja í tölvuna þegar ég kom heim og gleymdi mér aðeins í Flickr... Setti inn tvær myndir í dag frá ferð minni í Mývatnssveit í morgun. Ferð, eða skottúr öðru nafni. Þegar ég kom heim úr vinnunni um sjöleytið í gærkvöldi sá ég vöðluskó eiginmannsins ásamt ullarsokkum standa umkomulausa á bílaplaninu. Höfðu þeir gleymst í flýtinum þegar verið var að leggja af stað í veiðina í gær. Í morgun hringdi ég á hópferðamiðstöðina kl. 08.01 til að spyrja um ferðir austur og var þá tilkynnt að rútan í Mývatnssveit hefði farið kl. 08.00. Þannig að einungis einn kostur var í stöðunni - að aka austur með skóna (og sokkana) áður en ég þurfti að mæta í vinnu kl. 13. Ég skutlaði í mig skyri með rjóma, og eggi, og lagði af stað akandi á mínum fína frúarbíl. Var komin í Mývatnssveit nákvæmlega 60 mín. síðar og reyndi að hringja í Val en hann hefur ekki heyrt í símanum fyrir hávaðaroki sem ætlaði mig að æra. Ég fór með skóna í veiðihúsið og ók í Skútustaði til að kaupa mér kaloríur fyrir heimferðina. Þar var veðurofsinn þvílíkur að ég þurfti að leggjast á hurðina á sjoppunni til að geta lokað henni. Ók ég síðan heim á leið, lagði mig og fór svo að vinna kl. 13. Já, ég gleymdi að segja frá því að ég tók nokkrar myndir á leiðinni en fæstar tókust, sá fleiri myndefni en þar sem ég var með bílinn stilltan á "cruise control" þá nennti ég ekki að stoppa á réttum stöðum... = hámark letinnar!! En hér má sjá smá myndasýnishorn...Ótrúlegt en satt að þessar myndir voru teknar með ca. 20 mínútna millibili - ekki á sama staðnum samt.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli