til þess að taka til í herberginu hans Ísaks. Raunar er það ekki hefðbundin tiltekt sem stendur fyrir dyrum heldur ögn meira en það. Þar sem pilturinn er nú á fjórtánda aldursári er kominn tími til að gera herbergið hans örlítið fullorðinslegra (eða unglingalegra?). Taka niður gardínurnar með bílamyndunum, pakka niður legóinu og öðru dóti sem er ekki notað lengur, þrífa veggina, þurrka ryk af bókum og pakka einhverjum þeirra niður. Einnig stendur til að færa rúmið og fleiri húsgögn í herberginu svo það komi meira "nýjabrum" á þetta allt saman. Einhvern tímann hefði ég stokkið í þetta og ekki hætt fyrr en allt væri búið + nýjar gardínur saumaðar og komnar upp... en það var einhvern tímann. Núna er ég bara ekki að hafa mig í þetta. Tók smá syrpu í gærkvöldi og ætla að taka smá syrpu núna á eftir. Fór reyndar í dag og keypti efni í nýjar gardínur sem ég held að verði OK en sé það ekki almennilega fyrr en í dagsbirtu á morgun. Þegar þetta er skrifað er rigningarsuddi og þungbúið úti svo lýsingin er ekki nógu góð til að hægt sé að dæma í gardínumálinu.
Annars er ég óttalega tuskuleg þessa dagana, ekki beint sú hressasta. Mér tekst að vísu að halda mér gangandi á meðan ég er í vinnunni en hryn saman þegar ég kem heim. Vonum bara að þessi slappleiki fari að rjátlast af mér. Andri var líka veikur í síðustu viku en hann var raunverulega veikur, öfugt við mömmu hans. Sem betur fer er hann að hressast því hann ætlar að skella sér til Kaupmannahafnar og Malmö með kærustunni á sunnudaginn kemur. Ísak er hins vegar ekki á leið í neina utanlandsferð heldur byrjar í skólanum á miðvikudaginn. Valur er farinn að vinna eftir sumarfrí en það hindrar hann sem betur fer ekki í að skella sér í síðustu veiðiferð sumarsins síðar í vikunni. Hvað mig varðar þá gæti ég nú vel hugsað mér snögga ferð til Oslóar að hitta hana systur mína en verður víst að bíða betri tíma.
Og nú held ég að sé kominn tími til að setja upp rykgrímu og ráðast til atlögu við bókahilluna inni í Ísaks herbergi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli