fimmtudagur, 29. mars 2007

Og áframhaldandi fjör...

Búið að skila skattaskýrslunni, bókhaldið nánast búið, þetta er allt í áttina. Ég hef samt haft óvenju mikið að gera undanfarið og meira að segja sundið hefur farið halloka þessa vikuna. Meðal annars dreif ég mig ásamt 549 öðrum akureyskum konum á leiðtoganámskeið núna í vikunni. Ég var nú hálf efins í fyrstu af því námskeiðið er í boði Sjálfstæðisflokksins - en ákvað svo að það væri sama hvaðan gott kæmi. Á þriðjudagskvöldið var fyrirlestur með Ásdísi Höllu Bragadóttur og skemmst er frá að segja að hún var skemmtilegur fyrirlesari og ýmislegt sem hún sagði ýtti við mér. Það er oft þannig á námskeiðum að maður er kannski ekki beint að heyra svo margt nýtt en samt rifjast ýmislegt upp og kannski einmitt hlutir sem maður þarf á að halda í augnablikinu. En fyrir utan innihald fyrirlestursins þá var það í rauninni afar sérstök upplifun að sitja í sal með öllum þessum konum. Þetta voru konur á öllum aldri og af ýmsum þjóðernum. Og ég þekkti eða kannaðist við alveg ótrúlega margar. En nú er best að hætta þessu rausi og taka sig til fyrir námskeiðskvöld nr. 2.

Engin ummæli: