laugardagur, 10. mars 2007

Góður dagur

Ísak er að keppa á Goðamótinu í knattspyrnu þessa helgina og spilar í allt fimm eða sex leiki, allt eftir því hvort þeir komast í úrslit i sínum riðli. Hann byrjaði reyndar mótið ekkert smá vel, skoraði einu tvö mörkin sem hans lið skoraði í fyrsta leiknum og var mjög ánægður með það eins og gefur að skilja.

Í morgun átti hann svo leik klukkan tíu og við foreldrarnir fórum og horfðum á. Eftir leikinn fórum við heim og fengum okkur kaffi og brauð úr Bakaríinu við brúna en skelltum okkur svo upp í fjall og náðum þar rúmum klukkutíma í alveg hreint yndislegu veðri, sól og hita. Færið var líka frábært svo ég var hreint og beint í sæluvímu. Brunuðum svo í bæinn og sáum næsta leik hjá Ísak en það var fyrsti leikurinn sem þeir töpuðu. Þeir voru ógurlega svekktir en svona eru víst íþróttirnar.

Eftir að hafa ryksugað alla efri hæðina (synirnir sáu reyndar um sín herbergi, verst að kettirnir geta ekki ryksugað öll hárin eftir sig) skutlaði ég Ísak að kaupa laugardagsnammi og keypti í matinn. Var í svo góðum gír að ég dreif mig í góðan göngutúr og var ægilega ánægð með sjálfa mig á eftir.

Svo eldaði Valur rétt sem er í matreiðslubók Jóhönnu Vigdísar fréttakonu og er alveg rosalega einfaldur en engu að síður bragðgóður. Í honum á reyndar að vera kálfakjöt en það fæst aldrei hér í verslunum svo við vorum með svínalundir í staðinn og það virkaði vel.

Nú er Ísak farinn á kvöldvöku, Andri er á sínum venjulega stað fyrir framan tölvuna og ætli styttist ekki í það að við foreldrarnir deyjum heiladauða fyrir framan imbakassann. En það er líka allt í lagi þegar maður er búinn að eiga svona góðan dag :O)

Engin ummæli: