sunnudagur, 19. nóvember 2006

Morgunsund gefur gull í mund

er sem sagt búin að fara og synda í morgun - í þetta sinn með eiginmanninum. Við vorum búin að ákveða í gær að vakna snemma og drífa okkur í sund (ég fór nefnilega ekki á föstudaginn af því þá var fundur í Lundarskóla, ekki í gær af því þá var ég löt og kemst ekki á morgun af því ég fer á fund kl. 8).

Í gærkvöldi fórum við hins vegar út að borða á Karólínu Restaurant og fengum þar ágætis mat. Langvíu í forrétt, hreindýr í aðalrétt og súkkulaðisufflé í eftirrétt. Nema hvað, ég er orðin svo óvön að borða mat sem er þungur í maga (og þoli reyndar ekki sveppi og það var hellingur af þeim með hreindýrinu - en mér finnst þeir góðir og borðaði þá gegn betri vitund), svo ég gat ekki sofnað fyrr en seint og um síðir í gær af því mér var svo illt í maganum.

Vaknaði samt uppúr átta og við fórum í sundið eins og áætlað hafði verið. Valur og Ísak drifu sig svo í Fjallið en ég er með bólgið hné og kemst ekki með. Ætlaði þá að vera rosa dugleg og vinna í tölvunni - en er svo syfjuð núna að ég er alveg að drepast. Sótti dagsbirtulampann minn fram í eldhús ef ske kynni að hann hjálpaði mér að vakna en enn sem komið er hefur hann lítil áhrif. Hm, hvað gera bændur þá?

Engin ummæli: