fimmtudagur, 9. nóvember 2006

Hef verið að hugsa um allt fólkið sem

maður kynnist á lífsleiðinni, á samleið með í vissan tíma en svo skilja leiðir. Í mínu tilfelli eru þetta reyndar aðallega konur þó einn og einn karlmaður slæðist reyndar með. En ef við tökum t.d. dæmi þá erum við búin að búa í tólf ár á Akureyri (í þessari lotu) og á þeim tíma hef ég kynnst mörgum nýjum konum og endurnýjað kynnin við aðrar. Nema hvað, svo bara flytja þessar sömu konur í burtu (flestar til Reykjavíkur) og eftir sit ég með sárt ennið...

Sólrún sem ég kynntist á óléttunámskeiði og var seinna með í blaki, saumaklúbb og kvennaklúbb (flutt suður), Hjördís sem ég var með í sauma- og kvennaklúbb (flutt suður), Tobba sem var í kvennaklúbbnum (flutt suður), Ester sem ég var með í saumaklúbb (flutt suður), Eva sem ég kynntist í háskólanum (flutt til Bandaríkjanna, Dodda sem ég kynntist líka í háskólanum (flutti til Englands og svo til Reykjavíkur) Inga og Dóri, vinafólk okkar sem við fórum m.a. með í afar skemmtilega ferð til Ítalíu (fluttu suður) og ... nú man ég allt í einu ekki eftir fleirum þó ég viti að þær séu fleiri. Þegar Sólrún, Ester og Hjördís voru allar fluttar suður lagðist saumaklúbburinn af og þá hætti ég líka að hitta Rögnu, Hönnu Dóru og Agnesi, svo það voru sannkölluð samlegðaráhrif til hins verra þar. Og þegar ég hætti að vinna í Háskólanum s.l. vor þá hætti ég líka að hitta margt skemmtilegt fólk sem ég umgekkst daglega, eins og t.d. fólkið í húsumsjóninni, konurnar í mötuneytinu og samkennara mína sem voru margir hverjir alveg ágætir.

Ef ég fer lengra aftur í tíma þá kynntist ég frábærum konum í Tromsö sem ég hef alveg tapað sambandinu við s.s. Stínu sem nú býr á Ólafsfirði, Helgu sem er komin á Sauðárkrók, Ólöfu sem er í Reykjavík, Láru sem enn er í Tromsö, Valborgu systur hennar sem er í Mosfellsbæ ásamt Berglindi, Anne-Marie sem ég held að sé í Brussel, Ásthildi sem er í Reykjavík og Annie sem ég var með í sálfræðinni og býr einhvers staðar í Noregi. Í Bergen voru það hin norska Unni, hin austur-þýska Kerstin og ... arg, nú man ég ekki hvað hún heitir en hún er íslensk og átti heima ekki svo langt frá okkur. Í Förde voru Jens og Astrid sem m.a. pössuðu Hrefnu meðan ég fór á sjúkrahúsið og fæddi Andra.

Ég held að ég láti þessari upptalningu hér með lokið en bottom line í þessu öllu saman er, að þrátt fyrir að maður komi kannski í manns stað, þá er enginn eins og ég sakna þessa fólks sem einu sinni var hluti af lífi mínu en er það ekki lengur.

Jákvæða hliðin er reyndar sú að ég er enn að kynnast nýju frábæru fólki, t.d. í kvöld fór ég á fyrirtækjakynningu hjá norðankonum í FKA og myndaði þar ný tengsl sem kannski eiga seinna meir eftir að verða meiri :-)

Engin ummæli: