fimmtudagur, 1. júní 2006

Það sem fólki dettur í hug

Við eigum heima nálægt verslunar- og þjónustumiðstöð sem heitir Kaupangur. Þar eru m.a. matvöruverslun, blómabúð, hárgreiðslustofa, tannlæknir, dýralæknir og fleira. Frá því ég man eftir mér hefur líka verið Shell bensínstöð þarna en s.l. haust hætti hún og Orkan kom í staðinn. Húsið sem hýsti bensínsöluna hefur staðið autt síðan þá en einhvern orðróm hef ég heyrt um að Jón Sprettur (sem er pítsu "take-away") eigi að koma þarna. Undanfarið hefur greinilega eitthvað verið að gerast, verið að vinna innandyra og í gær mætti grafa á svæðið. Grafan hefur verið notuð til að rífa upp malbikið næst húsinu og því datt okkur í hug að meiningin væri að stækka við húsið. Nú er ég sem sagt loks að komast að efninu:

Þegar ég var á leið heim úr 10-11 fyrr í dag ók ég fram hjá gröfunni þar sem hún stóð á planinu við (fyrrum) bensínstöðina. Ég sá að gröfumaðurinn stóð þétt upp við vinnuvélina og var að horfa undarlega laumulega í kringum sig. Skimaði í allar áttir - en aðeins höfuðið snérist, búkurinn var kyrr. Ég varð auðvitað forvitin og fór að horfa betur á hann, hvað í ósköpunum var hann að gera sem enginn mátti sjá? Jú, blessaður drengurinn var að kasta af sér þvagi. Á miðju bílaplani, í miðjum bæ, stóð hann og pissaði utan í eitt dekk gröfunnar. Honum hlýtur aldeilis að hafa orðið brátt...

Engin ummæli: