mánudagur, 19. júní 2006

Ekki beint hægt að segja að bloggandinn

sé yfir mér þessa dagana. Samt er ýmislegt að gerast, svo ekki er það vegna þess að umfjöllunarefnin skorti. En síðan ég bloggaði síðast hefur þetta m.a. gerst:

- Ég fór ásamt vinkonu minni á ball í íþróttahöllinni en það er árlegur viðburður á 16. júní að gamlir M.A. stúdentar koma þar saman og endurnýja gömul kynni. Ekki hafði ég nú ætlað út þetta kvöld en dreif mig engu að síður og þetta var bara mjög skemmtilegt. Hitti t.d. konu sem bjó í Tromsö um leið og ég og það var virkilega gaman. Eftir ballið fórum við svo hingað heim og ég spældi egg í brauði og við vinkonurnar spjölluðum heillengi saman ;-)

- Á sautjándanum ákvað ég að rifja upp hvernig það er að fara í bæinn á þjóðhátíðardaginn og dró Hrefnu og Ísak með mér. Sá fljótt að ég hef ekki verið að missa af miklu þó ég hafi látið hátíðahöldin fara framhjá mér að mestu undanfarin ár. En það var margt um manninn í bænum og mörg kunnugleg andlit og það er nú aldrei leiðinlegt að hitta vini og kunningja þó í mýflugumynd sé.

- Þann átjánda kom Valur aftur úr veiðinni ásamt bræðrum sínum og bróðursyni. Þegar ég heyrði að von væri á þeim fór ég og keypti brauð og köku í Bakaríinu við brúna og svo hellti Valur upp á sitt eðalkaffi og allir töluðu hver upp í annan - alveg eins og venjulega... Þeir voru náttúrulega frekar glaðir, veiðin hafði gengið vel og allir sáttir við sitt.

- Í dag fór ég í sund og sjúkraþjálfun og reitti arfa í garðinum - áður en ég fór í vinnu klukkan tíu, bara nokkuð gott hjá mér...

- Í dag fórum við Valur líka og horfðum á Ísak og félagar spila á móti Tindastóli. Gestirnir náðu því miður ekki að skora eitt einasta mark en fengu ca. tíu mörk á sig. Það hefði nú verið ólíkt skemmtilegra ef þeir hefðu náð að skora eitthvað, það er erfitt að halda haus þegar leikurinn er svona ójafn.

- Á morgun kemur svo Sigurður systursonur minn og þá verður örugglega kátt í höllinni - þeim frændum finnst nú ekki leiðinlegt að hittast og í þetta sinn ætlar Sigurður að vera hjá okkur í nærri tvær vikur.

- Á morgun fer Sunna í sumarfrí svo ég verð ein með búðina. Finnst ég vera búin að ná þessu svona í grófum dráttum svo vonandi geri ég engar gloríur...

Læt þessari upptalningu hér með lokið, ef einhver er enn að lesa á hann heiður skilinn.

Engin ummæli: