laugardagur, 2. janúar 2021

Enginn 2020 annáll í dag heldur

eða það sýnist mér ekki. Ég opnaði samt ljósmyndaforritið í símanum og fór að skoða myndir, í því skyni að velja eina fyrir hvern mánuð - en fyrir utan myndir af landslagi og fjölskyldu, þá voru myndir af mat og matvörum mest áberandi. Helgast það af því að í janúar byrjaði ég að vinna aftur eftir afskaplega langt hlé. Vissulega bara hlutastarf í verktakavinnu, nokkuð sem hentar mér mjög vel. 

Og hvar fór konan þá að vinna? Jú ég sagði einhvern tímann frá því hér á blogginuég fór á námskeið hjá Hildi í Heilsubankanum þar sem ég tók mataræðið algjörlega í gegn og vonaðist eftir bættri heilsu í kjölfarið.  Sú heilsubót lét vissulega á sér standa, en rúmu ári síðar var ég hins vegar farin að sjá verulega breytingu á mér til hins betra. Ég hefði líklega aldrei þraukað þetta lengi nema af því Valur tók þátt í þessu nýja mataræði með mér og var svo glaður með sinn árangur að fyrir honum var það augljóst mál að halda þessu áfram. Þannig að í nóv/des 2019 var ég orðin það orkumikil að mér var farið að leiðast og datt í hug að skrifa Hildi og spyrja hvort hana vantaði nokkuð manneskju í vinnu. Ég gæti t.d. þýtt greinar fyrir Heilsubankann eða gert annað tilfallandi. Um miðjan janúar 2020 hafði Hildur svo samband og bauð mér vinnu :) Verkefnin sem ég sinni eru afskaplega fjölbreytt og sumt er ég að gera í allra fyrsta sinn s.s. að klippa myndbönd ;) en það er engin lognmolla og ég er afskaplega glöð að geta komið að gagni.

Og hvar koma matarmyndirnar inn í þetta? Jú eitt af því sem felst í vinnunni hjá mér er að halda utan um facebook hópa fyrir fólk sem er á námskeiðunum. Og þar sem allir eru að gera svo miklar breytingar á mataræðinu þá er matur og uppskriftir að nýjum réttum fyrirferðamikið umræðuefni í hópunum. Eins var farið í það á árinu að útbúa vandað uppskriftahefti og þá vantaði ljósmyndir að ýmsum réttum - sem ég átti nokkrar - en aðra rétti bjó ég til og ljósmyndaði sérstaklega. 

Eitt af því sem fylgir því að vera á sérfæði er að þurfa að sýna fyrirhyggjusemi þegar farið er í ferðalög. Kaupa inn, útbúa fyrirfram, baka brauð, gera nesti ... Þannig að ég ætla að ljúka þessum pistli með mynd sem Valur tók af mér í einni hjólhýsaferð sumarsins, þar sem ég er að fara að gæða mér á brauði, rækjusalati og sultu, öllu heimatilbúnu. Og allt laust við mjólkurvörur, glúten og egg. Ef ekki væri fyrir rækjurnar þá væri þetta vegan ;) en við erum ekki vegan - borðum fisk og stundum lambakjöt :) 


P.S. Bloggfærsla 2/100 á árinu 2021.


Engin ummæli: