Ef það er hægt að tala um kofaveiki (e. cabin fever) þegar maður er í raun ekki innilokaður. Og ég kemst í sund og út að ganga og í verslanir og ... En engu að síður er ég orðin þreytt á tilbreytingarleysinu sem fylgir þessu covid ástandi, það verður bara að segjast eins og er. Það er kannski hálf fyndið í ljósi þess að ég er alls ekki manneskjan sem er út um allt svona dags daglega. Við lifum frekar rólegu lífi.
Ég fann það samt um daginn þegar ég fór suður að heimsækja fólkið mitt (mömmu og Andra og fjölskyldu), hvað það léttist á mér brúnin þegar ég var lögð af stað keyrandi suður yfir heiðar.
Eiginlega finnst mér það hálfgert vanþakklæti að vera svona leið á þessu - það hefur enginn mér nákominn veikst og við Íslendingar höfum haft það ótrúlega gott miðað við margar aðrar þjóðir. En það breytir því samt ekki hvernig mér líður.
Ég var eitthvað að ræða þetta við Val í kvöldmatnum fyrr í vikunni og þá stakk hann uppá því að við færum út á Svalbarðseyri eftir matinn og tækjum myndir í myrkrinu. Það fannst mér hin ágætasta uppástunga og við drifum okkur af stað. Og viti menn - pirringur og leiði breyttist fljótt í núvitund og slökun. Það var frost úti og blankalogn, sjórinn gutlaði upp við fjörusteinana og vitinn lýsti taktfast upp umhverfið. Dásamlegt alveg hreint!
P.S. Þetta er bloggfærsla 7/100 í bloggáskorun ársins 2021