sunnudagur, 18. október 2015

Sýnishorn frá ljósmyndasýningu

Ljósmyndaklúbburinn minn er ótrúlega duglegur að halda sýningar. Ég hefði líklega aldrei orðið meðlimur í þessum klúbbi, hefði ég frá upphafi vitað hvað yrðu margar sýningar ;-) en mér finnst þetta sýningarstúss alltaf jafn erfitt. Erfitt að velja myndir og enn erfiðara að stilla þeim upp til sýnis fyrir sýningargesti. Sem er reyndar mjög fyndið þegar ég hugsa um það, því mér finnst ekkert erfitt að setja myndirnar mínar á netið þar sem enn fleiri geta séð þær. 
En mér finnst ég einhvern veginn verða svo berskjölduð - þó þetta séu bara ljósmyndir! 
Hingað til hefur venjan verið sú að klúbburinn ákveður sameiginlegt þema og þá er bara að laga sig að því þema sem verður fyrir valinu hverju sinni. Í þetta sinn var um 5 ára afmælissýningu að ræða og nú fékk hver og ein kona að hafa frjálsar hendur varðandi val á myndefni og framsetningu. Einhver hefði nú kannski haldið að þá einfaldaðist málið, en sú var ekki raunin í mínu tilfelli. 
Fyrst ætlaði ég bara að hafa eina stóra mynd en tókst bara alls ekki að velja eina mynd sem mig langaði að vera með á sýningunni. Úr varð að ég bjó til þrjár mynda-samsetningar sem ég síðan lét prenta fyrir mig í stærðinni 45x30. Það hafði verið talað um að hver okkar hefði til umráða ca. 1 metra á breidd, eða 80 cm. ef maður gerir ráð fyrir bili á milli okkar. Miðað við það þá hefði ég nú átt að láta prenta stærri myndir, og enn frekar þegar kom svo á daginn að hver og ein fékk töluvert meira en metra fyrir sig. Plássið mitt var amk 1,5-2 metra breitt, þannig að þó ég raðaði myndunum þremur lárétt hlið við hlið, þá bara voru þær svo litlar eitthvað í rýminu. Mest langaði mig til þess að fara heim og sækja stóra strigamynd sem ég á og hengja hana upp í staðinn. En hugsaði sem svo að þar sem ég hefði nú haft mikið fyrir því að finna þessar myndir, raða þeim saman, láta prenta þær og setja á fóm, þá skyldu þær bara fá að hanga þarna. Og hana nú! 
Svo fór ég í frí til Spánar og sá ekki sýninguna í heild sinni fyrr en í dag. Þá þyrmdi yfir mig hvað myndirnar voru eitthvað hæverskar þarna á veggnum ... en ætli megi ekki bara segja að þetta hafi verið ágætis æfing í að sleppa aðeins tökunum og láta fullkomnunaráráttuna ekki ná stjórn á mér. 
En já hér að ofan má sjá umræddar myndir (sem njóta sín mun betur á tölvuskjá en stórum vegg) og hér að neðan er texti sem ég sauð saman og lét fylgja þeim á sýningunni.
Með myndavél í hönd
gleymi ég umheiminum um stund.
Hugurinn tæmist,
öll vandamál hverfa á braut. 
Í gegnum linsuna
upplifi ég umhverfið á annan hátt.
Sé það sem áður var hulið,
fegurðina í hinu smáa,
galdrana í geislum sólarinnar. 
Stundum vel ég myndefnið,
en oftast er það myndefnið sem velur mig.
Himinn og haf,
mosavaxin marmarasúla,
ryðgaður olíutankur í síðdegissól. 
Þetta áhugamál hefur gefið mér
nýja sýn á náttúruna
og þá töfra sem tilveran býr yfir. 
Fyrir það er ég óendanlega þakklát.


föstudagur, 16. október 2015

Bara spræk :)

Já batnandi fólki er best að lifa. Mér fannst kominn tími til að skrifa nýjan pistil, þar sem sá síðasti var frekar á neikvæðu nótunum. Auðvitað gafst ég ekkert upp í leikfiminni, en vá hvað fyrstu vikurnar voru erfiðar. Sjúkraþjálfarinn (önnur þeirra sem eru með leikfimina) sagði að það tæki taugakerfið 4-6 vikur að jafna sig á nýju áreiti, og það stóð heima. Ég ákvað að mæta samviskusamlega í hvern einasta tíma (x3 í viku) og eftir ca. 4-5 vikur fór ég að finna heilmikinn mun á mér til hins betra. Mikið sem er gaman þegar eitthvað gengur vel hjá manni :) Mér finnst þessi leikfimi líka henta mér ágætlega og það eru fínar konur þarna allt í kringum mig, bæði þjálfararnir og konurnar í leikfiminni. Sumar þekkti ég fyrir en það voru líka mörg ný andlit.  
Í byrjun október fórum við Valur í frí til Spánar, með Önnu systur og Kjell-Einari manninum hennar. Við leigðum okkur hús í litlu þorpi sem heitir Frigiliana, en það er í ca. 45 mín. akstursfjarlægð frá Malaga. Hitastigið var á bilinu 21-25 gráður og það hentaði mér afskaplega vel. Ég var svo mjúk og góð í skrokknum og átti ekki í neinum erfiðleikum með að ganga upp og niður brattar tröppur og stíga, sem mikið var af í þorpinu. Ég efast ekki um að það var leikfiminni að þakka :) 
Ég þarf eiginlega að gera sérstaka bloggfærslu um Spánarferðina, en læt hér staðar numið í bili. Leyfi einni mynd af sjálfri mér að fljóta með, bara svona til að sýna hvað Spánn fór vel með mig. Góða helgi gott fólk :)

miðvikudagur, 2. september 2015

Babú - babú - babú ... vælubíllinn er á ferðinni !!

Klukkan er 13:06 á miðvikudegi. Ég er örmagna af þreytu. Hef samt ekki gert neitt í dag sem orsakað gæti þessa þreytu. Að vísu byrjaði ég í nýrri leikfimi í fyrradag og þetta eru hugsnalega síðbúin eftirköst.

En ég sef líka fremur illa þessa dagana. Á erfitt með að sofna og vakna oft um miðja nótt og á í erfiðleikum með að sofna aftur. Í gærkvöldi var ég þreytt þegar ég fór í háttinn en samt eitthvað upprifin. Eftir að legið vakandi dágóða stund sá ég fram á að geta ekki sofnað af sjálfsdáðum og tók 1/3 af svefntöflu. Sofnaði uppúr miðnætti. Vaknaði í tvígang og fór á klósettið, án þess að líta á klukkuna. Glaðvaknaði svo kl. fimm. Var samt dauðþreytt og langaði alls ekki að fara á fætur klukkan fimm að morgni. Velti mér og bylti dágóða stund, setti svo hugleiðslutónlist í eyrun og hef sennilega verið sofnuð aftur um sexleytið.

Vissi ekkert hvað klukkan var þegar ég vaknaði, fannst ég vera nýsofnuð en þegar ég leit á klukkuna var hún rétt rúmlega níu.

Úff það hafði alls ekki verið meiningin að sofa svona lengi. Ég var búin að missa af morgunsundinu (eða þannig upplifði ég það að minnsta kosti) en sólin skein úti og þá fannst mér að ég yrði að fara út fyrir hússins dyr sem allra fyrst. Þannig að ég fékk mér bara smá sítrónuvatn og dreif mig út í bíl og tók myndavélina með. Hélt kannski að það væri alveg logn og þá er Pollurinn oft svo myndvænn, en það var samt ekki 100% logn þó það væri frekar lygnt. Ég ók út að Krossanesi, á hæðina þar sem hægt er að sjá út fjörðinn og Kaldbak. Þar smellti ég af nokkrum myndum og naut góða veðursins.

Fann að ég var nú ekki alveg eins og ég á að mér að vera, en datt samt í hug að fara að Eyjafjarðarbrú og athuga hvort ég fyndi eitthvað myndefni þar í grennd. Stoppaði bílinn í tví- eða þrígang og tók einhverjar myndir en var nú farið að líða verulega illa. Þung í skrokknum og þreytt og syfjuð.

Þannig að ég dreif mig heim og fékk mér staðbetri morgunmat, hélt að það myndi kannski bjarga einhverju, en ónei það var ekki svo gott. Var bara algjörlega máttlaus í líkamanum og ótrúlega þung og þreytt öll. Það eina sem ég gat gert var að lesa, svo ég las bæði dagblöðin og hékk aðeins á netinu, áður en ég lagðist inn í sófa þar sem ég steinsofnaði. Hef líklega sofið hálftíma, klukkutíma, og vaknaði í síst betra standi.

Í örvæntingarfullri tilraun til að líða betur fékk ég mér te og 85% dökkt súkkulaði en þegar það dugði ekki til þá greip ég kexpakka (sem var keyptur í sumar þegar Valur fór í veiði) og gúffaði í mig þrjár kexkökur. Í nokkrar mínútur leið mér eins og ég væri að fá í mig einhvern lífsneista en þá gerðist tvennt. Fyrst fékk ég hraðari hjartslátt og í kjölfarið heiftarlegt samviskubit yfir því að hafa dottið í glúten- og sykur-sukk því ég byrjaði nefnilega í fyrradag í átaki með að taka akkúrat þetta tvennt út úr fæðinu. Þannig að nú bættist samviskubit ofan á þreytu og aðra vanlíðan. Frábært!

Úti skín sólin og ég hef mig ekki í að fara út í góða veðrið. Það eykur svo enn á vanlíðanina því þegar maður býr á Íslandi þá er nánast skylda að „nýta“ sólina þegar hún loks lætur sjá sig.

Arg! Þetta er nú meiri vitleysan. Til að kóróna ástandið er svo leikfimi í dag kl. 16:15 og ég er ekki að sjá hvernig ég á að meika það dæmi. Veit samt af gamalli reynslu að ég mun fara og ég mun gera æfingarnar að svo miklu leyti sem ég treysti mér til.

Það er þetta sem ég þoli ekki við vefjagigtina, hversu óútreiknanleg hún er. Eða kannski hefði ég getað séð þetta þreytukast fyrir, ég veit það ekki. Í gær var ég bara „pínu lúin“ en fór samt í sund, útréttaði aðeins í bænum, fór í Bónus og svo á fund í gærkvöldi. Borðaði bara hollt allan daginn, fyrir utan hálfa sneið af súkkulaðiköku og smá snakk. Fór út að ganga um tíuleytið í gærkvöldi í dásemdarveðri og leið vel. Þess vegna var alveg extra fúlt að sofa svona illa og vera þetta þreytt í dag.

En já það þýðir ekki að væla bara ... nú fer ég og sest út í sólina með bók eða blað :-)

P.S. Kl. 15:30. Ég fór út í sólina og tók með mér möppu sem inniheldur fróðleik um vefjagigt og ýmislegt fleira. Þegar ég blaðaði í möppunni rakst ég á eftirfarandi setningu á norsku: 
„Pasientens smerteforståelse og hvilken trusselverdi smerten representerer vil i stor grad bestemme smertens intensitet og varighet. Så lenge den respresenterer en fare eller en trussel for pasienten, vil smerten vedlikeholdes.“  
Eða: þeim mun hræddari sem sjúklingurinn er við sársaukann (vefjagigtarverkina, þreytuna) og upplifir hann sem ógn, þeim mun lengur þjáist sjúklingurinn af verkjum. Með því að bregðast við verkjum með áhyggjum og ótta, þá skapast vítahringur. Markmiðið ætti þá væntanlega að vera það að finna aðferðir sem hjálpa manni að slaka á og „afvegaleiða“ hugann þannig að maður sé ekki bara að hafa endalausar áhyggur og magna þær upp. 
Ég t.d. VEIT að það er ekki heimsendir þó ég sé þreytt, en samt líður mér þannig og fer að hafa áhyggjur af öllu sem ég get ekki gert vegna þreytunnar. Betra væri fyrir mig að segja: OK ég er svona í dag. Þá verð ég bara að sætta mig við það og reyna að slaka á þar til þetta ástand líður hjá. 

föstudagur, 28. ágúst 2015

Eitt stk bloggfærsla „beint af skepnunni“

Eða öllu heldur bara eitthvað blaður af því ég var í þörf fyrir að skrifa. Hljómar ekki beint líklegt til vinsælda - en það hefur nú heldur aldrei verið markmiðið með mínum bloggskrifum.  
Það er föstudagseftirmiðdagur. Ég sit í öðrum nýja gula Ikea stólnum okkar og það fer vel um mig. Okkur langaði í smá tilbreytingu í stofuna og eftir að hafa verið með sama sófasettið í 13 ár (sem við keyptum þar að auki notað á sínum tíma) þá ákváðum við að kaupa þessa gulu stóla til að lífga aðeins uppá stofuna. 
En þegar stólarnir voru komnir þá fannst okkur þeir engan veginn passa með gömlu sófunum, svo við notuðum tækifærið í einni Reykjavíkurferðinni og þræddum húsgagnaverslanirnar í leit að hinum eina rétta sófa. Hann fundum við í Epal, en það var síðasta verslunin sem við fórum í. Ekki skemmdi fyrir að hann var á 50% afslætti (ég er alltaf svo ánægð þegar ég geri góð kaup) en það var ekki ástæðan fyrir því að við keyptum hann (þó svo að við hefðum sennilega aldrei keypt hann á fullu verði). Nei okkur fannst hann bara fallegur í laginu, fallegur á litinn og þægilegur að sitja í. 
Og til gamans kemur hér ljósmynd af herlegheitunum sem ég smellti af á símann til að senda Hrefnu í Köben svo hún gæti séð hvernig þetta lítur út hjá okkur. Uppröðunin er nú að vísu ekki akkúrat svona núna í augnablikinu en það er nú aukaatriði. Það er svo á dagskránni að láta lækka sófaborðið aðeins þar sem nýi sófinn er töluvert lægri en sá gamli. 
Annars segi ég bara allt meinhægt. Þetta sumar hefur verið dálítið skrítið á ýmsan hátt. Það er þó jákvætt að við höfum farið þrisvar sinnum í hjólhýsaferðir :-)  
Fyrst fórum við í ferð í Dalina með vinafólki, þar sem hluti hópsins var að hjóla á daginn og svo vorum við tvær „skutlur“ sem sáum um að sækja og senda ... eða þannig. Við sóttum hjólarana t.d. á Stykkishólm (frá Laugum í Sælingsdal þar sem við vorum með tjaldbúðir) svo þau þyrftu nú ekki að hjóla báðar leiðir, enda mjög löng leið að hjóla á miserfiðu undirlagi (þvottabretti sums staðar) og í miklum mótvindi á köflum.
Næst fórum við í Mosfellsdalinn þar sem við gistum í sex nætur. Það var blanda af gamni og alvöru því mamma hans Vals var orðin svo veik og lést á meðan við vorum þarna. Við vorum afskaplega þakklát fyrir að geta verið á staðnum þegar svona bar undir. Við notuðum samt líka tímann í annað, s.s. að fara dagsferð út fyrir borgina, auk þess að fara á hin ýmsu söfn og í heimsóknir.  
Þriðja ferðin var á Möðrudal á Öræfum, en síðasta bloggfærsla fjallaði einmitt um þá ferð.  
Helst hefðum við viljað fara í fleiri hjólhýsaferðir en slæmt veður og heilsuleysi hefur komið í veg fyrir það. En þar fyrir utan, þá fór ég eina stutta ferð suður í byrjun júní og sótti Hrefnu, Egil og Erik til Keflavíkur þegar þau komu heim í sumarfrí og til að vera viðstödd stúdentsveisluna hans Ísaks. Valur hefur farið þrisvar sinnum í veiði. Við fórum líka til Reykjavíkur í jarðarför tengdamömmu og svo fór ég til Köben og var þar í eina viku eftir jarðarförina. Þannig að við höfum verið á töluverðu flakki. 
Ég hef stundum farið af stað og verið drulluþreytt og illa upplögð en einhvern veginn þá næ ég að lifa af ferðalögin og njóta þeirra, þó svo ég detti í nýtt þreytu- og gigtarkast við heimkomuna.  
Jæja ég held ég segi þetta gott í dag. Njótið helgarinnar :-)

föstudagur, 7. ágúst 2015

Silfurbrúðkaup

Það er eiginlega hálf óraunverulegt (af því tíminn líður svo hratt) en við Valur áttum 25 ára brúðkaupsafmæli sunnudaginn 2. ágúst. Við höfðum ekki verið búin að ákveða hvernig við ætluðum að halda uppá þetta og satt best að segja höfum við ekki verið neitt óskaplega dugleg að halda uppá brúðkaupsafmælin okkar í gegnum tíðina, en nú langaði okkur samt að sýna smá lit og gera eitthvað. 
Ég hafði reyndar verið þreytt og tuskuleg vikuna áður en ákvað að láta það ekki á mig fá og þegar Valur kom heim úr ræktinni um hádegisbilið á laugardeginum þá sagði ég honum að við værum að fara austur á Möðrudal á Fjöllum. Ég var búin að hringja og það var nóg af lausum plássum á tjaldstæðinu, svo það var ekki eftir neinu að bíða. Við fórum að bera dót út í hjólhýsið og Valur fór í búðina og keypti í matinn og svo tók hann líka bensín. Við vorum komin af stað um hálf þrjúleytið og það gleymdist ekkert nema ein gúrka og sæt kartafla heima ;-)  
Það tekur tvo tíma að keyra frá Akureyri og þarna austur en við stoppuðum reyndar á leiðinni og fengum okkur kaffi og köku á Hótel Laxá í Mývatnssveit, svo við vorum ekki komin austur fyrr en um fimmleytið. Það hittist svo vel á að tjaldstæðið sem við höfðum fyrir tveimur árum síðan var laust, svo við vorum á sama stað, með útsýni beint á Herðubreið. Hrikalega flott staðsetning að mínu mati. 
Við komum okkur fyrir og grilluðum svo lax í kvöldmat og borðuðum helling af salati úr garðinum með. Já og smá rauðvínsdreitill fékk að fylgja með. Því miður var ekki nógu hlýtt til að hægt væri að borða úti.
Seinna um kvöldið fórum við svo út og röltum aðeins um svæðið. Þá var sólin svo vingjarnleg að láta sjá sig og ekki var það nú verra. Nokkrar myndir teknar að sjálfsögðu.






Við sofum alltaf svo vel í hjólhýsinu og þessi nótt var engin undantekning. Vöknuðum um hálf níu og borðuðum morgunmat í rólegheitum. Þá var komið að því að ákveða hvernig við vildum verja deginum. Við ákváðum að fara rúnt inneftir, í áttina að Kverkfjöllum. 
Áður en við lögðum af stað skelltum við í eina „selfie“ í tilefni dagsins. Við reyndar kunnum ekkert alltof vel að taka sjálfsmyndir á símann, erum bæði vön að snúa honum frekar frá okkur en að okkur þegar við tökum myndir. 
Svo tókum við líka mynd af þessu upplýsingaskilti, þar sem sjá má kennileiti, vegi og vöð á þessum slóðum. Ekki eru allar ár brúaðar og það var óvenju mikið í ánum núna af því það voraði svo seint. Snjórinn er jú enn að bráðna þarna uppi á hálendinu. 
Enginn snjór sjáanlegur hér að vísu ;-) en Möðrudalsfjallgarður alltaf fallegur.  
Við hættum reyndar við að aka alla leið í Kverkfjöll þegar við áttuðum okkur á því hvað leiðin er seinfarin. Ákváðum í staðinn að fara í Herðubreiðarlindir. 
Þessi mynd er tekin rétt hjá ánni Kreppu þar sem voru vatnspollar útum allt í hrauninu. Fallegt!
Hér er hins vegar Jökulsá á Fjöllum, myndin er tekin af brúnni yfir hana. 
Þarna erum við farin að nálgast Herðubreiðarlindir, á vinstri hönd eru Herðubreiðartögl. Birtan var svo falleg á þessum tímapunkti, því sólin ýmist kom eða fór og skapaði skugga sums staðar á meðan annað var upplýst. 
Loks komin í Herðubreiðarlindir. Það tók „aðeins“ þrjá tíma að keyra þangað frá Möðrudal. Tíminn var samt fljótur að líða því það var svo fallegt og fjölbreytt landslag til að horfa á.
Við byrjuðum á að fá okkur nesti, enda orðin svöng. Það eina sem plagaði mig voru mýflugur sem sveimuðu allt í kring. Ég setti eyrnaskjól á eyrun svo þær létu þau í friði (þoli ekki að heyra suðið í kringum eyrun, finnst eins og flugurnar séu á leið þangað inn), og svo datt mér í hug að setja á mig sólgleraugu og þá komust engar flugur í augun á mér. Leið strax betur við þessar varúðarráðstafanir :)
Svo gerðum við aðra tilraun til að taka sjálfsmynd á símann - þetta er allt að koma hjá okkur sko ;-)
Fórum í gönguferð um svæðið og kíktum meðal annars á helli þeirra Höllu og Fjalla Eyvinds.
Og reyndum að endurskapa gamla mynd sem ég tók af Val fyrir mörgum árum síðan á svipuðum stað. Hann er meira að segja í sömu peysunni, hér nýta menn sko fötin sín vel ;-) 
Svo var komið að heimleið. Í þetta sinn ókum við vestari leiðina tilbaka en hún er töluvert fljótfarnari. Það tók bara tvo tíma að keyra úr Herðubreiðarlindum og út á þjóðveginn við Mývatnsöræfin, en þá er komið út á veginn rétt hjá Hrossaborgum. Síðan er að vísu 20-30 mín. akstur inn á Möðrudal en á malbiki svo það er þægilegt. 
Þegar við komum aftur í hjólhýsið var kaffisopi og síðan slökun í góða stund. En Valur hafði keypt litla flösku af freyðivíni og mér datt í hug að taka hana með út í móa, sem við og gerðum, og þar skáluðum við fyrir 25 árunum. Áttum voða notalega stund saman úti í náttúrunni, það var aðeins farið að kólna en samt nokkuð milt veður og þar sem við sátum heyrðist suðið í lítilli lækjarsprænu og lóa var á vappi þarna rétt hjá. Bara yndislegt!
Skál fyrir 25 árum í hjónabandi :) Í lok nóvember verða svo 30 ár síðan við byrjuðum saman. 
Smá tilraun hjá mér ... tók panorama mynd og af því Valur hreyfði sig á meðan ég tók myndina þá endaði hann inni á henni í tvígang. Bara búin að klóna bóndann ;-) 
Eftir þennan góða göngutúr fórum við svo að elda matinn. Valur grillaði lambakjöt sem  hann hafði marinerað og meðlætið var grillað spergilkál og salat úr garðinum heima. 
Svo fórum við aftur út og viðruðum okkur aðeins fyrir nóttina. Þá kom þetta svaka fallega sólsetur og kom það mér alveg á óvart. Ég er svo vön að horfa á sólsetur við sjó að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að það gæti verið svona fallegt á fjöllum líka.



Daginn eftir pökkuðum við svo saman og ókum heim á leið eftir alveg hreint stórgóða ferð. 

miðvikudagur, 27. maí 2015

Gott að vera úti í náttúrunni

Undanfarið hef ég verið alveg uppgefin á sjálfri mér og mínu ástandi. Það er veruleg áskorun að fara í gegnum lífið með sjúkdóm (strangt til tekið má ekki kalla vefjagigt sjúkdóm, þetta er heilkenni) sem vofir endalaust yfir manni og hefur áhrif á allt sem maður gerir. Mér gengur misvel að halda haus og stundum er ég bara ekki að nenna þessu lengur. 

En þrátt fyrir frekar mikið þunglyndi síðustu vikur þá dröslast ég nú alltaf á lappir á morgnana og held mínu striki. Reyni að láta á engu bera í samskiptum mínum við annað fólk, þó auðvitað gangi það misvel. Annars er ég ekkert feimin við að viðurkenna hvernig mér líður. Mér finnst mun auðveldara að vera hreinskilin heldur en að reyna að „halda andlitinu“ fyrir alla muni. 

Vonandi eru nú samt örlítið bjartari tímar framundan. Ég er skárri af verkjunum sem voru alveg að gera út af við mig á tímabili, og eins er ég mun betri í bakinu (fékk heiftarlega í bakið um daginn). Hef líka tekið aðeins til í mataræðinu aftur og er ekki frá því að það muni töluvert um það. 

Í gær kom allt í einu yfir mig mikil löngun til að komast út í náttúruna. Mér fannst bara að ég yrði að drífa mig út. Og þar sem ég er að reyna að vera duglegri að hlusta á það þegar ég fæ svona „skilaboð“ þá dreif ég mig að sjálfsögðu út.
Upprunalega var ætlunin að ganga upp í Fálkafell (skátakofi hér fyrir ofan bæinn) en ég fann fljótt að skrokkurinn á mér var nú ekki að samþykkja alveg svo mikið útstálesi. Þannig að ég rölti bara áleiðis uppeftir og stoppaði oft og mörgum sinnum til að taka myndir af blómum og gróðri sem ég sá. Ég var með svokallaða makró linsu á myndavélinni, en hún stækkar upp myndefnið. Mér finnst mjög gaman að nota þannig linsu. Og til gamans þá koma hér nokkrar myndir sem ég tók í gær.









miðvikudagur, 1. apríl 2015

Brostnar vonir eða björt framtíð?


Nú er komið rúmt ár síðan ég hætti að vinna utan heimlis og ég held það sé óhætt að segja að vefjagigtin er ekki að fara neitt ... Hafi ég haft drauma um að geta orðið full orku og komið mér í toppform, þá er ég búin að leggja þá í salt í bili. 

Satt best að segja hef ég verið óvenju slæm af vefjagigtinni þessa síðustu mánuði, eða allt frá áramótum. Bæði hvað snertir þreytu, verki og almenna veikinda-tilfinningu. Hugsanlega er þetta til komið vegna þess að ég hef verið að svindla alltof mikið á mataræðinu. Hugsanlega vegna streitu. Því breyttar kringumstæður hafa vissulega valdið mér streitu. Það kemur upp ákveðinn kvíði vegna framtíðarinnar. Mun ég geta unnið fyrir launum aftur? Hvað á ég að taka mér fyrir hendur?

Fólk spyr „endalaust“ hvað ég sé að gera núna. Skiljanlega. Fáir vita að ég myndi ekki treysta mér í fulla vinnu og eðlilega gerir fólk ráð fyrir því að einhver sem hefur hætt í einni vinnu finni sér nýtt starf. 

Ég hef samt reynt að gæta þess að falla ekki í þá gryfju að hugsa alltof illa um sjálfa mig. Er búin að komast að því að það skilar engu. Nema að mér líður þá ennþá verr yfir þessu öllu. 

Og ég hef margt að vera þakklát fyrir. Ég líð svo sannarlega engan skort og ég hef líkama sem þrátt fyrir allt gerir mér kleift að standa í fæturnar og gera flest sem mig langar til að gera (á mínum forsendum). 

OK ég get ekki gengið á fjöll, ekki hlaupið og ekki stundað hefðbundna líkamsrækt. 

En ég get:
Synt bringusund, baksund, skriðsund og bakskrið
Farið í styttri gönguferðir
Tekið ljósmyndir
Hjólað á reiðhjóli í 15-20 mín. í einu
Skrifað
Lesið
Hlustað
Prjónað (ef ég nenni, hehe)
Saumað (ef mig langar)
Átt samtöl við fólk
Farið í ferðalög í mínum takti
Klappað kettinum
Knúsað fólkið mitt
Og það að hafa ekki verið í launaðri vinnu síðasta árið hefur gert mér kleift að fylgja mömmu eftir í hennar veikindum - og fara nokkrar ferðir til Danmerkur að heimsækja barnabarnið.

Vissulega koma dagar og jafnvel vikur þar sem geta mín takmarkast verulega og ég eyði stærstum hluta dagsins í sófanum. En mergurinn málsins er sá að þrátt fyrir allt þá er lífið svo sannarlega þess virði að lifa því. Maður þarf bara að passa að festast ekki ofan í stóra sjálfsvorkunnarpyttinum.

Ég var nú eiginlega á kafi ofan í honum þegar ég byrjaði að skrifa þessa færslu ... en eins og svo oft áður þá hjálpa skrifin mér að setja hlutina í samhengi :-)


laugardagur, 28. febrúar 2015

Amma Guðný

Það er pínu óraunverulegt að vera orðin amma, en engu að síður mjög gaman og gefandi. Erik Valdemar Egilsson fæddist 24. júlí og ég er búin að skreppa nokkrar ferðir til Danmerkur síðan. Fyrst fór ég í byrjun ágúst, síðan fórum við Valur í október (í tengslum við Spánarferðina), svo skrapp ég seinni partinn í nóvember og loks núna. Þau komu líka heim og voru hjá okkur í þrjár vikur um jólin, og svo bjargar Skype ótrúlega miklu. Erik er sprækur ungur herramaður sem finnst lífið svo spennandi að það megi ekki vera að sofa of mikið því þá missir maður jú af öllu fjörinu. Það er gaman hvað hann virðist þekkja mig og ömmuhlutverkið á vonandi bara eftir að verða betra og betra eftir því sem hann stækkar.  
Ég gisti hjá mömmu eina nótt á leiðinni út og það var virkilega ánægjulegt að sjá hvað hún er orðin frískleg eftir allar hremmingar síðasta árs. 



Útsýnið af svölunum hjá þeim. Það er að koma vor í Danmörku.  



miðvikudagur, 11. febrúar 2015

Blogg í andarslitrunum?


Ég er alveg ráðalaus varðandi það hvað ég á að gera við þetta blogg mitt. Reyna að rífa mig upp úr aumingjaskapnum, eða hreinlega hætta þessu? 
Það kemur ennþá yfir mig annað slagið að langa til að blogga en hugsanlega er þátttaka mín á blipfoto að ganga af blogginu dauðu. Ekki ætla ég að kenna manninum mínum um eitt né neitt, en honum finnst t.d. skemmtilegra að lesa það sem ég skrifa á blippinu, líklega vegna þess að ég hef ekki „misst mig“ jafnmikið í að skrifa þunglyndislegar færslur um vefjagigt, þreytu og örmögnun.
Samt finnst mér hálfgerð synd að láta þetta veslast svona upp, eftir að hafa bloggað í rúm tíu ár. Gallinn við blippið er líka að þar er bara hægt að birta eina mynd á dag, en hér get ég t.d. sett inn margar myndir í einu úr ferðalagi eða ljósmyndaferð, svo dæmi sé nefnt. Ég ætlaði alltaf að setja inn smá ferðasögu um Spánarferðina okkar núna í haust, en hef ekki haft mig í það. 
Það hefur náttúrulega ekki hjálpað til að ég hef verið hálf týnd eitthvað undanfarna mánuði, en svei mér þá ef það er ekki aðeins að byrja að rofa til hjá mér aftur ;-) Það er bara svo rosalega skrítið að sitja skyndilega ein heima alla daga, á meðan annað heimilisfólk fer í skóla og vinnu. Eins gott að ég hef Birtu hjá mér, hehe, veit ekki hvernig færi fyrir mér annars. Reyndar fer ég nú aðeins út úr húsi. Ég fer í sund flesta virka morgna, ég fer út að ganga með myndavélina, ég fer og kaupi inn, ég fer á fundi í ljósmyndaklúbbnum mínum, ég fer á kaffihús ... 
Sko! Nú er ég byrjuð á einhverju niðurdrepandi væli ;-) Alveg ótrúlegt hvernig mér tekst þetta. En ég kem víst bara til dyranna eins og ég er klædd hverju sinni. 
En já ætli ég segi þetta þá ekki bara gott í bili, svona áður en ég missi mig í meira volæði. Sem er engin ástæða til. Ég er bara eitthvað illa sofin og þreytt í augnablikinu. Yfirhöfuð, þá hef ég það ósköp gott og er þakklát fyrir svo ótal margt. Var ég búin að segja ykkur frá konunni sem fór að halda þakklætis-mynda-dagbók? Haily Bartholomew var óhamingjusöm, þrátt fyrir að ekkert sérstakt væri að hjá henni, og fór í kjölfarið að taka ljósmynd á hverjum degi af einhverju sem hún var þakklát fyrir þann daginn. Þetta gerði hún í heilt ár og líf hennar gjörbreyttist í kjölfarið. Hér er heimasíðan hennar og þar er m.a. að finna TED fyrirlestur þar sem hún lýsir þessu verkefni sínu.


mánudagur, 26. janúar 2015

Mataræðis-pælingar


Annað slagið heyri ég sögur af fólki sem greinist með ofnæmi eða óþol fyrir glúteni og þarf að breyta mataræði sínu í kjölfarið. Þar sem ég hef sjálf gengið í gegnum svipað ferli datt mér í hug að setja hér inn smá samantekt á því hvernig þetta hefur gengið hjá mér.  
Eins og margir vita þá breytti ég mataræði mínu haustið 2011, í kjölfar ferðar til Noregs þar sem m.a voru teknar blóðprufur sem sýndu óþol gagnvart glúteni, mjólkurvörum og eggjum.  
Ég tók þetta föstum tökum og breytti mataræðinu nánast á einni nóttu. Það var ekki alveg einfalt mál, og vissulega óx mér þetta nokkuð í augum í byrjun, ekki síst vegna þess að á sama tíma var ég að prófa að borða samkvæmt High fat Low carb (mikil fita, lítil kolvetni) reglunum. Það flækti málið enn frekar að mega ekki borða egg þar sem þau eru oft notuð sem lyftiefni í glútenlaust brauð og kökur. Fyrstu vikurnar var þetta verulega flókið en svo smátt og smátt fann ég nýjar uppskriftir og nýjar leiðir við að gera hlutina. 
Varðandi glútenlausa mataræðið þá ákvað ég strax í upphafi að skipta ekki hveiti út fyrir annað fínmalað mjöl sem væri alveg jafn óhollt uppá blóðsykurinn að gera. Þannig að til að byrja með hætti ég að borða allt brauð og ef það eru t.d. hamborgarar í matinn þá sleppi ég brauðinu og borða bara „allsberan“ hamborgara ásamt beikoni, salati og dásamlega góðri sósu úr kasjúhnetum og spergilkáli. Þegar þau hin borða pasta þá gæti ég í sjálfu sér borðað glútenlaust pasta en ég ákvað að sleppa því bara alveg. Oftast borða ég þá bara salat og soðið grænmeti í staðinn, en einstaka sinnum nenni ég að búa til kúrbíts-spaghetti og það er mjög fínt. 
Það hefur verið aðeins meira bras að finna uppskrift að pítsudeigi sem ég er sátt við. Að vísu er hægt að kaupa tilbúna glútenlausa pítsubotna og ég hef stundum gert það, en finnst heimatilbúið alltaf betra. Þessi uppskrift hér, sem gerð er úr kínóa finnst mér sú besta sem ég hef prófað en hef að vísu bara gert hana einu sinni. 
Það sem mér fannst kannski erfiðast að passa uppá í sambandi við glútenið, er að það má finna í svo mörgu öðru en kornvörum. Glúten er innihaldsefni í ótrúlegustu tilbúnu matvörum og ef maður er virkilega viðkvæmur fyrir glúteni, þá þarf aldeilis að passa sig og lesa innihaldslýsingar. Allur tilbúinn pakkamatur, súpur, sósur, sósukraftur, lakkrís, meira að segja snyrtivörur geta innihaldið glúten. 
Ég saknaði þess að geta ekki borðað neitt með áleggi ofaná (maður er svo ótrúlega fastur í því að borða brauð með áleggi) og datt þá niður á það að baka frækex. Við Valur splæstum í þurrkofn og ég nota hann til að baka kexið en í raun er hægt að nota venjulegan bakaraofn. Í upphafi notaðist ég mikið við uppskrift sem er í bókinni hennar Kollu grasalæknis en núna er ég farin að grauta bara einhverju saman. Inni á vefsíðunni ljomandi.is er uppskrift að hrökkbrauði sem mér líst ágætlega á og hún notar bara venjulegan ofn. 
Eftir að hafa borðað frækex sem staðgengil fyrir brauð í rúmt ár, rakst ég á uppskrift að brauði á netinu sem ég prófaði og er enn að baka (ég nota glútenlaust haframjöl, passa það ef þið eruð með glútenóþol). Þessi uppskrift hentar mér mjög vel af því það eru hvorki egg né mjólkurvörur í henni. En þetta lítur út og smakkast eins og brauð ;) Upprunalega er þessi brauðuppskrift komin af bloggi sem heitir My new roots, og það er alveg svakalega flott blogg með alls konar heilsusamlegum uppskriftum og fallegum ljósmyndum, endilega kíkið á það. 
Morgunmaturinn var höfuðverkur í upphafi því ég var svo ákveðin í að taka út kolvetni að ég vildi ekki einu sinni borða haframjöl. Ég hafði verið byrjuð að borða egg og beikon í morgunmat (skv. lágkolvetna mataræðinu) þegar ég greindist með eggjaóþolið og til að byrja með þá skipti ég eggjunum út fyrir grænmeti. Steikti t.d. smá hvítkál og gulrætur og borðaði með beikoni. Þetta endist vel og lengi í maganum á mér af því ég passa uppá að steikja grænmetið uppúr kókosolíu og svo er jú fita í beikoninu. Það að fá næga fitu er mjög mikilvægt fyrir mig, minnkar þörfina fyrir sykur og ég er södd lengur. Og svona í „forbifarten“ af því margir þjást ennþá af óhóflegri hræðslu við að borða fitu, þá hef ég síðan haustið 2011 verið að borða nokkuð meiri fitu en nokkurn tímann áður og blóðprufur sem teknar voru af mér núna í haust sýna mjög góð kólesterólgildi. 
Á sumrin fæ ég mér mjög oft „búst“ á morgnana. Þá set ég frosin ber (hindber, skógarber, bláber, rifsber t.d.), hörfræolíu, kókosmjólk úr fernu eða möndlumjólk, hampfræ eða baunaprótein og kókosvatn í blandara og blanda þar til mjúkt. Þeir sem eru ekki með mjólkuróþol geta notað skyr eða mjólkurprótein í staðinn fyrir hampfræin/baunapróteinið. 
Ég fann líka uppskrift að kínóagraut sem ég borðaði á tímabili og var voða ánægð með hann eftir að ég vandist bragðinu. Núna er ég farin að borða glútenlaust haframjöl og þá fæ ég mér oft hafragraut á morgnana. Geri reyndar mína útgáfu af honum og blanda chiafræjum, hampfræjum, kasjúhnetum, kókosolíu, kanil og bláberjum saman við. Sannkallaður ofurgrautur ;) 
Varðandi morgunmat þá höfum við svo ótrúlega sterkar skoðanir á því hvað passar sem morgunmatur en í raun er þetta bara ein af þremur máltíðum dagsins og kornmatur (brauð, grautur, morgunkorn) þarf ekkert endilega að koma þar við sögu. Hér er t.d. hugmynd að 23 tegundum að morgunmat þar sem hefðbundið korn kemur ekki við sögu. Ef fólk er ekki í sérstöku lág-kolvetna-átaki þá er hægt að finna fullt af uppskriftum á netinu að glútenlausu brauði, kökum, kexi og alls konar gúmmelaði. 
Ég ákvað að líta jákvæðum augum á þetta með að breyta mataræðinu. Ekki bara hugsa það út frá því sem ég má ekki borða, heldur líta á þetta sem tækifæri til að borða hollan mat, með því að fókusera á það sem ég MÁ borða. Ég áttaði mig líka á því að með því að skoða uppskriftir sem flokkast undir t.d. hráfæði (alls konar girnilegar kökur t.d. og matur líka), grænmetisfæði (vegan), grainfree (ekkert korn), paleobasískt mataræði ofl. þá gat ég fundið alls konar mat sem ég mátti borða. Lágkolvetna mataræðið er oft með glútenlausar uppskriftir. 
Í heildina séð þá hef ég samt ekki verið nógu dugleg að gera eitthvað nýtt og spennandi, það verður að segjast eins og er. Netið er samt endalaus uppspretta hugmynda og síðan ég breytti mataræðinu hafa sprottið upp íslenskar bloggsíður þar sem hægt er að finna góðar uppskriftir. Café Sigrún er náttúrulega algjör snilld því þar er hægt að haka við innihaldsefni sem maður vill ekki nota og fá eingöngu fram uppskriftir sem eru án þeirra. Mér líst vel á ljomandi.isHeilsumamman.com er líka með glútenlausar (og mjólkurlausar) uppskriftir. Vanilla og lavenderLifðu til fullsGulurRauðurGrænnogSalt er með afskaplega girnilegar lágkolvetnauppskriftir sem ég þarf að skoða betur. 
Fyrsta árið eða svo var ég mjög hörð á því að fylgja mataræðinu og strax fyrstu mánuðina fann ég verulegan mun á mér. Sérstaklega skánaði ég af alls konar smá kvillum, sem þegar þeir safnast saman verða mjög hvimleiðir. Þetta eru einkenni eins og meltingartruflanir, bjúgur, svimi, stíflaðar nef- og kinnholur, slímmyndun,  sljóleiki yfir höfðinu (heilaþoka), eyrnasuð (kemur reyndar ennþá ef ég verð of þreytt) og hjartsláttartruflanir, svo eitthvað sé nefnt. Það er t.d. mikill munur að sjá ljósmynd af mér sem tekin var í desember, eftir að ég hafði fylgt þessu mataræði í ca. 3 mánuði, ég var öll frísklegri að sjá og ekki jafn bólgin, þrútin og líflaus í framan og ég hafði verið. 
Valur studdi mig 100% í þessu öllu og skipti það ekki litlu máli því hann sér um eldamennskuna á heimilinu. Það sem snýr mest að honum eru hlutir eins og að nota kókosolíu til að steikja uppúr (í staðinn fyrir smjör eða óhollari olíur), og kókosmjólk í staðinn fyrir kúamjólk/rjóma í súpur og sósur. Hann notar ekki lengur hveiti til að þykkja sósur en notar sósujafnara frá Himneskt. Við notum líka glútenfrían grænmetiskraft frá sama fyrirtæki. 
Síðustu tvö árin hef ég hins vegar slappast verulega í þessu öllu saman, því miður. Bæði vegna þess að það er flóknara að ferðast þegar maður er með svona sérþarfir, og svo ég er með sykurfíkn á háu stigi og um leið og ég sleppi mér lausri með bara t.d. eina kexköku eða tertusneið, þá er voðinn vís. Og samhliða sykri í kökum og sælgæti er ansi oft einnig að finna glúten, mjólkurvörur og egg, svo þá er ég að gúffa í mig öllu sem ég á ekki að vera að borða. Arg! 
Svo er það þannig að óþol virkar öðruvísi en ofnæmi. Ef ég væri með ofnæmi þá fengi ég tafarlaus viðbrögð við því sem ég er að borða en viðbrögð við mataróþoli koma oft ekki fyrr en 1-2 dögum síðar (eða enn seinna) og þá er erfiðara að tengja orsök og afleiðingu. Að vísu er það samt þannig að sykraðar mjólkurvörur orsaka uppþembu og rop samdægurs, og á tímabili klæjaði mig alltaf eftir að hafa borðað glúten, en ekki lengur. Það eru líka kenningar uppi um að glútenóþol valdi mun fleiri kvillum en bara meltingartengdum,  en það er erfiðara að átta sig á tengingunni milli þess að borða glúten og fá höfuðverk, eða verða þunglynd(ur) svo dæmi sé nefnt. 
Mig langar mikið að taka mataræðið fastari tökum á ný, því ég efast ekki um að það hefur töluvert að segja fyrir líðan mína. Ég er í heildina séð betri í skrokknum (minni vefjagigtarverkir) en þjáist enn af þreytu og er fljót að ofgera mér þó ég sé í raun „ekki að gera neitt“. Það væri gaman að geta orðið ennþá frískari og náð að byggja upp sterkan líkama. Andlega séð finnst mér ég líka vera stöðugri í skapi þegar ég borða 100% glútenlaust og lítinn sykur. Svo nú er bara að bretta uppá ermar og taka á því!!