föstudagur, 7. ágúst 2015

Silfurbrúðkaup

Það er eiginlega hálf óraunverulegt (af því tíminn líður svo hratt) en við Valur áttum 25 ára brúðkaupsafmæli sunnudaginn 2. ágúst. Við höfðum ekki verið búin að ákveða hvernig við ætluðum að halda uppá þetta og satt best að segja höfum við ekki verið neitt óskaplega dugleg að halda uppá brúðkaupsafmælin okkar í gegnum tíðina, en nú langaði okkur samt að sýna smá lit og gera eitthvað. 
Ég hafði reyndar verið þreytt og tuskuleg vikuna áður en ákvað að láta það ekki á mig fá og þegar Valur kom heim úr ræktinni um hádegisbilið á laugardeginum þá sagði ég honum að við værum að fara austur á Möðrudal á Fjöllum. Ég var búin að hringja og það var nóg af lausum plássum á tjaldstæðinu, svo það var ekki eftir neinu að bíða. Við fórum að bera dót út í hjólhýsið og Valur fór í búðina og keypti í matinn og svo tók hann líka bensín. Við vorum komin af stað um hálf þrjúleytið og það gleymdist ekkert nema ein gúrka og sæt kartafla heima ;-)  
Það tekur tvo tíma að keyra frá Akureyri og þarna austur en við stoppuðum reyndar á leiðinni og fengum okkur kaffi og köku á Hótel Laxá í Mývatnssveit, svo við vorum ekki komin austur fyrr en um fimmleytið. Það hittist svo vel á að tjaldstæðið sem við höfðum fyrir tveimur árum síðan var laust, svo við vorum á sama stað, með útsýni beint á Herðubreið. Hrikalega flott staðsetning að mínu mati. 
Við komum okkur fyrir og grilluðum svo lax í kvöldmat og borðuðum helling af salati úr garðinum með. Já og smá rauðvínsdreitill fékk að fylgja með. Því miður var ekki nógu hlýtt til að hægt væri að borða úti.
Seinna um kvöldið fórum við svo út og röltum aðeins um svæðið. Þá var sólin svo vingjarnleg að láta sjá sig og ekki var það nú verra. Nokkrar myndir teknar að sjálfsögðu.






Við sofum alltaf svo vel í hjólhýsinu og þessi nótt var engin undantekning. Vöknuðum um hálf níu og borðuðum morgunmat í rólegheitum. Þá var komið að því að ákveða hvernig við vildum verja deginum. Við ákváðum að fara rúnt inneftir, í áttina að Kverkfjöllum. 
Áður en við lögðum af stað skelltum við í eina „selfie“ í tilefni dagsins. Við reyndar kunnum ekkert alltof vel að taka sjálfsmyndir á símann, erum bæði vön að snúa honum frekar frá okkur en að okkur þegar við tökum myndir. 
Svo tókum við líka mynd af þessu upplýsingaskilti, þar sem sjá má kennileiti, vegi og vöð á þessum slóðum. Ekki eru allar ár brúaðar og það var óvenju mikið í ánum núna af því það voraði svo seint. Snjórinn er jú enn að bráðna þarna uppi á hálendinu. 
Enginn snjór sjáanlegur hér að vísu ;-) en Möðrudalsfjallgarður alltaf fallegur.  
Við hættum reyndar við að aka alla leið í Kverkfjöll þegar við áttuðum okkur á því hvað leiðin er seinfarin. Ákváðum í staðinn að fara í Herðubreiðarlindir. 
Þessi mynd er tekin rétt hjá ánni Kreppu þar sem voru vatnspollar útum allt í hrauninu. Fallegt!
Hér er hins vegar Jökulsá á Fjöllum, myndin er tekin af brúnni yfir hana. 
Þarna erum við farin að nálgast Herðubreiðarlindir, á vinstri hönd eru Herðubreiðartögl. Birtan var svo falleg á þessum tímapunkti, því sólin ýmist kom eða fór og skapaði skugga sums staðar á meðan annað var upplýst. 
Loks komin í Herðubreiðarlindir. Það tók „aðeins“ þrjá tíma að keyra þangað frá Möðrudal. Tíminn var samt fljótur að líða því það var svo fallegt og fjölbreytt landslag til að horfa á.
Við byrjuðum á að fá okkur nesti, enda orðin svöng. Það eina sem plagaði mig voru mýflugur sem sveimuðu allt í kring. Ég setti eyrnaskjól á eyrun svo þær létu þau í friði (þoli ekki að heyra suðið í kringum eyrun, finnst eins og flugurnar séu á leið þangað inn), og svo datt mér í hug að setja á mig sólgleraugu og þá komust engar flugur í augun á mér. Leið strax betur við þessar varúðarráðstafanir :)
Svo gerðum við aðra tilraun til að taka sjálfsmynd á símann - þetta er allt að koma hjá okkur sko ;-)
Fórum í gönguferð um svæðið og kíktum meðal annars á helli þeirra Höllu og Fjalla Eyvinds.
Og reyndum að endurskapa gamla mynd sem ég tók af Val fyrir mörgum árum síðan á svipuðum stað. Hann er meira að segja í sömu peysunni, hér nýta menn sko fötin sín vel ;-) 
Svo var komið að heimleið. Í þetta sinn ókum við vestari leiðina tilbaka en hún er töluvert fljótfarnari. Það tók bara tvo tíma að keyra úr Herðubreiðarlindum og út á þjóðveginn við Mývatnsöræfin, en þá er komið út á veginn rétt hjá Hrossaborgum. Síðan er að vísu 20-30 mín. akstur inn á Möðrudal en á malbiki svo það er þægilegt. 
Þegar við komum aftur í hjólhýsið var kaffisopi og síðan slökun í góða stund. En Valur hafði keypt litla flösku af freyðivíni og mér datt í hug að taka hana með út í móa, sem við og gerðum, og þar skáluðum við fyrir 25 árunum. Áttum voða notalega stund saman úti í náttúrunni, það var aðeins farið að kólna en samt nokkuð milt veður og þar sem við sátum heyrðist suðið í lítilli lækjarsprænu og lóa var á vappi þarna rétt hjá. Bara yndislegt!
Skál fyrir 25 árum í hjónabandi :) Í lok nóvember verða svo 30 ár síðan við byrjuðum saman. 
Smá tilraun hjá mér ... tók panorama mynd og af því Valur hreyfði sig á meðan ég tók myndina þá endaði hann inni á henni í tvígang. Bara búin að klóna bóndann ;-) 
Eftir þennan góða göngutúr fórum við svo að elda matinn. Valur grillaði lambakjöt sem  hann hafði marinerað og meðlætið var grillað spergilkál og salat úr garðinum heima. 
Svo fórum við aftur út og viðruðum okkur aðeins fyrir nóttina. Þá kom þetta svaka fallega sólsetur og kom það mér alveg á óvart. Ég er svo vön að horfa á sólsetur við sjó að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að það gæti verið svona fallegt á fjöllum líka.



Daginn eftir pökkuðum við svo saman og ókum heim á leið eftir alveg hreint stórgóða ferð. 

Engin ummæli: