föstudagur, 23. ágúst 2013

Allt og (aðallega) ekkert


Jebb, mín er að fara að blogga núna og hefur ekkert að segja ... Tja, að minnsta kosti ekkert fyrirfram ákveðið. Stundum bara VERÐ ég að tjá mig á einhvern hátt, þó ég hafi gjörsamlega ekkert vitrænt fram að færa. Kreisí? Já ég veit.

Ætli ég byrji þá ekki bara á hversdagslegu snakki ... Andri er farinn aftur suður á bóginn eftir sumardvöl hér norðan heiða. Það er alltaf svo tómlegt fyrstu dagana eftir að „ungarnir“ hverfa á brott en svo venst það víst. Hann var svo heppinn að fá vinnu strax við komuna til Keflavíkur, en vinur hans mælti með honum í vinnu á bílaleigu (sem ég man ekki hvað heitir...). Áðan hringdi hann frá Vík í Mýrdal og hafði þá skotist þangað að skipta um bíl sem hafði víst bilað eitthvað (en hefur greinilega verið vel ökufær, þar sem Andri átti að keyra hann til baka til Keflavíkur). Það er óhætt að segja að hann gerir víðreist drengurinn, ýmist fljúgandi eða akandi. Annars er ég víst ekkert búin að fljúga með honum í sumar, annað en pabbi hans, sem hefur farið tvisvar með honum í flug. Einhver leti að hrjá þá gömlu.

Annað í fréttum er það helst að við Valur erum bæði í sumarfríi í næstu viku. Höfðum haft miklar fyrirætlanir um að fara eitthvert suður á bóginn með hjólhýsið, en ekki er nú beint hægt að segja að veðurspáin sé okkur hliðholl. Að minnsta kosti ekki á þeim landshluta sem við vorum að spá í. Við eigum t.d. alltaf eftir að skoða Landmannalaugar, en þar er bara leiðindaspá á næstunni. Þannig að ég veit ekki hvernig þetta fer allt saman. Og ég er svo punkteruð eftir að hafa verið í vinnunni í heilar tvær vikur - að ég er ekki að leggja af stað í ferðalag á morgun - það er alveg á hreinu.

Svo eru ÁLFkonur að fara að halda ljósmyndasýningu á Akureyrarvöku en ég ætla ekki að vera með að þessu sinni. Það er önnur sýningin í röð sem ég tek ekki þátt í. Fyrir því eru nokkrar ástæður: Í fyrsta lagi þá er ég að reyna að draga úr öllu því sem veldur mér streitu, og eins gaman og það er að vera með stelpunum í sýningarhaldi, þá er það streituvaldandi fyrir mig. Ég er nú ekki meiri bógur en þetta ... Í öðru lagi þarf að eiga mynd(ir) við hæfi og í þetta sinn var þemað mannlíf og ég tek nánast eingöngu landslags- eða blómamyndir, svo það var nú eiginlega sjálfhætt fyrir mig. Í þriðja lagi þá er alls ekki víst að ég verði heima (ef við Valur förum burt úr bænum eins og við stefnum jú að) og þá gæti ég ekki tekið þátt í stússinu í kringum að setja upp sýninguna. Já já, you get the picture... ég held að ég sé ekkert að tjá mig meira um þetta mál. Finnst samt pínu skrítið að vera ekki með, það verður að segjast eins og er.

Æjá annars styttist víst í haustið og veturinn. Úff, ég er aldrei tilbúin til þess, vil helst hafa endalaust sumar - a.m.k. ef veðrið væri alltaf eins og það er búið að vera þetta sumar. Elska sól og mátulegan hita :-)


þriðjudagur, 13. ágúst 2013

„Drive in“ túristar


Valur gerir stundum góðlátlegt grín að því að við séum svona „drive in“ túristar. Þá er hann að vísa í þá staðreynd að sökum þróttleysis undirritaðrar, þá er aldrei hægt að fara neitt annað en þangað sem við komumst á bíl. Við förum sem sagt aldrei í fjallgöngur, eða lengri gönguferðir til að sjá athyglisverða staði. Allt miðast við að hægt sé að keyra frúna nánast alla leið á staðinn. Það er ekki ólíklegt að við förum á mis við marga fallega staði, en á móti kemur að við förum líka (akandi) á marga staði utan alfaraleiðar - s.s. á Melrakkasléttu, Langanes, Strandirnar o.s.frv. Oft er líka alveg nóg að bara vera úti í náttúrunni, anda að sér fersku súrefni og finna lyktina af sjónum, jafnvel í norðangarra. Það þarf ekki alltaf að leita langt yfir skammt.

Um daginn (í útilegunni á Kópaskeri) fórum við á Langanes. Á einhverjum tímapunkti sá ég fallega fjöru og í henni fullt af ryðguðu brotajárni. Þá lögðum við bílnum, ég klöngraðist niður í fjöruna og við stoppuðum heillengi, tókum myndir og nutum þess að vera úti í náttúrunni. Það spillti reyndar ekki fyrir að þennan dag var 24 stiga hiti og alveg dásamlega fallegt veður.

En það sem ég er að reyna að segja - og gengur ekkert sérlega vel - er að maður getur alveg notið margra hluta þó það sé ýmislegt sem maður getur ekki gert. Ég get ekki hlaupið, ég get ekki farið í fjallgöngur, ég get ekki gengið meira en 1-2 km. í einu - en ég get notið útivistar engu að síður.

Sem sagt ... gleðjast yfir því sem maður getur og vera ekkert að væla yfir hinu ;-)


sunnudagur, 11. ágúst 2013

Að halda haus andlega

er það erfiðasta við að vera í gigtarkasti. Að passa sig að falla ekki í gryfju sjálfsásökunar (sem er jú fáránlegt því vefjagigtin er ekki mér að kenna) og missa sig ekki í sjálfsvorkunn og svartsýni varðandi framtíðina. Núverandi gigtarkast hefur staðið í 5 daga og óhætt að segja að það hafi verið ein risastór andleg prófraun. Get ekki sagt að ég hafi staðist hana 100% en gekk þó betur en stundum áður, m.a. vegna þess að ég er að lesa bókina sem þarna blasir við (reyndar ekki alveg í fókus...).


Það er afskaplega mikilvægt en jafnframt erfitt að sýna sjálfri sér sama skilning og samúð og maður myndi sýna vinkonu sinni við sömu kringumstæður. 

Mæli með því að allir kynni sér self compassion.  


fimmtudagur, 8. ágúst 2013

Fröken náttblind


Þegar ég var krakki og allt fram á fullorðinsár, þá fannst mér alveg dásamlegt að sofa um bjartar sumarnætur. Ég átti ekkert erfitt með að sofna í birtunni og elskaði að vakna í björtu. Þegar ég kynntist Vali þá var annað uppi á teningnum hjá honum. Hann vildi helst vera með dregið fyrir svefnherbergisgluggann á nóttunni og nota myrkvunargluggatjöld. Til að byrja með fannst mér þetta alveg hörmulegt, en vandist þessu svo. Hin síðari ár hef ég svo stundum átt í vandræðum með svefn og nú finnst mér bráðnauðsynlegt að vera með myrkvunargardínur árið um kring. Þá erum við að tala um bæði rúllugardínur og ytri gardínur. Ef ég sef einhvers staðar þar sem þessar græjur eru ekki fyrir hendi, þá brýt ég saman svartan bol t.d. og set yfir augun á mér.

Nú er hins vegar komið upp nýtt vandamál. Ég er nefnilega orðin svo náttblind. Þannig að þegar hausta fer og það dimmir aftur á nóttunni þá sé ég ekki handa minna skil um miðjar nætur. Sem væri ekki vandamál, ef ég gæti nú bara sofið alla nóttina, en það er víst ekki svo. Ég vakna iðulega 1-3x á nóttu til að fara á klóið, og þá staulast ég fram úr rúminu og verð að þreifa mig áfram í herberginu, fram að hurðinni, en þegar ég er komin þangað er mér borgið því það er aldrei jafn dimmt frammi eins og inni í svefnherberginu.

Í nótt vaknaði ég og komst fram á klósett og til baka án teljandi vandræða. Hins vegar þegar ég ætlaði svo að leggjast á koddann misreiknaði ég fjarlægðina í myrkrinu og var mun nær veggnum en ég áætlaði. Með þeim afleiðingum að ég „lagðist“ með höfuðið utan í vegginn svo klingdi í. Sem betur fer meiddi ég mig nú ekki mikið, en þetta var nú samt ekkert sérlega þægilegt...

Það fyrirfinnst afskaplega einföld lausn á náttblindu-vandamálinu. Hún felst í því að skilja eftir örlitla opna rönd neðst á annarri myrkvunar rúllugardínunni, þannig að smá ljósglæta nái að skína inn í herbergið yfir nóttina. Ekki flókið ha? Nei, bara flókið að muna eftir því... hehe..


P.S. Það er nú engin náttblinda í gangi á myndinni sem fylgir þessari færslu. Hún er tekin í fjörunni nálægt bænum Grjótnesi á Melrakkasléttu, en hér sést út á Öxarfjörð. Litli bletturinn þarna við sjóndeildarhring (fyrir miðri mynd) er fiskibátur. Ég veit að þetta er mynd „af engu“ en ég hef lúmskt gaman af því að taka svona myndir. Sólin skín á silfraðan hafflötinn og tíminn stendur í stað eitt andartak.

sunnudagur, 4. ágúst 2013

Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar (eða með Guðnýju, allt eftir því hver á í hlut ...)

Þannig er mál með vexti að mamma og Ásgrímur eru að fara að flytja úr íbúðinni sinni í Innri Njarðvík (sem þau munu leigja út) og flytja sig inn á Nesvelli sem ég held að teljist til Keflavíkur, en á Nesvöllum eru íbúðir og þjónustumiðstöð fyrir aldraða. Þar er m.a. lyfta og stutt í matvörubúð, ólíkt því sem er í íbúðinni þeirra núna.

Anna systir ætlar að koma frá Noregi eftir ca. viku og aðstoða í flutningunum, og mér fannst alveg ótækt að reyna ekki að hjálpa mömmu eitthvað aðeins við að pakka niður. Ég hafði hugsað mér að fara kannski á mánudag (morgun) eða þriðjudag og vera fram undir næstu helgi. Fannst það samt ekki alveg nógu góður kostur því þá yrði ég kannski of þreytt þegar ég byrjaði aftur að vinna eftir sumarfrí. Svo heyrði ég í mömmu á fimmtudagsmorgninum síðasta, og hún var bara byrjuð að pakka á fullu. Þá datt Vali það í hug, að snjallast væri fyrir mig að drífa mig bara strax sama dag suður. Ef ég gerði það næði ég að hjálpa til en samt fá tíma til að hvíla mig áður en vinnan byrjaði.

Þetta var bara býsna góð hugmynd og ég dreif mig í tölvuna að athuga með flug. Það er nú reyndar pínu púsl að láta flugáætlun passa saman við rútuna í Reykjanesbæ, en ég pantaði flug sem var kl. 14, eða þremur tímum síðar. Fór svo á fullt að pakka niður. Ég þurfti líka að skreppa örstutt í vinnuna og græja launagreiðslurnar með Sunnu og svo skrapp ég í Eymundsson og keypti smá afmælisgjöf handa Vali, en hann átti afmæli daginn eftir (2. ágúst).

Valur skutlaði mér svo á flugvöllinn og ég lenti í Reykjavík í blíðskaparveðri. Ákvað að ganga frá flugvellinum og yfir á BSÍ þar sem veðrið var svona gott. Var búin með ca. 2/3 af leiðinni þegar ég var nú eiginlega farin að sjá eftir því, þar sem skrokkurinn var eitthvað farinn að kvarta, en ákvað að láta þær kvartanir sem vind um eyru þjóta. Enda hafði ég fullt í fangi með að þræða framhjá gæsaskít sem lá eins og hráviði um alla gangstéttina. Þegar ég nálgaðist BSÍ var maginn á mér líka farinn að kvarta og þar sem ég hafði nægan tíma til umráða, ákvað ég að hlusta á þá kvörtun, og labbaði inn á Subway sem var þarna rétt hjá. Þar keypti ég mér kjúklingasalat sem bragðaðist alveg ágætlega. Svo var nú klukkan farin að nálgast fjögur og þá dreif ég mig yfir á umferðamiðstöðina.

Ég fékk að fara úr rútunni við hringtorgið rétt hjá Kaffitári og labbaði þaðan heim til mömmu og Ásgríms, en það var nú ekki langt labb. Mamma hafði skroppið í Bónus og var ekki heima þegar ég kom en Ásgrímur var sem betur fer heima og gat tekið á móti mér. Þegar mamma kom heim hafði hún þá sögu að segja að þegar hún ætlaði að greiða fyrir vörurnar í Bónus, var hún með minni peninga á sér en hún hafði haldið. Nokkuð sem getur komið fyrir alla og er nú ekki mjög skemmtilegt. Hún bað afgreiðslustúlkuna um að taka vörur til baka, þar til hún ætti nóg, en þá gerist það að karlmaður kom aðvífandi og sagðist skyldi borga mismuninn. Það er gott til þess að vita að gjafmilt og hjálpsamt fólk fyrirfinnst enn. En ég var nú fegin að vera komin og geta borið innkaupapokana upp stigann fyrir mömmu, því þeir voru níðþungir.

Þetta var sem sagt á fimmtudagskvöldi, og á föstudag og laugardag reyndi ég að gera eitthvað gagn, en það gekk nú misvel. Mamma hefur ábyggilega viljað passa að ég ofreyndi mig ekki, svo hún var ekki tilbúin að leyfa mér að gera neitt afskaplega mikið. Ég gat þó aðstoðað við að setja allar bækur í kassa og það var nú töluvert. Það þarf líka að passa að setja bækur í nógu litla kassa, svo hægt sé að bera þá, en auðvelt að falla í þá gryfju að hafa kassana alltof þunga. Maður gerir sér ekki alltaf grein fyrir því hvað bækur eru þungar.

Ég fór líka í sund í hádeginu báða dagana, enda veðrið afskaplega fallegt. Í leiðinni kom ég við í Bónus og sótti kassa því það er víst aldrei of mikið til af kössum þegar flutt er. Annars kom það mér á óvart hvað það var fátt fólk í sundi þessa dagana. Á samskonar sólardögum hér á Akureyri þá flykkist fólk í sundlaugina, en þarna voru örfáar hræður í sundi. Mér tókst nú að gera einni konu greiða. Hún hafði týnt gúmmíinu utan af öðru glerinu á sundgleraugunum sínum, og ég fann sá það marandi í kafi, rétt upp við bakkann. Konan var þvílíkt ánægð, enda voru bæði hún og maðurinn hennar búin að leita árangurslaust að þessu.

Seinni partinn í gær fór ég í smá útsýnisferð um plássið. Veðrið var svo yndislegt og mamma vildi endilega að ég tæki mér pásu frá vinnunni, og stakk uppá því að ég færi út á bílnum. Sem ég og gerði. Byrjaði á því að fara niður að sjónum, rétt hjá Bónus/Hagkaup/Húsasmiðjunni, en þar er svaka flott útivistarsvæði. Þar komst ég í ljósmyndastuð því skýjafarið var svo fallegt, en var jú ekki með myndavélina meðferðis þannig að síminn þurfti að nægja í þetta sinn. Síðan ók ég eins nálægt sjónum og ég komst, áfram í átt að Innri-Njarðvík, og fann þar á smá kafla alveg ekta „úti á landi-smábæjar-sjávarpláss-stemmingu“ sem hlýtur að vera arfleifð gamals tíma, og var gaman að finna nánast í þéttbýlinu. Ég tók slatta af myndum á farsímann og þær fylgja sumar hér með þessari færslu. Reyndar var ég búin að birta þær á facebook en myndagæðin eru svo ömurleg þar, þannig að ég ákvað að skella þeim bara hingað líka. Brandarinn er náttúrulega sá að ég fattaði ekki að taka myndir af mömmu og Ásgrími, er svo gjörsamlega orðin föst í landslagsmyndunum að ég man aldrei eftir að taka persónulegar myndir.

Allt tekur enda, og þó ég hefði svo gjarnan viljað stoppa lengur og ná að gera meira, þá var víst komið að heimferð í dag. Mamma ók mér á rútubílastöðina í Keflavík og við lögðum af stað þangað um hálf tólf. Rútan fór klukkan tólf af stað til Reykjavíkur en stoppaði oft á leiðinni, auk þess sem hún fór niður í miðbæ áður en hún endaði á umferðamiðstöðinni, svo ég var ekki komin þangað fyrr en að nálgast hálf tvö. Þá tók ég bara leigubíl yfir á flugvöllinn og vélin mín fór norður klukkan tvö.

Heima beið svo Valur og var búinn að baka þessar flottu glúteinlausu „lummur“ og ég fékk þetta fína kaffi-latté með. Hann klykkti svo út með því að grilla lamba-innralæri í kvöldmatinn svo nú er ég aldeilis södd og sæl.












Flott staðsetning - hefði ekkert á móti því að eiga hús við sjóinn.


Girðing við Njarðvíkurkirkju.


Njarðvíkurkirkja.


Þessi síðasta mynd er tekin af tröppunum hjá mömmu og Ásgrími. Mér fannst himininn svo flottur að ég stóðst ekki mátið að smella af.