mánudagur, 14. janúar 2013

Ert þú með gigt?



Vefjagigtarleikfimin hjá Eydísi Valgarðs var að byrja aftur eftir jólafrí. Reyndar byrjaði leikfimin í síðustu viku, en ég sá auglýsinguna of seint og missti af fyrsta tímanum. Þannig að ég dreif mig í morgun kl. 9:30. Sá um leið og ég mætti á staðinn að tíminn myndi líklega ekki byrja fyrr en 9:45 því það var annar hópur að nota lokaða salinn okkar. Ákvað þá að setjast og hjóla í  smá stund. Hafði ekki hjólað lengi þegar ég fann að formið var ekki uppá sitt besta. Bæði þoldi ég illa hávaðann í salnum (margt fólk á hlaupabrettum + í tækjum og þar að auki var verið að ryksuga) og eins fóru hjartsláttartruflanir að gera vart við sig. Þannig að eftir fimm mínútur stóð ég upp og beið bara eftir að tíminn byrjaði.

Þegar við komum svo inn í salinn og stilltum okkur upp sá ég að við erum orðnar töluvert fleiri en fyrir jól og það voru þó nokkrar nýjar konur í hópnum. Við hliðina á mér var kona sem ég þekki aðeins. Hún leit á mig undrunaraugum og spurði: "Ert þú með gigt?" "Já, það er ég" var eina svarið sem hún fékk, því þá byrjaði tónlistin og upphitunin.

Ég veit náttúrulega alveg af hverju hún spurði að þessu, enda sést vefjagigt ekki utan á fólki, og þeir sem sjá mig t.d. í vinnunni sjá bara konu sem lítur út fyrir að vera í þokkalega góðu formi. Og auðvitað er þetta "vandamál" með sjúkdóma sem ekki sjást utan á fólki, ekki eingöngu bundið við gigtarsjúkdóma, heldur marga aðra sjúkdóma.

En svo fór gamanið að kárna. Eftir að hafa verið í laufléttum upphitunaræfingum í ca. 10 mín. var hjartslátturinn hjá mér kominn í einhverja vitleysu, ég fékk svima, varð flökurt og óttaðist að það væri að líða yfir mig. Þá var ekkert annað í stöðunni en setjast á hækjur sér í smá stund. Það dugði samt ekki alveg til, svo Eydís bauð mér að setjast á bolta á meðan ég væri að jafna mig. Síðan fór ég fram og skvetti framan í mig köldu vatni og lét kalt vatn renna á úlnliðina og gat svo fljótlega tekið þátt í leikfiminni aftur.

Þessi uppákoma varð samt til þess að í smá stund fór "hamfara-hugsana-myllan" í gang.
Oh, Guðný, þú ert alltof þreytt eftir jólatörnina. Nú verður þú fram á vor að jafna þig. Og þú sem varst komin á svo gott skrið í haust. Ekki nema furða að sjúkraþjálfarinn væri að skamma þig. Búin að fara í endurhæfingu á Kristnes og komast aðeins áfram í bataferlinu en eyðileggur svo allt .... Og hvað ætli konurnar hérna í hópnum haldi um mig? Næstum því liðið yfir mig í fyrsta leikfimitímanum.... Það hefur heldur örugglega ekki hjálpað til að svindla svona á mataræðinu. Nú verð ég að taka mig á!
Ojá, það vantar ekkert uppá dugnaðinn þegar kemur að því að ásaka sjálfa mig og skammast. Það hjálpar hins vegar alls ekki neitt og gerir bara illt verra. Það er lykilatriði að geta sýnt sjálfri sér skilning á því að vera ekki fullkomin, enda er enginn fullkominn. Nú verð ég bara að taka mér þann tíma sem ég þarf til að ná mér aftur á strik. Hvíla mig mikið og hætta að verða svona pirruð þegar ég er þreytt. Sleppa því að fá samviskubit þó allir frídagar fari í hvíld. Færa mataræðið smátt og smátt til betri vegar. Fara í stutta göngutúra því ég finn að það gerir mér svo gott að fá súrefni/vera úti.

Annars erum við Valur að fara suður um helgina, svo öll þessi fögru fyrirheit verða að bíða þar til við erum komin heim aftur. Já og þá tekur reyndar við bókhaldsvinna því það eru skil á virðisaukaskatti 5. febrúar. Hehe, já þetta er greinilega ekki alveg jafn einfalt og það átti að vera ;-)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hef einmitt heyrt fólk sem er með sjúkdóma, sem ekki sjást utan á því tala um takmarkaðan skilning hjá fólki sem ekki þekkir til. Það getur verið erfitt, en mestu máli skiptir að vera jákvæður gagnvart sjálfum sér og láta það skipta meira máli en álit fólks sem ekkert þekkir til. Bestu kveðjur, Þórdís.

Guðný Pálína sagði...

Takk Þórdís fyrir þitt innlegg. Auðvitað á maður ekkert að spá í álit annarra eða undrun, það er mikið rétt. Mér finnst ég bara stundum lenda í hálfgerðri varnarstöðu og þurfa að fara að útskýra málið fyrir fólki. Sem er bara rugl. Annars hef ég mikið skánað með árunum hvað það snertir að velta mér uppúr áliti annarra :)

Anna Sæm sagði...

Hvað sem öðru líður og hvernig sem þér líður, þá er myndin flott!!! Og takk fyrir spjallið á sunnudaginn:-)

Guðný Pálína sagði...

Takk sömuleiðis fyrir afskaplega gott spjall Anna mín :)