mánudagur, 21. janúar 2013

Borte er bra men hjemme er best :)


Það er alltaf gott að skipta aðeins um umhverfi, en eins gott og það er að fara í burtu í smá stund, þá er alltaf voða notalegt að koma heim aftur.

 Við Valur fórum sem sagt suður á fimmtudaginn, bara svona til að lyfta okkur örlítið upp í skammdeginu. Hann var nú reyndar orðinn efins um það hversu góð hugmynd það væri, því ég er jú búin að vera býsna þreytt eftir jólin. En mér fannst ekki annað hægt en að drífa sig, því við vorum búin að skipuleggja ferðina með nokkrum fyrirvara.

Á fimmtudagskvöldinu fórum við í Borgarleikhúsið og sáum leikritið Gullregn eftir Ragnar Bragason. Við höfðum bæði mjög gaman af því en vissulega var þetta fremur súrsætt gaman. Verkið fjallar um konu sem er "atvinnusjúklingur" og hefur þar að auki alið son sinn upp í þeirri trú að hann væri líka veikur. Hún sjálf var "bara" með asma, mígreni og mjög slæma "vöðvagigt" en henni hafði tekist að troða mun fleiri sjúkdómsgreiningum uppá soninn. Þau lifðu bæði á bótum en hún hafði kynnt sér lög og reglugerðir í þaula, í því skyni að hafa sem allra mest út úr sjúkratryggingunum.

Það var margt gott í þessu leikriti og ýmislegt sem vakti mann til umhugsunar. Ég hugsa samt að fólk sem hefur fordóma gagnvart öryrkjum hafi ekkert sérlega gott af því að sjá þetta verk, því það styrkir eflaust bara þær ranghugmyndir sem sumir gera sér um öryrkja. Ég sjálf átti nú bágt með mig á köflum. Til dæmis þegar aðalpersónan gerði sér upp "slæma daga" til að ráðskast enn meira með fólkið í kringum sig. Þó er ég hvorki öryrki né geri mér upp mína vefjagigt, hvað þá að ég noti hana til að kúga fólkið í kringum mig.

Á föstudeginum fórum við m.a. í morgunmat til tengdaforeldra minna og ókum seinni partinn til Keflavíkur og heimsóttum mömmu og Ásgrím. Þar kíktum við líka á húsakynnin hjá Andra en hann býr á Ásbrú, í íbúðahverfi sem byggt var af bandaríska hernum. Svo kom Andri með okkur til Reykjavíkur og við fórum þrjú saman út að borða um kvöldið. Við höfðum lesið mjög góðar umsagnir um veitingastaðinn Sjávargrillið og forrétturinn stóð svo sannarlega undir væntinum, en hið sama gilti ekki um aðalréttinn, því miður. Það var alltof miklu hrúgað á diskinn, af mismunandi hráefni og gladdi hvorki augu né maga.

Á laugardeginum höfðum við ætlað okkur að rölta um á Laugaveginum, kíkja á kaffihús og taka því rólega, en sú hugmynd fauk bókstaflega út í veður og vind, því það var ekki hundi út sigandi. Við fórum þess í stað í nokkrar (hm, eða margar) húsgagnaverslanir af því okkur langar til að endurnýja stofusófann okkar. Úrvalið er mjög keimlíkt alls staðar og ekki fundum við sófa sem við féllum fyrir. Að minnsta kosti ekki svona í fyrstu atrennu.

Svo fórum við í kaffi til Hjartar og Guðbjargar, en Hjörtur er bróðir Vals. Það var voða gaman að hitta þau, enda alltof sjaldan sem við hittumst. Það sama gildir reyndar um alla sem við þekkjum í Reykjavík, enda erum við ekki oft á ferð í höfuðborginni. Um kvöldið vorum við svo boðin í mat til Guðjóns (hins bróður Vals) og Eddu konunnar hans. Þau búa núna í raðhúsaíbúðinni sem foreldrar Vals bjuggu í þegar við kynntumst, en í millitíðinni er búið að umturna íbúðinni og það er pínu skrýtið finnst mér að vera í sama húsinu, en þó ekki.

Á sunnudagsmorgni fórum við aftur í morgunkaffi til tengdaforeldra minna og ég kveikti of seint á perunni að um hádegisbilið hefði verið upplagt að kíkja í heimsókn til Rósu vinkonu, ef hún hefði verið heima. Í staðinn fórum við snöggan hring í Kringlunni, án þess þó að kaupa neitt, og flugum svo norður aftur kl. 15.

Það verður að segjast eins og er, að ég var hálf framlág megnið af tímanum, en við því var ekkert að gera. Maður stjórnar víst ekki þreytu og verkjum með viljastyrk einum saman. Þrátt fyrir það var samt gaman að bregða sér aðeins af bæ og gott að hitta fólkið okkar.

P.S. Valur tók þessa mynd af okkur Birtu fyrr í haust.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gamla-Birta að lesa augu "móðurinnar" meðan hún les eina af mörgum sófabókunum,
Halur

Fríða sagði...

Mér finnst svona suðurferðir alveg ótrúlega þreytandi. Er fyrir löngu búin að skipta þeim í vinnuferðir, vinaheimsóknir/partý eða fjölskylduheimsóknir. Reyni að blanda þessu helst ekki saman. Þá er allt í lagi að vera í Reykjavík.

Guðný Pálína sagði...

Já Fríða, það væri allra besta lausnin ef hægt væri að skipta suðurferðum í svona flokka. Vandamálið hvað okkur snertir er að við förum svo sjaldan suður, þannig að þá fær maður svaka samviskubit ef maður fer suður án þess að heimsækja ættingjana.