mánudagur, 17. september 2012

Sá á kvölina sem á völina

Eitt af því sem fylgir þessu ástandi á mér, er hræðsla við allt sem fer út fyrir ramma hins daglega lífs.

Í hvert sinn sem upp koma spurningar um að fara í ferðalag, bjóða fólki heim, fara á tónleika, fara í veislur o.s.frv. þá liggur við að ég fái kvíðakast. OK reyndar ekki sambærilegt við það þegar fólk fær raunveruleg ofsakvíðaköst, en ég stressast öll upp. Mun ég komast á þennan viðburð sem um ræðir, eða mun þreytan hafa yfirhöndina og ég neyðast til að hætta við að mæta?

Stundum er ekki annar kostur í stöðunni en fara og vona hið besta, s.s. þegar búið er að panta flug til útlanda. Yfirleitt gengur það þokkalega af því adrenalínið sem fer af stað við slíka ferð dugar mér yfirleitt í nokkra daga. Þó hefur það komið fyrir að meira að segja það að vera erlendis dugði ekki til að gefa mér nægilegt adrenalín"búst". Sem dæmi má nefna þegar ég heimsótti Val til Tromsö vorið 2011, en þá var ég hálf ónýt af þreytu megnið af ferðinni þó ég reyndi að halda haus. Eins fórum við Valur einu sinni keyrandi til Reykjavíkur (gegn betri vitund) og gistum hjá vinafólki. Ég var hálf ónýt þegar við lögðum af stað og daginn eftir var ég bara enn verri. Sú ferð endaði með því að Valur sendi mig heim með flugi en ók sjálfur.

Svo er hin hliðin á málinu. Þó ég sé ef til vill sæmilega upplögð þegar viðkomandi viðburður stendur fyrir dyrum, þá leiðir slíkt útstáelsi alltof oft til meðfylgjandi þreytu og örmögnunar, sem stendur kannski í tvær vikur eftirá. Sem er heldur ekki gott.

Ástæða þess, að ég er að velta mér uppúr þessu núna, er sú að um næstu helgi ætla ÁLFkonur að fara í ljósmyndaferð í Borgarfjörð. Ég er ekki enn búin að gefa skýrt svar varðandi það hvort ég fer með eða ekki. Það er svo erfitt fyrir mig að segja eitthvað ákveðið, því ef ég er búin að lofa einhverju þá vil ég helst standa við það. En sem sagt...

Kostirnir við að fara í ferðina:
- ÁLFkonur eru hrikalega skemmtilegar og gaman að vera með þeim
- Ég tek hugsanlega einhverjar myndir en hef frekar lítið gert af því í sumar
- Það er alltaf gott að breyta aðeins um umhverfi, maður kemur ferskari heim

Ókostirnir við að fara í ferðina:
- Erfitt að lofa sér í eitthvað og treysta sér svo ekki til að fara
- Það er að lágmarki þriggja tíma akstur í Borgarfjörð og ég verð þreytt af að sitja lengi í bíl
- Það er spáð rigningu (fer ekki vel í skrokkinn á mér að vera lengi úti og verða kalt og blaut)
- Ég er háð því að vera samferða öðrum og get ekki bara stungið af heim þegar það hentar mér
- Það eru miklar líkur á því að við kæmum seint heim á sunnudeginum
- Það er hætta á því að næsta vika eða vikur færu í að jafna sig eftir ferðina

Oh, ég er nú meiri hræðslupúkinn!!

Svo styttist í utanlandsferð hjá okkur Val, en Palli bróðir minn er að fara að gifta sig 6. október, og bauð okkur í brúðkaupið. Þá getum við heimsótt Hrefnu mína í leiðinni en annars verður þetta hálfgerð "planes, trains and automobiles" ferð. Það er að segja, flug suður, rúta til Keflavíkur, flug til Köben, bíll eða lest til Jótlands ... og sama sagan á tilbakaleiðinni. Og já já, eins og mér einni er lagið er ég þegar farin að hafa áhyggjur af því hvort verði nú ekki örugglega flogið, þar sem sá árstími er kominn að allra veðra er von. Og hvernig staðan á mér muni verða þá, og .... you get the picture...

En vá, nú er ég hætt þessum vælupistli, sem var skrifaður til að létta á öllu þruglinu í höfðinu á mér og reyna að ná smá áttum í þessu ljósmyndaferðalags-vandamáli.

Og svona til að enda þetta á bjartari nótum, þá kemur hér mynd sem ég tók uppi á heiðinni áður en farið er niður í Mjóafjörð (man ekki hvað heiðin heitir). Ég elska íslenskar heiðar að sumri til. Þar er allt svo hreint og tært og ég finn fyrir sérstakri tilfinningu sem ég kann ekki að lýsa, en tengist því hversu gott er að vera úti og anda að sér fersku fjallalofti :-)


Engin ummæli: