föstudagur, 28. september 2012

Bókhalds-maraþon að baki


eða nánast að baki, að minnsta kosti. Ég uppgötvaði í lok síðustu viku að ég þyrfti að vera búin að færa bókhald fyrir júlí og ágúst áður en við færum til Danmerkur. Skil á virðisaukaskatti eru 5. okt. og við förum jú þann 3ja okt. Svo þá var fátt annað í stöðunni en láta hendur standa fram úr ermum og nota hverja lausa stund í að vinna að bókhaldinu. Í því samhengi var ágætt að það var rólegt í vinnunni, og því gat ég unnið að þessu í vinnutímanum, en það dugði þó ekki til, og öll kvöld þessa viku hafa líka farið í bókhaldsvinnu.

Það er ekki ofsögum sagt, að ég var eiginlega búin að klára mig á þessu, og var í gærkvöldi alveg búin á því eftir þessa törn. En ég náði að sofa aðeins lengur í morgun og var skárri í dag. Staðan er sem sagt þannig núna að ég er búin að færa allar færslurnar og prenta út, en á eftir að lesa yfir og leita að villum. Sem slæðast alltaf einhverjar inn þó maður reyni að vanda sig.

Annað sem hefur einkennt þessa viku eru ferðir með Birtu til dýralæknisins. Um helgina síðustu var ég búin að fá alveg nóg af ælustandi en kötturinn hefur verið að æla mismikið alveg frá því í sumar. Nú hafði þetta aukist svo mikið að ég sá að við svo búið mátti ekki standa, og fór með þá gömlu til Elfu dýralæknis.

Niðurstaðan var sú að frúin var bæði með þvagfærasýkingu og hægðatregðu. Hið síðarnefnda olli uppköstunum. Birta var sprautuð með sýklalyfi og þurfti ég svo að koma aftur með hana í sprautu bæði miðviku- og föstudag. Hún fékk líka mjólkursýrugerla til að reyna að koma meltingunni í lag. Eitthvað hefur hún nú skánað í maganum og ælir sjaldnar en ekki samt orðin góð ennþá.

Og svona í óspurðum fréttum ... þá er það helst að frétta af heilsufari mínu að ég er mun skárri af þessari pesti/gigtarkasti og get ekki lýst því hvað ég er fegin. Fyrir ca. ári síðan gat svona kast staðið vikum saman, svo eitthvað er nú ástandið á mér að skána :-)

Engin ummæli: