þriðjudagur, 11. september 2012

Já við fengum svo sannarlega storm

og snjó ... og rafmagnsleysi og ... skyndilega var bara vetur skollinn á af fullum þunga. Sem betur fer stóð þetta óveður ekki lengi, en nógu lengi til að setja litla Ísland á annan endann.

Ég var í vinnunni í Pottum og prikum þegar rafmagnið fór af í gær. Fyrst hélt ég að það kæmi fljótlega aftur en heyrði svo að það væri mjög ólíklegt. Engu að síður voru viðskiptavinir áfram á torginu og maður hélt í vonina að kannski yrði þetta bara stutt. Eftir dálitla stund kom svo rafmagn aftur á, en einungis í skamma stund. Það var um hálf fimm leytið og eftir á að hyggja var ég hálf fúl út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki haft vit á því að nota rafmagnið til að loka búðinni (það er ekki hægt að renna niður rúllugardínunni nema með rafmagni). Svo auðvitað fór rafmagnið strax aftur og ég þurfti að "hanga" í vinnunni (í myrkrinu) í klukkutíma í viðbót, þar til verslunarmiðstöðinni var hreinlega lokað. Það var ansi dimmt inni hjá okkur þó svo bjart væri úti, því það eru jú engir gluggar á útvegg í búðinni.

Þegar ég kom heim var Valur að velta því fyrir sér hvernig best væri að elda kvöldmat í rafmagnsleysinu. Niðurstaðan varð sú að drösla grillinu inn í bílskúr (það var varla stætt á því að grilla úti, vegna vinds og snjókomu). Þar grillaði hann fiskinn sem hefði annars verið steiktur á pönnu og ég gerði salat með. Svo á meðan við vorum að borða kom rafmagnið aftur, sem var hið besta mál. Við gátum þá fengið okkur kaffi/te eftir matinn og borðað afgang af vöfflum frá deginum áður.

Seinni partinn í dag var svo rjómablíða úti og erfitt að gera sér í hugarlund að veðrið hefði verið svona vont í gær. Tja, ef ekki hefði verið snjórinn, sem lá eins og hvít ábreiða á grasinu.

Ég skrapp í smá göngutúr um nærumhverfið eftir vinnu. Tók myndavélina með og hér má sjá afraksturinn.


Engin ummæli: