miðvikudagur, 5. september 2012

Bless, bless fullkomnunarárátta

Eftir að hafa þýtt greinina 11 heilræði frá 11 veikindaárum og fengið mjög jákvæð viðbrögð við henni, fannst mér allt í einu eins og hver einasti pistill sem ég kæmi með á þessari síðu yrði að vera svo óskaplega merkilegur.

Ég hafði vissar hugmyndir um efni sem ég vildi svo gjarnan fjalla um, svona fyrir utan þetta venjulega blaður um mitt daglega líf, en BÚMM - skaut sjálfa mig í kaf áður en ég komst lengra . 

Það er náttúrulega alveg ferlegt þegar maður gefur skotleyfi á sjálfan sig - og ekki nóg með það - heldur tekur sjálfur í gikkinn líka. Hm, kannski fullmikil myndlíking hér á ferð, en málið er, að auðvitað á maður að standa með sjálfum sér í lífinu og ekki láta einhver ímynduð fyrirbæri eins og fullkomnunaráráttu eyðileggja fyrir sér.

Þannig að ... nú ætla ég bara að halda áfram að blogga eins og ég gerði áður. Innihaldið mun verða misgáfulegt eins og áður, en vonandi einhverjir skárri pistlar inn á milli ;-) Kannski flýtur einhver fróðleikur með, ábyggilega einhverjar ljósmyndir og líklega smá vol og væl þegar ég er alveg að gefast upp á vefjagigtinni/síþreytunni  - en ég ætla að láta vaða og hætta að hafa áhyggjur af því að hver einasta bloggfærsla þurfi að vera 100% fullkomin. Og hana nú!