sunnudagur, 30. september 2012

Kominn ferðahugur í frúna


Já það styttist í Danmerkurferð og ég byrjuð að skrifa hjá mér hvað ég ætla að taka með mér. Erindi ferðarinnar er að fara í brúðkaupsveislu, en Palli bróðir minn er að fara að giftast henni Sanne sinni laugardaginn 6. október. Þau búa á Jótlandi og það er 3ja tíma lestarferð frá Kaupmannahöfn. Í Köben býr svo auðvitað dóttir mín kær og auðvitað verður hún heimsótt í leiðinni. Plús að hún kemur líka í brúðkaupið. Anna systir og Kjell-Einar koma líka frá Osló, svo það verður aldeilis gaman að hitta alla þessa fjölskyldumeðlimi mína sem búa erlendis.

Mér finnst alltaf jafn flókið að ákveða hvaða föt ég á að taka með mér í ferðalög. Það endar yfirleitt með því að ég er annað hvort með of lítið eða of mikið, eða að fötin sem ég er með passa ekki við veðrið á staðnum. Það er alveg þokkaleg veðurspá í Danmörku þessa daga og því ætti ekki að vera þörf á vetrarfatnaði. En samt fer ég að hugsa... Hm, ætti ég nú ekki að vera með vetrarkápuna til öryggis? Jú ég þarf nú hvort sem er að vera í henni á ferðalaginu innanlands. En hvað með skó, hvaða skó á ég að taka? Leðurstígvél, lága skó, spariskó... Hvaða föt á ég sem passa fyrir ca. 12 stiga hita, en eru samt ekki sumarföt?

Hehe, já þetta er bilun, ég veit það. Og NB! ástæðan er ekki sú að ég eigi svo mikið af fötum. Þetta er bara spurning með að ákveða í hvaða fötum ég ætla að vera þarna úti, og standa við það. Fara ekki að henda þessu og hinu ofan í töskuna á síðustu stundu, bara svona til að vera við öllu búin.

Svo er aldrei að vita nema ég versli eitthvað smávegis. Um daginn sagði ég frá því hér á blogginu að ég kaupi flest mín föt á útsölum eða með afslætti. Undantekningin frá þeirri reglu er þegar ég kaupi eitthvað í "ódýrari" verslunum erlendis s.s. H&M, Lindex, eða álíka búðum.

Jæja, ætli þetta sé ekki að verða nóg blaður um allt og ekkert. Ég gæti nú montað mig af því að hafa farið í hjóltúr í morgun, þrátt fyrir að hafa verið býsna lúin. Mér finnst eins og úthaldið hjá mér sé að skána töluvert þessa dagana. Hm, eða þannig. Var varla búin að sleppa þessari hugsun þegar ég mundi eftir því að ég þurfti nú að stoppa í hjóltúrnum (eftir að hafa hjólað eingöngu á jafnsléttu og niður brekku) af því ég var komin með svo mikinn hjartslátt. En svo hjólaði ég nú samt upp eina (fremur aflíðandi) brekku án þess að vera alveg að drepast, svo það var nú jákvætt.

Það var eiginlega alveg dásamlegt að vera úti að hjóla á sunnudagsmorgni. Allt var svo kyrrt og hljótt og það var hressandi haustkul í loftinu.

Hið sama mátti segja í gærmorgun. Þá fór ég í ljósmyndarölt í kirkjugarðinum.  Sólin skein og ég var þarna alein, rölti um og smellti af myndum þegar ég sá einhver myndefni. Tja alveg þangað til mér var orðið ískalt, því hitastigið var nú bara ein gráða þarna um níuleytið.

Hér má sjá hvernig umhorfs var í kirkjugarðinum í gærmorgun. Haustið í algleymingi.









föstudagur, 28. september 2012

Bókhalds-maraþon að baki


eða nánast að baki, að minnsta kosti. Ég uppgötvaði í lok síðustu viku að ég þyrfti að vera búin að færa bókhald fyrir júlí og ágúst áður en við færum til Danmerkur. Skil á virðisaukaskatti eru 5. okt. og við förum jú þann 3ja okt. Svo þá var fátt annað í stöðunni en láta hendur standa fram úr ermum og nota hverja lausa stund í að vinna að bókhaldinu. Í því samhengi var ágætt að það var rólegt í vinnunni, og því gat ég unnið að þessu í vinnutímanum, en það dugði þó ekki til, og öll kvöld þessa viku hafa líka farið í bókhaldsvinnu.

Það er ekki ofsögum sagt, að ég var eiginlega búin að klára mig á þessu, og var í gærkvöldi alveg búin á því eftir þessa törn. En ég náði að sofa aðeins lengur í morgun og var skárri í dag. Staðan er sem sagt þannig núna að ég er búin að færa allar færslurnar og prenta út, en á eftir að lesa yfir og leita að villum. Sem slæðast alltaf einhverjar inn þó maður reyni að vanda sig.

Annað sem hefur einkennt þessa viku eru ferðir með Birtu til dýralæknisins. Um helgina síðustu var ég búin að fá alveg nóg af ælustandi en kötturinn hefur verið að æla mismikið alveg frá því í sumar. Nú hafði þetta aukist svo mikið að ég sá að við svo búið mátti ekki standa, og fór með þá gömlu til Elfu dýralæknis.

Niðurstaðan var sú að frúin var bæði með þvagfærasýkingu og hægðatregðu. Hið síðarnefnda olli uppköstunum. Birta var sprautuð með sýklalyfi og þurfti ég svo að koma aftur með hana í sprautu bæði miðviku- og föstudag. Hún fékk líka mjólkursýrugerla til að reyna að koma meltingunni í lag. Eitthvað hefur hún nú skánað í maganum og ælir sjaldnar en ekki samt orðin góð ennþá.

Og svona í óspurðum fréttum ... þá er það helst að frétta af heilsufari mínu að ég er mun skárri af þessari pesti/gigtarkasti og get ekki lýst því hvað ég er fegin. Fyrir ca. ári síðan gat svona kast staðið vikum saman, svo eitthvað er nú ástandið á mér að skána :-)

þriðjudagur, 25. september 2012

Prufa



Ég er að prófa að flytja myndir beint úr ljósmyndaforritinu Lightroom, yfir á bloggið mitt. Sýnist það vera að takast ágætlega. Hm, eða ekki. Það er ekki hægt að smella á myndina til að stækka hana. (Jú núna, ég er búin að laga það).

Það er annars alveg stórfurðulegt hvað ég get verið misjafnlega spræk á einum og sama deginum. Ég hef verið óttalega slöpp alveg síðan á föstudaginn síðasta, og í morgun þegar ég vaknaði leið mér herfilega illa. Ákvað samt að fara í sund, af því mér finnst gott að hitta fólkið í sundinu og byrja daginn vel. Synti hins vegar bara 6 eða 8 ferðir og lét það gott heita. Fór heim og fékk mér morgunmat en var svo slöpp og þreytt að mig langaði mest að leggja mig þarna á milli hálf tíu og tíu. Lét það ekki eftir mér, heldur tók úr uppþvottavélinni og ryksugaði gólfið. Fór svo í vinnuna.

Í vinnunni var ég fyrstu tvo tímana alveg hreint skelfilega drusluleg. Leið eins og ég væri veik og þoldi ekki andlitið sem mætti mér í speglinum þegar ég fór á klósettið. Grá í framan og veikluleg eitthvað. Jæja, svo kom vinkona mín í heimsókn til mín í vinnuna og við spjölluðum aðeins og síðan borðaði ég kjúklingasúpu sem ég var með í nesti. Það voru fáir viðskiptavinir á ferli (dæmigerður september) en ég náði að vinna góðan slurk í bókhaldinu, þrátt fyrir slappleika. Svo um eittleytið fann ég að ég var eitthvað að hressast og þráði ekki lengur allra heitast að komast heim í rúm. Var í vinnunni til að verða þrjú og var þá svo hress þegar ég kom heim, að eftir að hafa borðað berjahristing, dreif ég mig út með myndavélina.

Í Lystigarðinum smellti ég af nokkrum misgóðum myndum. Þessi sem fylgir pistlinum er ein sú skásta af þeim. Hlustaði á fuglana syngja og náði að slaka ágætlega á í smá stund. Var voða glöð með að líða betur.

Nú er bara að vona að ég haldi áfram að hressast. Það væri ekki verra, þar sem ég er jú að fara til Danmerkur í næstu viku ;-)

sunnudagur, 23. september 2012

Fyrstu haustlitirnir


Það eru ca. 10 dagar ég tók þessa mynd, fyrir utan sundlaugina hér á Akureyri. Eins og segir í fyrirsögninni, þá voru þetta fyrstu haustlitirnir sem ég sá. Sundlaugin stendur örlítið neðar í bænum heldur en húsið okkar og það munar um þennan litla hæðarmun. Gróðurinn er fyrr af stað á vorin, blómstrar fyrr og haustlitirnir birtast fyrr. Já svo er yfirleitt einni til tveimur gráðum heitara á þessu svæði.

Núna eru haustlitirnir allt í einu að "springa út" og hver fer að verða síðastur að ná mynd af þeim, áður en laufin fjúka burt með norðanvindinum.

laugardagur, 22. september 2012

Þema dagsins eru blendnar tilfinningar



sem og gærdagsins. Í gær ætlaði ég jú að drífa mig í ljósmyndaferð með ÁLFkonum, og var langt komin með að pakka dótinu mínu og skipuleggja það sem að mér snéri í sambandi við ferðina.

En þegar ég vaknaði í gærmorgun var kominn nýr skipstjóri í brúna ... Það er að segja, vefjagigtin hafði læðst aftan að mér í skjóli nætur og réði nú lögum og lofum. Mér leið eins og ég væri að fá flensu (dæmigert gigtarkast lýsir sér þannig), verkjaði í allan skrokkinn og var þung og sljó yfir höfðinu. Það hafði nú reyndar verið byrjað daginn áður, enda vissi ég varla hvort ég var að koma eða fara í vinnunni á fimmtudaginn, var svo ferlega utan við mig eitthvað.

Jahá, þarna var ég sem sagt lent í því sama vandamáli og ég hafði óttast. Búin að láta vita að ég kæmi í ferðina en treysti mér svo ekki þegar á hólminn var komið. Ég fór í vinnuna og var allan tímann að velta því fyrir mér hvað ég ætti að gera í málinu. Ætti ég að láta eins og ekkert hefði í skorist og fara af stað? Það var vissulega möguleiki en það sem stóð í mér var að þurfa að keyra í rúma 3 tíma svona slöpp. Ég vissi þrátt fyrir að geta hugsanlega haldið mér gangandi í þennan tíma með því að drekka kaffi og borða eitthvað sætt, þá væri það ekki gáfulegt.

Svo hresstist ég eitthvað örlítið og fékk þá vott af bjartsýni. Jú jú, bara ef ég færi heim eftir vinnu og hvíldi mig aðeins, þá gæti ég ábyggilega lagt af stað seinna um daginn. Ég hafði samið um það við Sunnu að mæta fyrr í vinnuna svo ég gæti farið í ferðina og hún kom korter í eitt. Þá byrjaði ég á því að keyra Ísak í Ökugerði (liður í ökunáminu hans) en fór svo heim og fékk mér að borða. Eftir smá stund var ég aftur orðin slöpp og þreytt, og eftir að hafa "lagst undir feld" var endanleg niðurstaða sú að fara ekki í ferðina.

Til að byrja með leið mér vel með að hafa tekið skynsamlega ákvörðun. Sat og prjónaði í smá stund og var bara nokkuð sátt við sjálfa mig. Ekki leið þó á löngu þar til niðurrifs-seggurinn var sestur að á öxlinni á mér, og var nú aldeilis í essinu sínu. Hér kemur smá brotabrot af öllu því neikvæða sem karlinn sá hafði að segja:

  • Hvað ætli stelpurnar haldi eiginlega um mig? 
  • Það eru fleiri en ég í hópnum með vefjagigt og engin þeirra hætti við að fara. Af hverju fór ég ekki bara þó ég væri slöpp?
  • Af hverju er ég svona mikill aumingi? 
  • Ætli mér hafi hreinlega tekist að stressa mig upp í gigtarkast?
  • Ég var nú meiri asninn að halda að þetta gengi upp. Ætti nú að vita hvernig staðan er yfirleitt á mér í vikulokin. 
  • Af hverju skipulagði ég mig ekki betur? Var búin að gera alltof margt í þessari viku fyrir utan vinnuna, s.s. fara í leikfimi x 2 og í sund x2, fara í sjúkraþjálfun, til tannlæknis, á hárgreiðslustofu, á fund í ljósmyndaklúbbnum. Hefði ég hugsað rökrétt þá hefði ég vitað að þetta myndi aldrei ganga upp. 
  • Það er svo ótrúlega fúlt að vera hluti af félagsskap en geta ekki tekið fullan þátt í því sem gert er.
  • Nú missi ég af öllu fjörinu, því ég veit að það verður hlegið út í eitt allan tímann.

Bla, bla, bla og svo framvegis. Ég þekki hr. Niðurrifssegg svo alltof vel, þó ekki séum við sérstakir vinir. Og auðvitað ætti ég hreint ekkert að vera að hleypa honum inn þegar hann kemur í heimsókn. Það er bara erfitt því vaninn er svo sterkur.

Mergurinn málsins er sá að ég dett alltaf í að finnast ég vera ábyrg fyrir mínu ástandi. Það er að segja, mér finnst heilsufar mitt á einhvern hátt vera mér að kenna. Að ég eigi að geta gert eitthvað til að bæta úr því (NB! ég er jú endalaust að reyna að bæta úr því, það er ekki eins og ég liggi bara aðgerðalaus á bakinu og bíði eftir kraftaverki).

Og af því mér tekst ekki að "hrista þetta af mér" (sem er náttúrulega fáránleg krafa) þá finnst mér ég vera að bregðast öllum í kringum mig. Fyrst og fremst eiginmanni og fjölskyldu, en líka Sunnu meðeiganda mínum í P&P, vinkonum mínum, stelpunum í ljósmyndaklúbbnum o.s.frv.

Þetta eru allt saman órökréttar hugsanir og tilfinningar - og ég veit það - en það breytir því ekki að þær eru þarna. Hjálplegar eru þær ekki, en það hjálpar samt að sjá þær svart á hvítu. Svona eitthvað í þá áttina að ef þú þekkir óvininn þá er auðveldara að finna leið til að sigra hann.

Niðurstaðan er sú að ég gerði það sem ég taldi réttast í stöðunni, var heima, þó það væri erfið ákvörðun að taka, og mér þætti leiðinlegt að missa af öllu fjörinu. Þá verð ég líka að standa með sjálfri mér og hugsa um jákvæðu hliðarnar á því að vera heima, í þess að missa mig í brjálaða sjálfsgagnrýni með eftirfylgjandi sjálfsvorkunn.

P.S. Ég nota bloggið til að ná utan um óreiðuna í huga mér og líður alltaf betur á eftir. Stundum gleymi ég því samt að það eru fleiri en ég sem lesa þetta. Vona samt að það geri meira gagn en ógagn fyrir mína "vesalings" lesendur ;-)



fimmtudagur, 20. september 2012

Mér var ekki alveg rótt um daginn

þegar ég "fékk lánaðar" myndir af blogginu hennar J. án þess að biðja um leyfi. Svo eftir að hafa birt myndirnar, þá skrifaði ég henni og bað formlega um leyfi. Eftir tvo daga fékk ég eftirfarandi svar:

Guðný,
Thank you so much for asking permission! This is totally fine, and you are sweet to ask, and sweet to give me a shout-out on your blog!
Thank you again !!
J.

Svo þá get ég hætt að hafa áhyggjur af því :-) Sem er eins gott því ég sé sjálfri mér alveg hreint fyrir nægum áhyggju-verkefnum þessa dagana. Þar kemur nú eiginlega vel á vondan, því ég hef stundum í gegnum tíðina verið að skjóta á dóttur mína fyrir að hafa áhyggjur af öllu mögulegu og ómögulegu, langt fram í tímann. Hvar skyldi hún hafa lært þetta...? Hm... 

En já ég fór á ÁLFkonufund í gærkvöldi þar sem ræða átti ferðina fyrirhuguðu. Ég segi ræða "átti" því flest annað var nú rætt heldur en ferðin góða. Að minnsta kosti framan af. Þegar þessi hópur kvenna kemur saman þá er bullað út í hið óendanlega - og hlegið út í eitt - sem er bara dásamlegt!  Kannski hafa þær tekið sig á og rætt ferðina alveg í tætlur, eftir að ég var farin ;o) Ég var sem sagt fyrst til að fara heim (eins og venjulega) því tankurinn var orðinn alveg tómur og ég ætlaði að vera voða gáfuleg og fara snemma að sofa. 

Mér bara gekk alveg herfilega illa að sofna. Var endalaust að hugsa um ferðina og mikla þetta fyrir mér allt saman. Samt er ég búin að ákveða að vera á eigin bíl (sem er fínt, en þá missi ég reyndar af því að vera með þeim í fjörinu á leiðinni, því þær verða allar hinar saman í bílaleigubíl). Svo fer ég bara heim á sunnudagsmorgni þegar þær hinar bruna í Stykkishólm. Það verður ábyggilega gaman en mig grunar að sunnudagurinn geti orðið býsna langur hjá þeim.

Svo velti ég því fyrir mér hvort ég ætti kannski frekar að keyra með þeim í Borgarfjörðinn og taka  strætó aftur norður í land á sunnudeginum. Kannaði málið og sá að strætó er bara svo agalega lengi á leiðinni. Það tekur 4 klukkutíma og 45 mínútur að keyra frá Borgarnesi til Akureyrar. Meðal annars vegna þess að það er farið til Sauðárkróks. Niðurstaðan er því sú að ég mun bara vera sjálf á bíl.

Þá ég bara eftir að skipuleggja mataræðið mitt í ferðinni. Það verður elduð sameiginleg máltíð og ég á eftir að sjá hvort ég mun geta borðað matinn sem verður á boðstólum, en geri hins vegar engar kröfur um það. Valur stakk uppá því í gær að ég gæti tekið með mér súpu og ef til vill eitthvað fleira s.s. kjötbollur, svo það ætti nú að vera hið besta mál. Svo græja ég morgungraut úr Chia fræjum og tek með mér frækexið mitt góða og álegg. 

Og að lokum, þá eru þær svo æstar í að leggja snemma af stað, að mér skilst að brottför eigi að vera kl. 13 en ég á að vera að vinna til kl. 14. Það svo sem skiptir kannski ekki máli fyrir mig að leggja af stað á sama tíma og þær, ég þarf ekkert endilega að vera í samfloti. Kannski er það meira að segja bara leiðinlegt að vera ein í bíl með þær 12 í stuði í rútu fyrir framan mig, hehe ;-)

En já, ætli mér hafi ekki tekist að blogga burt stressið sem var að fara með mig í sambandi við þessa blessaða ferð. Ég vaknaði sem sagt í morgun með stresshnút í maganum og vissi ekkert hvort ég var að koma eða fara. Var efins um það hvort ég ætti að drífa mig í leikfimi, því ég var hálf illa sofin, en fór svo í leikfimina og leið að sjálfsögðu betur á eftir. Þetta er sama vefjagigtar-leikfimin og ég var í í fyrravetur og mjög róleg og fín leikfimi sem endar með slökun. Eini gallinn er sá að maður kemur geispandi og gapandi út úr tímanum (eða ég geri það) því ég verð svo þreytt eftir slökunina. Sem ég veit þó að ég hef mjög gott af.

Og nú læt ég þessu maraþon-blaður-bloggi lokið í bili.

P.S. Ég vildi samt óska að það væri ekki spáð rigningu í Borgarfirðinum alla helgina...

mánudagur, 17. september 2012

Sá á kvölina sem á völina

Eitt af því sem fylgir þessu ástandi á mér, er hræðsla við allt sem fer út fyrir ramma hins daglega lífs.

Í hvert sinn sem upp koma spurningar um að fara í ferðalag, bjóða fólki heim, fara á tónleika, fara í veislur o.s.frv. þá liggur við að ég fái kvíðakast. OK reyndar ekki sambærilegt við það þegar fólk fær raunveruleg ofsakvíðaköst, en ég stressast öll upp. Mun ég komast á þennan viðburð sem um ræðir, eða mun þreytan hafa yfirhöndina og ég neyðast til að hætta við að mæta?

Stundum er ekki annar kostur í stöðunni en fara og vona hið besta, s.s. þegar búið er að panta flug til útlanda. Yfirleitt gengur það þokkalega af því adrenalínið sem fer af stað við slíka ferð dugar mér yfirleitt í nokkra daga. Þó hefur það komið fyrir að meira að segja það að vera erlendis dugði ekki til að gefa mér nægilegt adrenalín"búst". Sem dæmi má nefna þegar ég heimsótti Val til Tromsö vorið 2011, en þá var ég hálf ónýt af þreytu megnið af ferðinni þó ég reyndi að halda haus. Eins fórum við Valur einu sinni keyrandi til Reykjavíkur (gegn betri vitund) og gistum hjá vinafólki. Ég var hálf ónýt þegar við lögðum af stað og daginn eftir var ég bara enn verri. Sú ferð endaði með því að Valur sendi mig heim með flugi en ók sjálfur.

Svo er hin hliðin á málinu. Þó ég sé ef til vill sæmilega upplögð þegar viðkomandi viðburður stendur fyrir dyrum, þá leiðir slíkt útstáelsi alltof oft til meðfylgjandi þreytu og örmögnunar, sem stendur kannski í tvær vikur eftirá. Sem er heldur ekki gott.

Ástæða þess, að ég er að velta mér uppúr þessu núna, er sú að um næstu helgi ætla ÁLFkonur að fara í ljósmyndaferð í Borgarfjörð. Ég er ekki enn búin að gefa skýrt svar varðandi það hvort ég fer með eða ekki. Það er svo erfitt fyrir mig að segja eitthvað ákveðið, því ef ég er búin að lofa einhverju þá vil ég helst standa við það. En sem sagt...

Kostirnir við að fara í ferðina:
- ÁLFkonur eru hrikalega skemmtilegar og gaman að vera með þeim
- Ég tek hugsanlega einhverjar myndir en hef frekar lítið gert af því í sumar
- Það er alltaf gott að breyta aðeins um umhverfi, maður kemur ferskari heim

Ókostirnir við að fara í ferðina:
- Erfitt að lofa sér í eitthvað og treysta sér svo ekki til að fara
- Það er að lágmarki þriggja tíma akstur í Borgarfjörð og ég verð þreytt af að sitja lengi í bíl
- Það er spáð rigningu (fer ekki vel í skrokkinn á mér að vera lengi úti og verða kalt og blaut)
- Ég er háð því að vera samferða öðrum og get ekki bara stungið af heim þegar það hentar mér
- Það eru miklar líkur á því að við kæmum seint heim á sunnudeginum
- Það er hætta á því að næsta vika eða vikur færu í að jafna sig eftir ferðina

Oh, ég er nú meiri hræðslupúkinn!!

Svo styttist í utanlandsferð hjá okkur Val, en Palli bróðir minn er að fara að gifta sig 6. október, og bauð okkur í brúðkaupið. Þá getum við heimsótt Hrefnu mína í leiðinni en annars verður þetta hálfgerð "planes, trains and automobiles" ferð. Það er að segja, flug suður, rúta til Keflavíkur, flug til Köben, bíll eða lest til Jótlands ... og sama sagan á tilbakaleiðinni. Og já já, eins og mér einni er lagið er ég þegar farin að hafa áhyggjur af því hvort verði nú ekki örugglega flogið, þar sem sá árstími er kominn að allra veðra er von. Og hvernig staðan á mér muni verða þá, og .... you get the picture...

En vá, nú er ég hætt þessum vælupistli, sem var skrifaður til að létta á öllu þruglinu í höfðinu á mér og reyna að ná smá áttum í þessu ljósmyndaferðalags-vandamáli.

Og svona til að enda þetta á bjartari nótum, þá kemur hér mynd sem ég tók uppi á heiðinni áður en farið er niður í Mjóafjörð (man ekki hvað heiðin heitir). Ég elska íslenskar heiðar að sumri til. Þar er allt svo hreint og tært og ég finn fyrir sérstakri tilfinningu sem ég kann ekki að lýsa, en tengist því hversu gott er að vera úti og anda að sér fersku fjallalofti :-)


sunnudagur, 16. september 2012

Fatapælingar

Fatakaup hafa aldrei verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér, en samt hef ég gaman af því að klæða mig smekklega. Já eða reyna að vera smekkleg ... það er nú kannski ekki alltaf sem það tekst. Stundum koma tímabil sem ég nenni engan veginn að hugsa um/ákveða í hvaða fötum ég á að vera og gríp nánast það sem hendi er næst. Yfirleitt velti ég því þó aðeins fyrir mér og reyni að velja föt sem klæða mig vel og passa saman. Mér finnst líka gaman að því að fara í gegnum fötin mín og raða þeim saman uppá nýtt, þannig að útkoman verði "nýtt dress" þó svo ég hafi ekki keypt neitt nýtt.

Megnið af fötunum mínum er reyndar keypt á útsölu, eða með afslætti. Ég hef einhvern veginn ekki samvisku til að kaupa föt á fullu verði, nema þá endrum og sinnum. Föt eru dýr og kannski er ég hrædd um að eyða peningum í eitthvað sem ég muni ekki nota. Tja, eða þá að ég er bara svona hagsýn húsmóðir ;) Að minnsta kosti þá er ég alltaf sérlega ánægð þegar ég get raðað saman einhverju sem mér finnst vera flott, án þess að það hafi kostað mig heila formúu.

Þetta með að raða fötum saman getur verið svolítið púsluspil finnst mér. Sérstaklega þar sem ég fylgist ekki sérlega vel með tískunni. Ég er löngu hætt að kaupa tískublöð og mér finnst líka einstaklega leiðinlegt að kaupa föt sem "allir" eru í þá stundina. Það er að segja, við Íslendingar sýnum svo mikla hjarðhegðun á stundum, að ef eitthvað trend verður vinsælt þá eru bókstaflega allar konur komnar í þess konar plagg innan tíðar. En auðvitað kaupi ég jú fötin mín í sömu verslunum og allir aðrir og megnið af tímanum er ég afskaplega venjuleg í útliti, þó stundum hafi ég gaman af því að sprella aðeins. Svona eins og í gær þegar ég mætti í vinnuna í doppóttum kjól og eldrauðum sokkabuxum.

Núna undanfarið hef ég leitað á náðir internetsins við að finna fatasamsetningar og liti sem höfða til mín. Þar kemur Pinterest sterkast inn en mér finnst það ótrúlega sniðug síða. Þar er hægt að "klippa út" myndir af öllu mögulegu sem maður rekst á á internetinu, og "líma" á einskonar töflu, sem geymir myndirnar. Svona eins og rafræn úrklippubók sem maður getur svo endalaust bætt inn í og flett upp í til að fá hugmyndir.

Svo rakst ég líka á skemmtilegt tískublogg um daginn. Konan sem skrifar bloggið kallar sig J og býr í Flórída í Bandaríkjunum, sem er eini gallinn því veðurfarið þar er jú býsna frábrugðið veðurfarinu hér hjá okkur, og þar af leiðandi verður fatastíllinn aðeins frábrugðinn. En markmið hennar er að brúa bilið milli ljósmyndanna sem tískutímaritin sýna, og hinnar venjulegu konu sem vill klæða sig í samræmi við tískuna. Hún fær innblástur úr tímaritum og notar þær hugmyndir til að setja saman klæðnað sem er á færi allra að kaupa. Þetta er hennar persónulega blogg og hún sýnir myndir af sjálfri sér + oft á tíðum upprunalegu tískumyndina sem gaf henni hugmyndina.

Ég rændi nokkrum myndum af facebook síðu hennar J. Sem er kannski ekki fallegt að gera en hlýtur að sleppa fyrir horn, þar sem ég er eiginlega að kynna bloggsíðuna, og vísa þar að auki í það hvert myndirnar eru sóttar.


Hér er dæmi um fyrirmynd og svo útfærslan hennar J. Þess má geta að hún leggur áherslu á að gera skynsamleg fatakaup. Kaupir ekki rándýran hátískufatnað og bíður gjarnan eftir því að fatnaður sem hún ágirnist fari á útsölu.


Hér má sjá hennar útfærslur á því hvernig er hægt að klæðast röndóttum bol/peysu á marga mismunandi vegu.

Það er hægt að finna skrilljón tískublogg á netinu ef fólk hefur áhuga á. Mér finnst þetta samt standa uppúr vegna þess að þetta eru föt sem ég gæti hugsað mér að ganga í (megnið af þeim alla vega) og þar að auki gefur J mörg góð ráð sem allar áhugasamar konur ættu að geta nýtt sér.

fimmtudagur, 13. september 2012

Mín frábæra systir á afmæli í dag

og eins og venjulega við svipuð tilefni, þá verð ég pínu ponsu sorgmædd yfir því að það skuli ekki vera styttra á milli okkar systranna, svona landfræðilega séð. Að öðru leyti er engin ástæða til þess að vera leið þegar ég hugsa til Önnu, því betri systur er ekki hægt að hugsa sér.

Í tilefni dagsins birti ég mynd af okkur systrum, sem tekin var á Hofsósi í sumar þegar Anna kom í stutta heimsókn til landsins. Þá fórum við systur + Valur í smá dagsferð saman. Fyrst á Siglufjörð og síðan á Hofsós. Þar fórum við m.a. í sund og borðuðum svo nestið okkar úti á þessum græna grasbala, með útsýni yfir sjóinn, í þvílíka dásemdarveðrinu.


Ég er svona krumpuð í framan vegna þess að a) sólin skein og b) ég var með munninn fullan af mat...

þriðjudagur, 11. september 2012

Já við fengum svo sannarlega storm

og snjó ... og rafmagnsleysi og ... skyndilega var bara vetur skollinn á af fullum þunga. Sem betur fer stóð þetta óveður ekki lengi, en nógu lengi til að setja litla Ísland á annan endann.

Ég var í vinnunni í Pottum og prikum þegar rafmagnið fór af í gær. Fyrst hélt ég að það kæmi fljótlega aftur en heyrði svo að það væri mjög ólíklegt. Engu að síður voru viðskiptavinir áfram á torginu og maður hélt í vonina að kannski yrði þetta bara stutt. Eftir dálitla stund kom svo rafmagn aftur á, en einungis í skamma stund. Það var um hálf fimm leytið og eftir á að hyggja var ég hálf fúl út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki haft vit á því að nota rafmagnið til að loka búðinni (það er ekki hægt að renna niður rúllugardínunni nema með rafmagni). Svo auðvitað fór rafmagnið strax aftur og ég þurfti að "hanga" í vinnunni (í myrkrinu) í klukkutíma í viðbót, þar til verslunarmiðstöðinni var hreinlega lokað. Það var ansi dimmt inni hjá okkur þó svo bjart væri úti, því það eru jú engir gluggar á útvegg í búðinni.

Þegar ég kom heim var Valur að velta því fyrir sér hvernig best væri að elda kvöldmat í rafmagnsleysinu. Niðurstaðan varð sú að drösla grillinu inn í bílskúr (það var varla stætt á því að grilla úti, vegna vinds og snjókomu). Þar grillaði hann fiskinn sem hefði annars verið steiktur á pönnu og ég gerði salat með. Svo á meðan við vorum að borða kom rafmagnið aftur, sem var hið besta mál. Við gátum þá fengið okkur kaffi/te eftir matinn og borðað afgang af vöfflum frá deginum áður.

Seinni partinn í dag var svo rjómablíða úti og erfitt að gera sér í hugarlund að veðrið hefði verið svona vont í gær. Tja, ef ekki hefði verið snjórinn, sem lá eins og hvít ábreiða á grasinu.

Ég skrapp í smá göngutúr um nærumhverfið eftir vinnu. Tók myndavélina með og hér má sjá afraksturinn.


























fimmtudagur, 6. september 2012

Lognið á undan storminum

Ég fór í sund í morgun, þrátt fyrir að vera töluvert seinni en venjulega. Já eða heilum hálftíma seinni. Ástæðan fyrir því að ég legg áherslu á þessa staðreynd er sú að ég lærði "the hard way" að ef maður kemur svona seint þá eru allar brautir uppteknar.

Skólasundið er byrjað og þá eru eftir þrjár brautir handa almenningi. Ég get ekki synt á þessari lengst til hægri því hún er breiðari og aðeins með línu (sem skilur á milli brautanna) öðrumegin. Þar að auki fer yfirleitt elsta fólkið á þá braut og þó ég syndi ekki hratt, þá syndi ég hraðar en þau. Þá voru eftir tvær brautir og þrjár manneskjur á annarri og tvær á hinni. Ég vildi ekki troða mér á brautina með þessum þremur og eftir að hafa horft í smástund á hina brautina og skoðað hvernig landið lá, ákvað ég að það væri ekki sterkur leikur að verða þriðja manneskjan á þeirri braut. Þar synti karlmaður afskaplega hægt baksund og kona synti skriðsund töluvert hraðar því hún var með froskalappir. Ég hefði verið með sundhraða þarna mitt á milli en mér sýndist nógu erfitt fyrir þessi tvö að deila braut þó ég bættist ekki við. Það vildi mér til happs að það var laus braut í gömlu lauginni og þar synti ég nokkrar ferðir. Þó ekki eins margar og ég hafði ætlað mér, því ég er með sár á fingri eftir að hafa skorið mig á laukskera í vinnunni í gær, og plásturinn var farinn að losna af. Ég vildi ekki taka sénsinn á því að hann færi alveg, því það blæddi svo mikið úr sárinu í gær og ég hafði ekki áhuga á að enda í blóðbaði þarna í lauginni...

Þetta var langur inngangur að því sem ég ætlaði í raun að segja. Sem sagt... Ég hafði kippt myndavélinni með mér í bílinn þegar ég fór í sund og eftir sundið fór ég smá ljósmyndarúnt. Byrjaði á því að fara í Lystigarðinn en þar var lýsingin ekki alveg að gera sig. Það var reyndar smá sól en hún lýsti svo takmarkað inn í garðinn þetta snemma dags.



Í Lystigarðinum hitti ég Björgvin sem ég vann með í Garðræktinni þegar ég var unglingur, en hann hefur verið forstöðumaður Lystigarðsins til margra ára. Ég hafði eitthvað fátt að segja, svo ég greip til þess umræðuefnis sem Íslendingum er tamast, og sagði eitthvað í þá áttina að það væri nú aldeilis gott veður. Björgvin var snöggur til svars og sagði að þetta væri nú bara lognið á undan storminum. Ég sem horfi aldrei á veðurfréttir hafði ekki hugmynd um að spáin væri eitthvað leiðinleg, en hann sagði að það væri spáð kulda, rigningu og roki. Ekki sagði hann hvenær þessi leiðindi ættu að skella á okkur og ég spurði hann ekki. Langaði hreinlega ekkert til að hugsa um þetta vonda veður framundan.

Næst stoppaði ég á brúninni efst í Spítalavegi og smellti af mynd yfir Pollinn og Eyrina. Ef vel er að gáð má sjá að skýin eru nú hálf þungbúin þarna í norðrinu.



Síðan tók ég smá rúnt inn í Innbæ og smellti af nokkrum myndum þar.


Þessi húsaröð á mótum Lækjargötu og Aðalstrætis er svo skemmtileg finnst mér. Ekki spillir gamla Volkswagen bjallan fyrir heildarmyndinni.


Þetta gula hús var flutt annars staðar að og sett niður í Innbænum. Ég á að vita hvar húsið var áður en það er alveg stolið úr mér. Upplýsingar óskast...



Kristjana Agnarsdóttir í ljósmyndaklúbbnum mínum á þetta hús, ásamt Snorra Guðvarðarsyni manni sínum. Þau eru búin að gera það svo fallega upp eins og sjá má. Því miður man ég ekki hvað það er gamalt en byggt einhvern tímann á seinni hluta 18. aldar.

En talandi um gömlu húsin í Innbænum, þá rakst ég á þennan bækling, sem sýnir húsin og segir sögu nokkurra þeirra (svona ef einhver vill skoða hann).

Þar er meðal annars sagt um Sjónarhæð, húsið sem ég fæddist í:

"Hér bjó maðurinn sem allt gat, trúboðinn Arthur Gook. Ekkert gerist nema Guð lofi og Gook vilji, sögðu Akureyringar. Hann reisti meðal annars útvarpsstöð og seldi útvörp fyrir daga Ríkisútvarpsins." 

Og ef einhver skyldi nú ekki vita hvaða hús Sjónarhæð er, þá er það næsta hús norðan við Leikhúsið. Hér er gömul mynd sem ég tók af því á þokudegi haustið 2010.


Og ef einhver skyldi hafa áhuga á að fræðast meira um Arthur Gook, þá réðist mamma í það stórvirki að skrifa ævisögu hans fyrir nokkrum árum síðan. Hana má lesa á blogginu hennar mömmu, með því að smella á tengilinn hægra megin á síðunni hennar: "Bók um Arthur Gook".

miðvikudagur, 5. september 2012

Bless, bless fullkomnunarárátta

Eftir að hafa þýtt greinina 11 heilræði frá 11 veikindaárum og fengið mjög jákvæð viðbrögð við henni, fannst mér allt í einu eins og hver einasti pistill sem ég kæmi með á þessari síðu yrði að vera svo óskaplega merkilegur.

Ég hafði vissar hugmyndir um efni sem ég vildi svo gjarnan fjalla um, svona fyrir utan þetta venjulega blaður um mitt daglega líf, en BÚMM - skaut sjálfa mig í kaf áður en ég komst lengra . 

Það er náttúrulega alveg ferlegt þegar maður gefur skotleyfi á sjálfan sig - og ekki nóg með það - heldur tekur sjálfur í gikkinn líka. Hm, kannski fullmikil myndlíking hér á ferð, en málið er, að auðvitað á maður að standa með sjálfum sér í lífinu og ekki láta einhver ímynduð fyrirbæri eins og fullkomnunaráráttu eyðileggja fyrir sér.

Þannig að ... nú ætla ég bara að halda áfram að blogga eins og ég gerði áður. Innihaldið mun verða misgáfulegt eins og áður, en vonandi einhverjir skárri pistlar inn á milli ;-) Kannski flýtur einhver fróðleikur með, ábyggilega einhverjar ljósmyndir og líklega smá vol og væl þegar ég er alveg að gefast upp á vefjagigtinni/síþreytunni  - en ég ætla að láta vaða og hætta að hafa áhyggjur af því að hver einasta bloggfærsla þurfi að vera 100% fullkomin. Og hana nú!

þriðjudagur, 4. september 2012

Góð ferð vestur á Strandir (2. hluti)

Þetta verður vonandi ekki ferðasaga í 100 hlutum hjá mér... hehe. Nei, nei, líklega bara þessir tveir hlutar, já eða í allra mesta lagi þrír.

Á laugardagsmorgni vöknuðum við í góðum gír eftir að hafa sofið afskaplega vært um nóttina. Svona var útsýnið úr húsinu þegar við vöknuðum. Það var sólarlaust en nokkuð bjart.



 Við vorum ekkert að stressa okkur og fengum okkur morgunmat í rólegheitum. Síðan græjuðum við okkur nesti og tókum stefnuna á Eyri við Ingólfsfjörð.

Þangað er fremur stutt að fara úr Norðurfirði en við stoppuðum á einum stað á leiðinni. Það var uppi á smá hálsi á milli fjarðanna en þar er útsýni yfir Drangaskörð sem mér skilst að séu hálfgerð kennileiti Strandanna. Ef smellt er á myndina hér fyrir neðan þá stækkar hún og Drangaskörðin sjást betur. Þau eru lengst til hægri á fjallgarðinum þarna í fjarska.



Á Eyri við Ingólfsfjörð var fyrrum mikið líf og fjör. Þar var síldarverksmiðja á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar og eitthvað af húsum reist í tengslum við rekstur hennar. Úr fjarlægð séð virðist þetta vera hin blómlegasta húsaþyrping, sem það í rauninni er, fyrir utan eitt eyðihús og svo verksmiðjuna sjálfa.



Íbúðarhúsin gömlu eru væntanlega notuð eingöngu sem sumarhús í dag. Þau hafa verið gerð upp og eru greinilega í toppstandi - og þess vegna var það svolítið skrítið að þarna var engin lifandi sála nema við.  En það gaf okkur líka möguleika á að rölta um svæðið og taka myndir í rólegheitum. Sem við og gerðum.












Eins og sjá má eru þök gömlu síldarverksmiðjunnar orðin grasi gróin og húsin þannig hálf partinn að verða eitt með náttúrunni.




Þetta hús má muna sinn fífil fegurri. Framan á því stendur skrifað með rauðri málningu "Aðgangur bannaður" og hið sama er skrifað á verksmiðjuhúsið, auk þess sem tekið er fram að það sé í einkaeign. Við gátum því ekki kíkt þar inn.


Eftir að hafa ljósmyndað nægju okkar ákváðum við að aka aðeins lengra. Hins vegar er ekki fólksbílafært í Ófeigsfjörð, eins og sjá má á þessu skilti sem blasir við þegar ekið er frá síldarverksmiðjunni. Ég hef aldrei áður séð orðið "torleiði" á umferðarskilti og velti því fyrir mér hvort þetta sé ef til vill vestfirska?




En já vissulega var vegurinn í Ófeigsfjörð frekar leiðinlegur. Við ókum nú samt dágóðan spotta áleiðis, eða þar til við sáum húsin í fjarska, en nenntum svo ekki lengra og snérum við. Myndin hér að neðan er tekin með aðdráttarlinsu, en auk þess "kroppuð" til að sýna húsin betur. Þarna er líka fallegur foss, Húsárfoss.



Þegar hér var komið sögu vorum við orðin svöng og leituðum að skjólgóðum stað til að borða nestið okkar á, en hann var ekki auðfundinn. Það var fremur köld norðanátt og ekki spennandi að sitja úti, en við létum okkur nú samt hafa það. Ákváðum að seðja bara sárasta hungrið og fara svo heim í hús og fá okkur meira að borða þar.




Skömmu áður en við fundum stað til að borða á, langaði Val að taka mynd af fallegum klettamyndunum sem hann sá, og fór út úr bílnum. Kallaði svo í mig því hann hafði séð haförn. Ég greip myndavélina og smellti af upp í loftið, bara svona uppá von og óvon. Haförninn náðist á mynd, þó ekki sé hún góð. Við höfðum reyndar líka séð haförn í fjörunni daginn áður, og það er ótrúlega gaman að sjá þessa stóru sterklegu fugla með sitt risa vænghaf svífa áfram í loftinu.


Eftir kaffi og smá afslöppun heima í húsi, ákváðum við að skreppa á Gjögur. Þar er lítill byggðakjarni og búið í flestum húsum yfir sumarið, en að því er ég best veit býr enginn á Gjögri yfir veturinn. Þar er hins vegar flugvöllur, sem flugfélagið Ernir flýgur á tvisvar í viku.

Á leiðinni að Gjögri svipuðumst við um eftir ummerkjum eftir gamlan bæ, Gíslabala, en þar bjuggu langamma og langafi Vals í föðurætt. Með því að notast við sjónauka sáum við gamlar bæjartóftir og tún, lengst uppi undir fjallshlíð.  Okkur fannst þetta svolítið skrítið bæjarstæði, sérstaklega þar sem við höfðum lesið í bók um Strandirnar að fólkið á Gíslabala hefði sótt sjóinn frá Gjögri. Ég veit nú ekki hversu langt er þarna á milli, en fyrir daga bílanna hefur þetta nú verið smá spotti að fara.



Hér má sjá Val horfa í sjónauka upp að bæjartóftunum. Þær eru cirka fyrir miðri mynd, alveg upp við fjallsræturnar.

Á Gjögri lögðum við bílnum niðri við bryggju. Þar var maður að gera að fiski og Valur gaf sig á tal við hann. Ræddu þeir meðal annars búsetu fólks á Gíslabala, en þar lauk ábúð árið 1959.  Maðurinn gat sagt honum frá því að hér áður fyrr hefðu börnin á Gjögri gengið í Finnbogastaðaskóla í Trékyllisvík (akvegurinn þarna á milli er u.þ.b. tíu kílómetrar, en þau hafa líklega farið styttri leið). Á heimleið úr skólanum áttu þau það til að stoppa um stund á Gíslabala, áður en lengra var haldið.


Ég hafði séð fyrir mér að við gætum gengið um byggðina á Gjögri og tekið myndir. En þar var fólk eða bílar við flest hús, kunni ég einhvern veginn ekki við það. Smellti þó af nokkrum myndum til gamans.







Eftir að hafa skoðað Gjögur var næst á dagskrá að skreppa í sundlaugina að Krossnesi. Þar er þessi fína sundlaug niðri í flæðarmáli og ekki hægt að vera í Árneshreppi, án þess að fara að minnsta kosti einu sinni í laugina. Laugin er opin þó engin sé varsla þar og einungis söfnunarbaukur til að taka við aðgangseyrinum.





Úti var orðið fremur hráslagalegt, 6 stiga hiti og stinningskaldi, svo það var alveg extra ljúft að komast í heita og góða laugina. Við vorum ein þar í smá stund en svo kom eitt útlenskt par (sem sá ekki ástæðu til þess að fara í sturtu áður en þau fóru ofaní) og karlmaður sem var einn á ferð.

Á meðan við vorum í heita pottinum kom svo annar maður sem var að athuga hvernig hitastigið í lauginni væri og spurði okkur í leiðinni hvar næsti matsölustaður væri. Við þurftum að tilkynna honum að því miður væri það Hótel Djúpavík og þangað væri a.m.k. 45 mínútna akstur (útlendingarnir keyra jú hægar á íslenskum malarvegum heldur en við gerum). Við sögðum honum líka að þar væri matur einungis í boði milli kl. 19 og 21 og í framhaldinu hætti hann greinilega við að fara í sund.

Á leið heim úr sundinu stoppuðum við við fjöruna í Norðurfirði. Þar er þessi fíni bekkur og frábært útsýni, svo vægt sé til orða tekið. Reykjaneshyrnan sést þarna í fjarlægð og ég myndi ekki slá hendinni á móti því að eiga hús við sjó og með þetta útsýni.




Eftir sundið var komið að kvöldmat. Valur eldaði laxinn sem við höfðum keypt og með honum voru kartöflur, brokkólí úr garðinum okkar heima og gulrætur. Þetta var hin ljúffengasta máltíð og með henni drukkum við örlítið hvítvínstár en ég hafði kippt með mér lítilli hvítvínsflösku að heiman. Svo slöppuðum við bara af í húsinu. Ætluðum eiginlega að ganga niður í fjöru en ég var lúin og nennti ekki meiru.



Það var ósköp ljúft að slaka á í sjónvarps- og tölvulausu húsi. Enda höfðum við ágætis lesefni við hendina. Annars vegar bók sem var í húsinu þegar við komum, "Við ysta haf" eftir Hrafn Jökulsson. Hún inniheldur ljósmyndir sem Hrafn tók þegar hann bjó um tíma í Trékyllisvík og eru myndirnar bæði af innansveitarfólki og náttúrunni. Þeim fylgir líka knappur texti sem þó segir svo margt. Okkur fannst við á einhvern hátt tengjast sveitinni mun sterkari böndum við að skoða þessa bók. Og þar sem einungis er búið á 8 bæjum í hreppnum, voru nokkur andlit í bókinni sem við höfðum rekist á á ferðum okkar.

Hin bókin var rit Ferðafélags Íslands "Lesið í landið í Árneshreppi á Ströndum" eftir Hauk Jóhannesson jarðfræðing. Hún Áslaug sem lét okkur hafa lykilinn að húsinu kom færandi hendi með þessa bók og lánaði okkur. Það var mjög gaman að fletta þeirri bók, enda stútfull af fróðleik um þetta svæði.

Fyrr en varði seig kvöldhúmið á og kominn tími til að fara í háttinn eftir ósköp ljúfan dag. Og hér má sjá útsýnið úr húsinu, rétt áður en dimmdi. Reykjaneshyrnan enn og aftur, en þó aldrei eins.