Þetta verður vonandi ekki ferðasaga í 100 hlutum hjá mér... hehe. Nei, nei, líklega bara þessir tveir hlutar, já eða í allra mesta lagi þrír.
Á laugardagsmorgni vöknuðum við í góðum gír eftir að hafa sofið afskaplega vært um nóttina. Svona var útsýnið úr húsinu þegar við vöknuðum. Það var sólarlaust en nokkuð bjart.
Við vorum ekkert að stressa okkur og fengum okkur morgunmat í rólegheitum. Síðan græjuðum við okkur nesti og tókum stefnuna á Eyri við Ingólfsfjörð.
Þangað er fremur stutt að fara úr Norðurfirði en við stoppuðum á einum stað á leiðinni. Það var uppi á smá hálsi á milli fjarðanna en þar er útsýni yfir
Drangaskörð sem mér skilst að séu hálfgerð kennileiti Strandanna. Ef smellt er á myndina hér fyrir neðan þá stækkar hún og Drangaskörðin sjást betur. Þau eru lengst til hægri á fjallgarðinum þarna í fjarska.
Á Eyri við Ingólfsfjörð var fyrrum mikið líf og fjör. Þar var síldarverksmiðja á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar og eitthvað af húsum reist í tengslum við rekstur hennar. Úr fjarlægð séð virðist þetta vera hin blómlegasta húsaþyrping, sem það í rauninni er, fyrir utan eitt eyðihús og svo verksmiðjuna sjálfa.
Íbúðarhúsin gömlu eru væntanlega notuð eingöngu sem sumarhús í dag. Þau hafa verið gerð upp og eru greinilega í toppstandi - og þess vegna var það svolítið skrítið að þarna var engin lifandi sála nema við. En það gaf okkur líka möguleika á að rölta um svæðið og taka myndir í rólegheitum. Sem við og gerðum.
Eins og sjá má eru þök gömlu síldarverksmiðjunnar orðin grasi gróin og húsin þannig hálf partinn að verða eitt með náttúrunni.
Þetta hús má muna sinn fífil fegurri. Framan á því stendur skrifað með rauðri málningu "Aðgangur bannaður" og hið sama er skrifað á verksmiðjuhúsið, auk þess sem tekið er fram að það sé í einkaeign. Við gátum því ekki kíkt þar inn.
Eftir að hafa ljósmyndað nægju okkar ákváðum við að aka aðeins lengra. Hins vegar er ekki fólksbílafært í Ófeigsfjörð, eins og sjá má á þessu skilti sem blasir við þegar ekið er frá síldarverksmiðjunni. Ég hef aldrei áður séð orðið "torleiði" á umferðarskilti og velti því fyrir mér hvort þetta sé ef til vill vestfirska?
En já vissulega var vegurinn í Ófeigsfjörð frekar leiðinlegur. Við ókum nú samt dágóðan spotta áleiðis, eða þar til við sáum húsin í fjarska, en nenntum svo ekki lengra og snérum við. Myndin hér að neðan er tekin með aðdráttarlinsu, en auk þess "kroppuð" til að sýna húsin betur. Þarna er líka fallegur foss, Húsárfoss.
Þegar hér var komið sögu vorum við orðin svöng og leituðum að skjólgóðum stað til að borða nestið okkar á, en hann var ekki auðfundinn. Það var fremur köld norðanátt og ekki spennandi að sitja úti, en við létum okkur nú samt hafa það. Ákváðum að seðja bara sárasta hungrið og fara svo heim í hús og fá okkur meira að borða þar.
Skömmu áður en við fundum stað til að borða á, langaði Val að taka mynd af fallegum klettamyndunum sem hann sá, og fór út úr bílnum. Kallaði svo í mig því hann hafði séð haförn. Ég greip myndavélina og smellti af upp í loftið, bara svona uppá von og óvon. Haförninn náðist á mynd, þó ekki sé hún góð. Við höfðum reyndar líka séð haförn í fjörunni daginn áður, og það er ótrúlega gaman að sjá þessa stóru sterklegu fugla með sitt risa vænghaf svífa áfram í loftinu.
Eftir kaffi og smá afslöppun heima í húsi, ákváðum við að skreppa á Gjögur. Þar er lítill byggðakjarni og búið í flestum húsum yfir sumarið, en að því er ég best veit býr enginn á Gjögri yfir veturinn. Þar er hins vegar flugvöllur, sem flugfélagið Ernir flýgur á tvisvar í viku.
Á leiðinni að Gjögri svipuðumst við um eftir ummerkjum eftir gamlan bæ, Gíslabala, en þar bjuggu langamma og langafi Vals í föðurætt. Með því að notast við sjónauka sáum við gamlar bæjartóftir og tún, lengst uppi undir fjallshlíð. Okkur fannst þetta svolítið skrítið bæjarstæði, sérstaklega þar sem við höfðum lesið í bók um Strandirnar að fólkið á Gíslabala hefði sótt sjóinn frá Gjögri. Ég veit nú ekki hversu langt er þarna á milli, en fyrir daga bílanna hefur þetta nú verið smá spotti að fara.
Hér má sjá Val horfa í sjónauka upp að bæjartóftunum. Þær eru cirka fyrir miðri mynd, alveg upp við fjallsræturnar.
Á Gjögri lögðum við bílnum niðri við bryggju. Þar var maður að gera að fiski og Valur gaf sig á tal við hann. Ræddu þeir meðal annars búsetu fólks á Gíslabala, en þar lauk ábúð árið 1959. Maðurinn gat sagt honum frá því að hér áður fyrr hefðu börnin á Gjögri gengið í Finnbogastaðaskóla í Trékyllisvík (akvegurinn þarna á milli er u.þ.b. tíu kílómetrar, en þau hafa líklega farið styttri leið). Á heimleið úr skólanum áttu þau það til að stoppa um stund á Gíslabala, áður en lengra var haldið.
Ég hafði séð fyrir mér að við gætum gengið um byggðina á Gjögri og tekið myndir. En þar var fólk eða bílar við flest hús, kunni ég einhvern veginn ekki við það. Smellti þó af nokkrum myndum til gamans.
Eftir að hafa skoðað Gjögur var næst á dagskrá að skreppa í sundlaugina að Krossnesi. Þar er þessi fína sundlaug niðri í flæðarmáli og ekki hægt að vera í Árneshreppi, án þess að fara að minnsta kosti einu sinni í laugina. Laugin er opin þó engin sé varsla þar og einungis söfnunarbaukur til að taka við aðgangseyrinum.
Úti var orðið fremur hráslagalegt, 6 stiga hiti og stinningskaldi, svo það var alveg extra ljúft að komast í heita og góða laugina. Við vorum ein þar í smá stund en svo kom eitt útlenskt par (sem sá ekki ástæðu til þess að fara í sturtu áður en þau fóru ofaní) og karlmaður sem var einn á ferð.
Á meðan við vorum í heita pottinum kom svo annar maður sem var að athuga hvernig hitastigið í lauginni væri og spurði okkur í leiðinni hvar næsti matsölustaður væri. Við þurftum að tilkynna honum að því miður væri það Hótel Djúpavík og þangað væri a.m.k. 45 mínútna akstur (útlendingarnir keyra jú hægar á íslenskum malarvegum heldur en við gerum). Við sögðum honum líka að þar væri matur einungis í boði milli kl. 19 og 21 og í framhaldinu hætti hann greinilega við að fara í sund.
Á leið heim úr sundinu stoppuðum við við fjöruna í Norðurfirði. Þar er þessi fíni bekkur og frábært útsýni, svo vægt sé til orða tekið. Reykjaneshyrnan sést þarna í fjarlægð og ég myndi ekki slá hendinni á móti því að eiga hús við sjó og með þetta útsýni.
Eftir sundið var komið að kvöldmat. Valur eldaði laxinn sem við höfðum keypt og með honum voru kartöflur, brokkólí úr garðinum okkar heima og gulrætur. Þetta var hin ljúffengasta máltíð og með henni drukkum við örlítið hvítvínstár en ég hafði kippt með mér lítilli hvítvínsflösku að heiman. Svo slöppuðum við bara af í húsinu. Ætluðum eiginlega að ganga niður í fjöru en ég var lúin og nennti ekki meiru.
Það var ósköp ljúft að slaka á í sjónvarps- og tölvulausu húsi. Enda höfðum við ágætis lesefni við hendina. Annars vegar bók sem var í húsinu þegar við komum,
"Við ysta haf" eftir Hrafn Jökulsson. Hún inniheldur ljósmyndir sem Hrafn tók þegar hann bjó um tíma í Trékyllisvík og eru myndirnar bæði af innansveitarfólki og náttúrunni. Þeim fylgir líka knappur texti sem þó segir svo margt. Okkur fannst við á einhvern hátt tengjast sveitinni mun sterkari böndum við að skoða þessa bók. Og þar sem einungis er búið á 8 bæjum í hreppnum, voru nokkur andlit í bókinni sem við höfðum rekist á á ferðum okkar.
Hin bókin var rit Ferðafélags Íslands "Lesið í landið í Árneshreppi á Ströndum" eftir Hauk Jóhannesson jarðfræðing. Hún Áslaug sem lét okkur hafa lykilinn að húsinu kom færandi hendi með þessa bók og lánaði okkur. Það var mjög gaman að fletta þeirri bók, enda stútfull af fróðleik um þetta svæði.
Fyrr en varði seig kvöldhúmið á og kominn tími til að fara í háttinn eftir ósköp ljúfan dag. Og hér má sjá útsýnið úr húsinu, rétt áður en dimmdi. Reykjaneshyrnan enn og aftur, en þó aldrei eins.