mánudagur, 28. febrúar 2011

Skrímslið vann þessa lotu

Já eftir 3ja tíma kóræfingu í gær, þar sem ég náði engu sambandi við lögin megnið af tímanum og var algjörlega örmagna á eftir, sá ég að það væri fáránlegt að ætla að taka þátt í tónleikum í þessu ásigkomulagi. Ég er ekki síður að hugsa um kórsystur mínar / hagsmuni kórsins í heild. Ég er búin að láta Daníel kórstjórnanda vita, en reyndar ekki raddformann í sópran 2, þarf að muna eftir því. Hm, já best að skrifa það niður. Ég er farin að skrifa allt niður sem ég þarf að muna því annars er það fokið út í veður og vind. Annars ætla ég ekki að gefast alveg upp á kórnum strax, heldur vona að ég hressist með hækkandi sól.

Ég er bara greinilega í svona rosalegu gigtarkasti núna og þá er ekki annað í stöðunni en sætta sig við það. Mér finnst samt alltaf jafn fáránlegt að vakna að morgni, gjörsamlega úrvinda af þreytu þrátt fyrir að hafa sofið alla nóttina. Ég hafði nú hugsað mér að leggja mig aftur í morgun þegar Ísak væri farinn í skólann en lá í staðinn endalaust á netinu og reyndi að lesa mér til um ólíkar meðferðir við síþreytu/vefjagigt. Læknavísindin standa jú ráðþrota gagnvart þessu en svo eru til læknar sem beita aðferðum sem ekki eru viðurkenndar í heilbrigðiskerfinu, og fólk þarf því að greiða fyrir allt saman úr eigin vasa. Sumir síþreytusjúklingar t.d. í Noregi hafa verið í meðferð hjá belgískum lækni, prof. Kenny De Meirleir, og hafa margir fengið mjög mikla bót á sínu ástandi.

Já þetta blogg er bara að breytast í eitthvað veikindablogg - arg og garg! Þetta er samt eiginlega eini vettvangurinn sem ég hef til að fá útrás um þessi mál og því held ég áfram að ausa úr mér hér. Lengi vel vildi ég ekki að fólk vissi hvernig ég er til heilsunnar en af því þetta er að verða aðal vandamálið í mínu lífi og hefur svo gríðarleg áhrif á mig og fólkið í kringum mig, þá er ég farin að vera opinskárri.

Engin ummæli: