mánudagur, 28. febrúar 2011

Skrímslið vann þessa lotu

Já eftir 3ja tíma kóræfingu í gær, þar sem ég náði engu sambandi við lögin megnið af tímanum og var algjörlega örmagna á eftir, sá ég að það væri fáránlegt að ætla að taka þátt í tónleikum í þessu ásigkomulagi. Ég er ekki síður að hugsa um kórsystur mínar / hagsmuni kórsins í heild. Ég er búin að láta Daníel kórstjórnanda vita, en reyndar ekki raddformann í sópran 2, þarf að muna eftir því. Hm, já best að skrifa það niður. Ég er farin að skrifa allt niður sem ég þarf að muna því annars er það fokið út í veður og vind. Annars ætla ég ekki að gefast alveg upp á kórnum strax, heldur vona að ég hressist með hækkandi sól.

Ég er bara greinilega í svona rosalegu gigtarkasti núna og þá er ekki annað í stöðunni en sætta sig við það. Mér finnst samt alltaf jafn fáránlegt að vakna að morgni, gjörsamlega úrvinda af þreytu þrátt fyrir að hafa sofið alla nóttina. Ég hafði nú hugsað mér að leggja mig aftur í morgun þegar Ísak væri farinn í skólann en lá í staðinn endalaust á netinu og reyndi að lesa mér til um ólíkar meðferðir við síþreytu/vefjagigt. Læknavísindin standa jú ráðþrota gagnvart þessu en svo eru til læknar sem beita aðferðum sem ekki eru viðurkenndar í heilbrigðiskerfinu, og fólk þarf því að greiða fyrir allt saman úr eigin vasa. Sumir síþreytusjúklingar t.d. í Noregi hafa verið í meðferð hjá belgískum lækni, prof. Kenny De Meirleir, og hafa margir fengið mjög mikla bót á sínu ástandi.

Já þetta blogg er bara að breytast í eitthvað veikindablogg - arg og garg! Þetta er samt eiginlega eini vettvangurinn sem ég hef til að fá útrás um þessi mál og því held ég áfram að ausa úr mér hér. Lengi vel vildi ég ekki að fólk vissi hvernig ég er til heilsunnar en af því þetta er að verða aðal vandamálið í mínu lífi og hefur svo gríðarleg áhrif á mig og fólkið í kringum mig, þá er ég farin að vera opinskárri.

laugardagur, 26. febrúar 2011

Laugardagur til lukku



Morning glow, originally uploaded by Guðný Pálína.
Eða þannig... Ég steinsvaf í alla nótt, nokkuð sem gerist ekki oft, og lá í rúminu til að verða tíu. Ég vissi sem var, að ég er í fríi í dag en Valur er á vakt, nokkuð sem gerði það að verkum að ég þurfti ekki að rífa mig á fætur. Enda eins gott að ég er í fríi í dag, held að ég eigi bara ca. 1% orku eftir í mínum skrokki. Mitt fáránlega ástand heldur bara áfram og ég þrjóskast við að mæta í vinnuna þó ég sé nánast óvinnufær. Ég er svo sljó yfir höfðinu að stundum segi ég bara eitthvað bull (svona eins og þegar ég sagði að glerklútarnir væru þeir bestu sem ég hef smakkað) og oft man ég ekki hvað hlutirnir heita (sem er mjög skemmtilegt!), ég þarf að sitja á stól við að þurrka af rykið af standborðunum, ég rek mig utan í hluti sem svo detta og brotna, og ég er með tíu þumalputta þegar ég er að reyna að pakka einhverju fallega inn. EN - ég rembist eins og rjúpan við staurinn að halda haus og láta ekki viðskiptavinina sjá hvað ég er þreytt. Merkilegt nokk þá tekst mér að slá inn réttar upphæðir í posann og gefa rétt til baka þegar fólk borgar með peningum.

Sem betur fer þá er ég ekki jafn slæm allan tímann, alltaf. Ef ég næ að hvíla mig vel um helgi þá er ég skárri á mánudegi en svo smá hallar undan fæti eftir því sem líður á vikuna. Í gær var ég svo gjörsamlega örmagna eftir vinnu að ég fór beint heim og uppí sófa. Ég náði að hvíla mig aðeins en svo ætluðum við í konuklúbbnum að hittast á kaffihúsi klukkan fimm, þannig að ég druslaðist á lappir og fór niður á Bláu könnu. Ég kom fyrst og húsið var fullt af fólki og hávaðinn og skvaldrið eftir því. Þannig að ég hringdi í eina aðra sem var á leiðinni og við ákváðum að hittast frekar á Götubarnum. Þar var enginn framan af nema við, en eftir því sem fjölgaði þar var ég alveg að ærast. Hvert einasta hljóð magnast upp í höfðinu á mér og verður óbærilegt. Um hálf sjö stóð ég því á fætur og sagðist ekki geta meira, enda var þetta líka orðið alveg ágætt hjá okkur. Auðvitað vissi ég alveg að ég væri of þreytt til að fara á kaffihús. Ég vil bara ekki að þetta þreytuskrímsli fái að stjórna lífi mínu algjörlega.

Það stjórnar nú samt, leynt eða ljóst, sama hvort ég vil það eða ekki. Nú stendur til að kórinn haldi tónleika 5. mars og ég er alveg á báðum áttum varðandi það hvort ég muni "meika" það að vera með. Miðað við hvernig heilastarfsemin er hjá mér þessa dagana þá held ég að það sé ekki séns að mér takist að læra textana. Og þó mér tækist að læra þá, þá þarf ég líka að muna þá á tónleikunum... sem er allt annar handleggur. O jæja, þetta fer allt einhvern veginn.

Vá, þetta er nú aldeilis upplífgandi lesning! Bjarti punkturinn í tilverunni þessa dagana (svo ég segi nú eitthvað jákvætt) er að ég næ algjörlega að slappa af og lifa í líðandi stund þegar ég er úti með myndavélina. Að minnsta kosti í klukkutíma eða svo, sem er nú bara nokkuð gott. Þessa mynd tók ég á fimmtudaginn. Þá sá ég sólarskímu um níu leytið um morguninn, stökk út í bíl með myndavélina og elti sólina um bæinn. Hún svona kom og fór, enda falin að mestu bakvið skýjahulu. Þarna fann ég hana niðri við Leirunesti, og þessir fallegu ísjakar í forgrunni spilltu ekki fyrir.

miðvikudagur, 23. febrúar 2011

Ég væri alveg til í að eiga svona hús við sjóinn



Sunnuhvoll, originally uploaded by Guðný Pálína.
Þetta tiltekna hús stendur niðri við sjóinn á Svalbarðseyri, þó sjórinn sjáist ekki almennilega þarna í baksýn. Við fórum þangað nokkrar ljósmyndaskvísur síðasta sunnudag, eftir að hafa fyrst borðað "brunch" á veitingastaðnum í menningarhúsinu Hofi. Ég stóð varla í lappirnar fyrir þreytu þennan dag en fór þetta á þrjóskunni, eins og svo oft áður. En mér leið virkilega eins og ég væri að fá flensu. Enda sleppti ég því að mæta á Hótel Kea seinna um daginn, en þar söng Kvennakórinn nokkur lög í tilefni af einhverjum "GoRed" degi. Ég hefði alveg viljað vera með þar, en það er ekki gaman að þurfa að hafa áhyggjur af því að muna ekki textann þegar maður er svona slappur. Enda gekk mér heldur ekki vel á kóræfingunni þennan sama sunnudag. Ég vil mæta á kóræfingar þó ég sé slöpp því það síast samt eitthvað inn, sem það myndi ekki gera ef ég sæti heima.

Já já, jamm og jæja, hm, nú dettur mér ekkert fleira í hug. Ég blogga þá bara aftur á eftir ef ég fæ einhverja hugljómun...

föstudagur, 18. febrúar 2011

Við Mývatn



Við Mývatn, originally uploaded by Guðný Pálína.
Já það var frekar lítill snjór í Mývatnssveitinni þegar við Valur fórum þangað síðasta laugardag. Það verður alltaf svolítið erfitt að finna fallegt myndefni þegar landið er svona "köflótt" á litinn, en þessi sleppur nú alveg fyrir horn finnst mér.

Ég er að fara að vinna á eftir og í kvöld er aðalfundur Læknafélags Akureyrar, þar sem makar mega koma og borða, þannig að ég fer þangað. Vona að ég verði bærilega hress. Andri ætlar að koma og vinna síðasta klukkutímann fyrir mig svo ég komist heim og nái aðeins að safna mér saman fyrir matinn. Á morgun erum við mæðginin að vinna saman, en það hefur nú reyndar verið svo rólegt undanfarið að það þarf varla tvo í vinnu. Kannski við skiptum deginum bara með okkur, það kemur í ljós.

Annars hef ég hangið einhvern veginn í lausu lofti undanfarið finnst mér. Verið í hálfgerðu limbói. Mín óyfirstíganlega þreyta hefur verið að angra mig, og við bætist stirðleiki, verkir, augnþurrkur og augnverkir, svimi... Hehe, ég held að ég hætti bara núna á meðan fólk er enn að lesa. En já, þetta hefur ótrúlega mikil áhrif á andlega líðan og sjálfsímyndina, þó ég reyni eins og ég get að halda haus. Ég þyrfti að vera duglegri að fara út að ganga og sækja mér súrefni en ég gekk reyndar í sund um daginn, og í heimsókn til vinkonu minnar í vikunni. Svo lufsast ég nú alltaf í sund, þó ekki alltaf á hverjum degi samt.

Úff, og nú bara sit ég hér og dett ekki neitt fleira í hug að skrifa... Hm, já ég er sem sagt óskaplega andlaus þessa dagana. En það eru nú fleiri heyri ég.

Ég hafði samt frumkvæði að því að fara í heimsókn til konu á miðvikudaginn og hún var snögg og bauð fleiri konum að koma líka og bauð þar að auki uppá veitingar, svo það var nú ágætt. Bara verst að heilaþokan mín var extra slæm þennan dag, svo mér fannst ég ekki geta haldið uppi vitrænum samræðum. Þegar maður man aldrei það sem maður ætlar að segja næst og missir þráðinn þá missa áheyrendurnir náttúrulega áhugann á að hlusta. Skiljanlega. En núna áðan kíkti ég í örstutta heimsókn til annarrar vinkonu, og í þetta sinnið var ég alveg skýr í höfðinu, og ánægð með það ;-) En hún er samt svona eins og ég, þannig að hún skilur ástandið.

miðvikudagur, 16. febrúar 2011

Bloggleti mikil hefur herjað á frúna

og herjar enn...
Ég var reyndar búin að skrifa langan leiðindapistil núna áðan, sem ég eyddi út, svo nú er spurningin hvort ég nenni að skrifa stuttan gleðipistil? Hehe, eða þannig.  Kannski seinna í dag þegar ég verð vonandi búin að gera eitthvað skemmtilegt.