fimmtudagur, 31. desember 2009

Gamlársdagur 2009

Þessi mynd er sem sagt tekin í ljósmyndatúrnum mínum í dag.

Rólegheita og afslöppunardagur

Síðasti dagur ársins í dag og hér í húsinu eru og munu verða rólegheit í dag og í kvöld. Ég svaf nú til að verða hálf ellefu og var í þónokkra stund að velta því fyrir mér hvað ég ætti að gera næst. Átti ég að fara í sund, í ræktina, eða út að taka myndir. Það síðastnefnda varð ofaná. Ég kappklæddi mig og fór út í Kjarnaskóg en þar var erfitt að ganga og erfið skilyrði til myndatöku. Bæði var birtan erfið og gönguskíðafólk í sífellu að fara framhjá mér. Mér finnst best að geta verið algjörlega í eigin heimi þegar ég er að taka myndir og nenni ekki að spá í fólk í kringum mig. Þannig að ég færði mig um set og fór næst að Höfners bryggju, þar sem ég undi mér um stund. Svo ætlaði ég nú bara að fara heim en þá var birtan að verða svo falleg í norðrinu og þá dreif ég mig niður á tanga og var þar alveg alein með sjálfri mér í góða stund. Tja, fyrir utan nokkra fugla og eina flugvél sem flaug yfir mig. Raunar voru líka fótspor í snjónum sem sýndu að eitthvað dýr (kanína?) hafði verið þarna á undan mér í dag. Himininn var nokkuð þungbúinn en bleikir litatónar lýstu hann upp.
Þegar ég kom heim beið mín kaffilatté á borðinu og við hjónakornin fengum okkur kaffi saman. Að því loknu fóru Ísak og Valur að kaupa eitthvað smá flugeldadót handa Ísaki en ég fór í tölvuna. Nú er það bara letin sem ræður ríkjum. Við erum ekki að fá neina gesti í kvöld og förum ekki neitt, svo hér verður bara matur þegar við nennum að borða. Og ég get ekki sagt að ég nenni þá að stressa mig yfir því hvernig húsið lítur út. Nema stofan þar sem við borðum. Ætli ég muni ekki sjá til þess að hún líti sómasamlega út. Prófi nýju diskamottu-borðdúkana frá Önnu systur. En sem sagt, við verðum bara þrjú í mat í kvöld þar sem Andri er jú ennþá í útlöndum og Hrefna verður með pabba sínum og hans fólki. Ísaki leist nú ekki alveg á þetta fyrirkomulag og spurði hvort við gætum ekki boðið einhverju fólki í mat - en það er nú víst heldur seint í rassinn gripið. Við Valur verðum bara að reyna að vera extra skemmtileg í kvöld, hehe :)
Æjá, myndin sem fylgir er ekki tekin í dag, heldur 26. des. þegar hætti loks að snjóa.
Og já, þetta er mjög sjálfhverf bloggfærsla, en það er nú einu sinni eðli mitt sem bloggara að blogga mest um sjálfa mig...

sunnudagur, 27. desember 2009

Jamm og jæja...

Nú gengur þetta ekki lengur með þessa endalausu afslöppun, enda skrokkurinn farinn að kvarta yfir hreyfingarleysinu. Valur dreif sig í líkamsræktina áðan en ég lá á sófanum með tvo ketti ofan á mér og nennti ekki að drösla mér með honum. En þar sem styttist í vinnu aftur er víst best að reyna að tjasla sér eitthvað saman og t.d. þvo eitthvað af öllum þeim þvotti sem bíður í óhreinatauskörfunni. Bara blogga aðeins fyrst...

Við Valur horfðum á Barnaby í danska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi og þegar þátturinn var búinn um ellefuleytið var svo yndislega fallegt veður úti. Það var hætt að snjóa og frekar stillt veður. Þannig að okkur datt í hug að draga Ísak með okkur og kíkja út í smá ljósmyndatöku. Fórum í innbæinn og vorum þar í um klukkutíma að taka myndir, við mikinn fögnuð unglingsins. Það voru afar fáir á ferli. Ein stelpa var úti að viðra hundinn sinn en annars var það bara stöku bíll sem ók framhjá. Sumir hægðu verulega á sér til að skoða þetta skrýtna fólk með myndavélarnar en það var nú bara skiljanlegt.

Í dag er himininn grár og reytir af sér stöku snjókorn. Það er allt á kafi í snjó hér fyrir utan. Í gær var orðið ansi ófært fyrir venjulega bíla í sumum götum og Jóni nágranna okkar gekk illa að koma bílnum út af stæðinu og festi hann tvisvar. Þá kom "Tuddinn" sér vel og Valur fór á honum og dró bílinn hans Jóns út úr snjónum. Í annað skiptið voru átökin svo mikil að reipið slitnaði, hvorki meira né minna, þannig að bíllinn hefur aldeilis verið pikkfastur.

En núna ætla ég að fá mér ávaxta/orkuhristing, fara í sturtu og reyna svo að gera eitthvað gagn hér á heimilinu!

laugardagur, 26. desember 2009

Þyrfti svo sannarlega að taka mig aðeins saman í andlitinu

en letin er að drepa mig. Hef ekki ennþá farið í bað í dag - en svo enginn haldi nú að ég sé einn allsherjar drulluhaugur, þá upplýsist hér með að ég fór í bað í gær... Og ég hef hreinlega ekki gert neitt í dag nema fara út að taka myndir í snjókomunni. Svaf til hálf ellefu, sem virðist vera minn "vöknunartími" í skammdeginu, þ.e.a.s. ef ég fæ að sofa eins lengi og ég vil, og er bara búin að "hanga" og gera ekki neitt nema borða í dag. Og nú styttist í næstu máltíð.
Allt sem ég hafði hlakkað til að gera í mínu þriggja daga jólafríier ennþá ógert og samviskubitið er farið að láta á sér kræla. Og svo ég ali nú á samviskubitinu í sjálfri mér þá kemur hér upptalning á öllu því sem ég á ógert:

* Setja súkkulaði á kókos-haframjölssmákökurnar sem Valur bakaði
* Þvo öll skítugu fötin mín sem ég hafði ekki tíma til að þvo á meðan jólavertíðinni stóð
* Baka brauð eða bollur
* Gera rækjusalat
* Gera við snjóbuxur fyrir Val
* Lesa bókina sem Sunna gaf mér í afmælisgjöf
* Byrja að prjóna lopapeysu á Andra
* Gera "kúk" (eins og Valur kallar súkkulaði-marspipan-rúlluna)

Tja, ætli þetta sé ekki bara upptalið!

Það sem ég er búin að gera í jólafríinu:

* Slappa af
* Læra á nýja farsímann minn
* Borða
* Sofa
* Horfa á tvær gamanmyndir
* Fara út og taka ljósmyndir

Á morgun er frjáls opnun á Glerártorgi og ætlum við Sunna að hafa lokað í Pottum og prikum. Sem er kannski vitlaysa því fólk er hugsanlega orðið þreytt á að hanga heima hjá sér og langar að þvælast í verslanir í jólafríinu og skipta jólagjöfum. En einhvern tímann verður nú verslunarfólk að fá frí og þeir eru ekki margir dagarnir á árinu sem er lokað á Glerártorgi.

Í kvöld ætla margir á mínu reki á "Dynheimaball" sem reyndar verður í Sjallanum en ég er engan veginn að nenna svoleiðis útstáelsi. Hrefna hins vegar ætlar að hitta vinkonur úr MA og aldrei að vita nema þær fari á skrall. En örugglega ekki í Sjallann samt ;) Það er kannski spurning að allir þrír fjölskyldumeðlimirnir sem munu verða heima í kvöld prófi nýja spilið sem var í möndlugjöf í ár, Heilaspuna, þó húsfreyjan sé illa haldin af spilafóbíu.

sunnudagur, 20. desember 2009

Bara fjórir vinnudagar eftir fram að jólum

Tja, eða fimm, eftir því hvernig talið er. Það er opið líka á aðfangadagsmorgun en bara í tvo tíma og það er nú bara hlægilegt miðað við 12 tímana þessa dagana. En þetta gengur ótrúlega vel allt saman, bæði í vinnunni og hér heima. Ég er reyndar ekki mikið heima en Valur sér til þess að allt gengur sinn vanagang og vel það. Hann er búinn að baka tvær umferðir af lakkrístoppum, kókos-haframjölskökur og gera deig í mömmukossa. Auk þess er hann búinn að þrífa eldhúsinnréttinguna að utan og kaupa í jólamatinn. Já og auðvitað heilan helling í viðbót. Á föstudagskvöldið var hann meira að segja með mér í tæpa tvo tíma í vinnunni og vann á kassanum :)
Ísak tekur fjarveru mömmu sinnar af stóískri ró - það er helst að kettirnir sakni mín, hehe. Þau eru að minnsta kosti fljót að birtast þegar ég kem heim og þurfa þá extra athygli.
Annars er fátt í fréttum. Andri er kominn út til Flórída með Sunnevu og fjölskyldu og þau njóta lífsins í tuttugu stiga hita. Hrefna kemur heim á Þorláksmessu, með beinu flugi frá Kaupmannahöfn. Það verður gott að fá að knúsa hana.
Ætli jólin fari svo ekki að mestu leyti í hvíld og afslöppun eftir þessa miklu vinnutörn. Það væri reyndar alveg draumur í dós að komast út að taka myndir. Nú er orðið svo langt síðan ég fór síðast og ég sakna þess að hafa ekki myndavélina í höndunum. Síðan er ég búin að kaupa garn í lopapeysu á Andra og stefni að því að prjóna sem mest um jólin. Já, sem minnir mig á það, ég þarf að athuga hvort ég á ekki prjóna í réttri stærð. Ég hef nefnilega aldrei prjónað lopapeysu áður, þ.e. ekki úr "alvöru" lopa. Mín var jú bara úr léttlopa. En talandi um hana þá er ég í henni núna. Það var ágætt að hvíla hina lífseigu bláu flíspeysu sem gegnt hefur hlutverki "heimapeysu" hin síðustu ár. Valur átti samskonar flíspeysu og hann er líka í nýrri lopapeysu, þannig að þetta er bara alveg nýtt "look" hérna heima við :)
Úff, ég er með þvílíku þreytuverkina í fótunum. Þetta er bara alveg eins og þegar ég var að vinna sem sjúkraliði fyrir einhverjum tuttugu og fimm árum síðan. Eftir kvöldvaktir var ég svo upprifin og ætlaði aldrei að geta sofnað (eins og núna) og oft alveg svakalega þreytt í fótunum (eins og núna).
En ætli sé ekki best að reyna að fara að sofa þar sem klukkan er að verða tvö.

sunnudagur, 13. desember 2009

Framkvæmdalisti dagsins hljóðaði svona:

- Laga til í eldhúsinu
- Fara í ræktina
- Setja gömul föt í plastkassa
- Byrja að prjóna lopapeysu á Andra
- Kaupa jólagjöf handa Val
- Baka eina smákökutegund
- Pakka inn jólagjöfum
- Panta vörur

Það sem ég er búin að gera:
- Fara í ræktina
...

Þar fyrir utan ég reyndar búin að baka skinkuhorn með Ísaki, fara í vinnuna í hálftíma og svo aftur í tvo tíma og... ekkert! Ég hef ekki hugmynd um það í hvað tíminn hefur farið hjá mér í dag. Svaf reyndar til hálf ellefu því ég gat ekki sofnað fyrr en um þrjúleytið í nótt. En mér líður eins og ég hafi verið á fullu allan daginn. Það fóru nú reyndar alveg tveir tímar í að baka 80 skinkuhorn. Og einn og hálfur tími í ræktina + heita pottinn. Já og svo fór ég í Hagkaup til að kaupa konfektform - bara svona til að eiga þau ef ske kynni að andinn kæmi yfir mig í þeim efnum.

Valur fór til Reykjavíkur gær, keyrandi, og var að hringja áðan og sagðist vera að leggja af stað heim. Þetta var bara svona upplyftingar- og jólagjafainnkaupaferð hjá honum og hann virðist hafa náð að klára allar heimsóknir og innkaup á þessum tæpa sólarhring í borginni.

En nú er víst best að hætta þessu blaðri og fara að vinna í því að klára eitthvað fleira af þessum lista!

föstudagur, 11. desember 2009

Batnandi herbergjum er best að lifa

Hehe, ég veit nú reyndar ekki hvort hægt er að tala um að herbergi hafi líf, en ef í því felst að þau séu þannig að þau laði til sín líf í formi fólks, þá er vinnuherbergið mitt allt að lifna við. Ég nefndi um daginn að ég hefði fengið nýjan skúffuskáp undir skrifborðið og nú var ég að fá nýja hillu við hliðina á borðinu. Fram að því voru bara tvær litlar vegghillur hérna inni og tóku þær afar takmarkað magn af möppum, bókum og myndavélardóti. En í samtali við Gunnu tengdamömmu fyrir nokkru síðan nefndi hún að þau hefðu keypt sér mjóa hillu, 40 cm., og getað komið miklu af bókum fyrir í henni. Þá fékk ég þessa hugmynd, að fá svoleiðis hillu við hliðina á borðinu mínu, en það er eini mögulegi staðurinn fyrir hillu hér inni. Og nú er hún komin og Valur búinn að setja hana upp fyrir mig - og ég er alveg hæstánægð.
Svo fór ég í dag með norskar bækur á bókasafnið en ég var búin að spyrja Hólmkel amtsbókavörð að því hvort þeir vildu fá norskar bækur. Hann sagði að ef ég ætlaði að henda þeim þá skyldi ég að minnsta kosti leyfa þeim á bókasafninu að henda þeim fyrir mig... Svo ég fór með fullan kassa þangað af bókum sem ég fékk þegar ég var meðlimur í bókaklúbbi þegar við bjuggum í Noregi.
Ég fór líka með dúnúlpuna mína í hreinsun og gítarinn í viðgerð - þannig að þegar Sigurður kemur næst ætti hann að vera í lagi :-)
Já og svo fór ég og sótti vörur til heildsala, fór með bókhaldsmöppurnar fyrir Val til endurskoðanda þegar ég var búin að leggja síðustu hönd á þær ... og gerði örugglega eitthvað fleira.. já sótti hilluna niður á Flytjanda.
Þar fyrir utan var ég í vinnunni í dag og það var bara alveg brjálað að gera. Sem betur fer vorum við með eina stelpu "í þjálfun" og það munaði um að hafa hana á kassanum.
Þannig að þetta er búinn að vera býsna annasamur dagur og það var mjög gott að leggjast á sófann eftir matinn og láta líða úr sér. Í raun ætti ég að vera í fríi á morgun en það á ennþá eftir að taka upp vörur og verðmerkja svo ég þyrfti að fara í fyrramálið og klára það. Eins þurfum við Sunna heldur betur að hittast um helgina til að panta vörur, þar sem heildsalarnir eru enn að fá nýjar vörur og það þarf að ákveða hvað á að taka af þeim + fylla á það sem okkur vantar.

laugardagur, 5. desember 2009

Er í nostalgíu kasti...

Já það datt í mig að það væri fullt af börnum sem þyrftu örugglega frekar á barnafötum að halda, heldur en kassinn sem hefur geymt þau undanfarin 15 ár eða svo. Þannig að ég fékk Val til að sækja kassann niður í geymslu og er nú að fara í gegnum ungbarnaföt og barnaföt frá Hrefnu til Ísaks. Reyndar eru þarna inn á milli gullmolar sem mamma saumaði á okkur systkinin og þeir munu ekki fara neitt. Og málið er að mér reynist það mun erfiðara en ég reiknaði með að losa mig við þessi barnaföt. Það eru svo miklar minningar tengdar þeim og þegar ég horfi á fötin man ég hvað það var gott að knúsa yndislegu börnin mín þegar þau voru lítil. Það er reyndar ennþá gott að knúsa þau, bara öðruvísi gott ;-) Þannig að einhverju mun ég nú halda eftir, fyrir nostalgíuna.

Bara svona til gamans...

skelli ég inn einni bloggfærslu eða svo þó ég hafi ekki margt að segja. Nú er fríhelgi hjá mér og markmið helgarinnar er að ná að klára að kaupa sem flestar jólagjafir. Svo væri ekki verra að baka eins og eina eða tvær smákökusortir. Þá fær Andri aðeins að smakka smákökur áður en hann stingur af til Flórída. Já og við hin reyndar líka, hehe.
Annars er ég á svo miklum yfirsnúningi þessa dagana að það hálfa væri nóg. Byrjaði líklega af því það er svo mikið að gera í vinnuni - og svo er bara hausinn á mér stanslaust á fullu og restin af mér sömuleiðis. Ég næ ekki að slappa af þegar ég er komin upp í rúm á kvöldin og iða bókstaflega í skinninu að vera að gera eitthvað annað en liggja í rúminu. Samt er ég drulluþreytt (afsakið orðbragðið). Svo var ég vöknuð klukkan sjö í morgun, en það var þó skárra en að vera vöknuð klukkan sex eins og Valur. Það var reyndar ágætt að vera vöknuð snemma því ég þurfti að fara að sækja Ísak í skólann. Árgangurinn hans fékk að gista þar í nótt, sem umbun fyrir góða hegðun. Ætli "gista" sé þó ekki orðum aukið því ég efast um að það hafi verið mikið sofið.
En nú ætla ég að klára að taka mig til og fara svo í jólagjafaleiðangur í Potta og prik... já og einhverjar aðrar verslanir ;-)

fimmtudagur, 3. desember 2009

Alltof margir valkostir svona snemma á morgnana

Það er að segja, þegar er ekki vinna hjá mér fyrr en kl. tvö eins og í dag. Nú er það spurningin, á ég að fara í sund, í ræktina, leggja mig aftur, eða fara í bókhaldið? Ef ég fer ekki að drífa mig af stað er nokkuð ljóst að ég mun ekki nenna í sund. Verð nefnilega að fara fyrir átta og hitta allt venjulega fólkið og svoleiðis. Ein ástæða fyrir því að ég nenni ekki í ræktina á þessum tíma er myrkrið. Það eru svo risastórir gluggar á húsinu og maður starir beint út í myrkrið af hlaupabrettinu (sem ég nota til að ganga á því ekki hleyp ég). Svo langar mig að leggja mig því mér gekk svo illa að sofna í gær og var vöknuð kl. hálf sjö í morgun. Ég lá nú reyndar lengur í rúminu en það væri gáfulegt að reyna að sofna aðeins aftur og safna kröftum fyrir vinnuna í dag. En það væri líka gáfulegt að taka smá skorpu í bókhaldinu svo ég þurfi ekki að stressa mig yfir því um helgina þegar ég á frí. Oh, ég get ekki ákveðið mig. Kannski ég vinni í bókhaldinu í rúman klukkutíma og reyni þá að leggja mig. Já, ég geri það.

miðvikudagur, 2. desember 2009

Alveg eins og smákrakki að byrja í skólanum

Það er þessi sérstaka tilfinning sem fylgdi því að fá nýtt skóladót á haustin sem kom yfir mig áðan. Ég var nefnilega að fá nýjan skúffuskáp undir skrifborðið mitt - og hlakka svona til að fara að raða í  hann :-) Áður var ég með skúffur sem ættaðar voru úr skrifborði sem Hrefna Sæunn fékk þegar hún var ca. 5-6 ára en þá bjuggum við í Furulundi. Ég var orðin eitthvað þreytt á því hvað þær pössuðu illa undir skrifborðið mitt og fékk sem sagt nýjan skúffuskáp í boði Vals. Þessar skúffur eru með voða fínu skilrúmi, þannig að hægt er að geyma heftara og gatara og bréfaklemmur í til þess gerðum hólfum. Svo er líka skjala-skilrúm í neðstu skúffunni svo ég get flokkað reikninga sem á eftir að greiða, reikninga sem búið er að greiða en eiga eftir að fara í möppu ofl. og fl. Sko! Ég sagði að ég væri eins og krakki, heheh :)

þriðjudagur, 1. desember 2009

Afmælisdagur ömmu

Já, amma mín Pálína Daníelsdóttir, var fædd 1. desember árið 1884. Hún náði þeim áfanga að verða hundrað ára en dó í febrúar 1985. Um daginn rakst ég á kvæði sem pabbi, Sæmundur G. Jóhannesson, orti til hennar á 92ja ára afmæli hennar og birti það hér til gamans.

Þegar amma var ung,
var hún alls ekki þung,
hún var alveg sem laufblað í vindi.
Og hún hreyfði sig létt,
hún var lipur og nett,
hún var lífsglöð með kvenlegu yndi.

Þá kom fullorðinstíð,
háð við storma var stríð,
yfir steina hún rann til að smala.
Stóð við orfið að slá,
hrífu óspart tók á,
og sín afkvæmi varð hún að ala.

Oft í búi var þröng,
yrðu börnin of svöng,
hversu biturt það sveið móðurhjarta.
Engin skerandi neyð,
hennar skyggði þó leið,
og hún skammtaði án þess að kvarta.

Tugmörg ævinnar ár,
gerðu ósléttar brár,
hárið silfrað og kreppt er nú höndin.
Þó er bókhneigðin söm,
enn er bréfaskrift töm
fingrum bogum, því ókreppt er öndin.

Guði þakkirnar ber
fyrir allt, sem þú er
bæði okkur og vinunum dyggu.
Er þú flutt verður heim
Guðs í himneskan geim,
munu hlotnast þér laun hinna tryggu.

Til að sjá meira um ömmu má t.d. lesa síðasta bloggpistil hennar mömmu, Þóru Pálsdóttur.