laugardagur, 19. janúar 2008
Dyntótt klukka
Það hangir klukka uppi á vegg hérna í Pottum og prikum. Einhvern tímann fyrir jólin stoppaði hún og ég dró þá ályktun að rafhlöðurnar hlytu að vera búnar. Fann rafhlöður í óuppteknum pakka og skipti. Klukkan fór að ganga aftur og ég var voða glöð. Ekki hafði hún þó gengið lengi þegar hún stoppaði aftur. Ég skoðaði rafhlöðurnar í pakkanum betur og sá að þær voru eldgamlar og farið að leka úr sumum. Þannig að ég sótti nýja rafhlöðu heim og setti í klukkuna. Aftur fór hún að ganga og ég hélt að nú væri þessu klukkumáli lokið. Ekki aldeilis. Eftir einhverja daga stoppaði klukkan enn og aftur. Þá komumst við Sunna að þeirri niðurstöðu að klukkuskömmin hlyti bara að vera biluð, tókum hana niður af veggnum í búðinni og geymdum fyrir aftan. Eitthvað var hún samt að þvælast fyrir okkur svo hún var hengd á nagla við hliðina á vaskinum. Þar hefur hún hangið síðan. Nema hvað, áðan leit ég á klukkuna og sá mér til mikillar furðu að hún bæði gekk og var líka rétt. Og nú skil ég ekki neitt í neinu. Er reyndar búin að hengja hana upp aftur frammi í búð, svo nú er viðbúið að hún hætti að ganga!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli