mánudagur, 28. maí 2007

Dóttirin komin heim

þannig að það hefur sem sagt fjölgað um einn í húsinu. Mikið sem það er nú alltaf notalegt að hafa öll börnin heima við en það er víst gangur lífsins að þau fara að heiman og fara að lifa sínu eigin lífi. Annars skil ég ekki alveg hvernig stendur á því, þegar hún var hér heima í desember fékk ég í bakið og hið sama gerðist í gær. Ég fékk þursabit og var öll rammskökk og með verki í samræmi við það. Svo í dag gat ég ekki hugsað mér að fara í sund svona skökk öll og það rifjaðist upp fyrir mér að einu sinni fyrir mörgum árum síðan þá fór ég í tívolí þegar ég var svona í bakinu og við það að fara í eitthvað tæki í tívolíinu (kolkrabba) þá lagaðist ég mikið í bakinu. Þannig að ég ákvað að gera tilraun, fór inn í stofu, setti hressilega plötu á fóninn og fór að hreyfa mig með músíkinni. Fyrst rólega en svo af meiri krafti og loks var ég farin að hoppa og snúa uppá mig í leiðinni (hef sjálfsagt litið út eins og brjáluð manneskja en sem betur fer var enginn heima til að horfa á mig). Í einu hoppinu heyrði ég smell og vissi að þá hefði losnað um eitthvað í bakinu. Fór svo í heita sturtu og endaði á að láta ískalt vatn renna á bakið og leið miklu betur á eftir. Er reyndar ósköp aum ennþá í öllum vöðvum hægra megin í bakinu en þetta er samt alveg meiriháttar betrumbæting á ástandinu.

Annars var Rósa vinkona mín stödd hér norðan heiða um helgina og það var voða gaman að hitta hana. Saman fórum við svo áðan að hitta aðra æskuvinkonu og það var líka mjög notalegt. Hún bauð okkur uppá rúllutertu sem hún var búin að skera í sneiðar, svo er þeyttur rjómi settur ofan á sneiðarnar og súkkulaðiplötu (þunnt 70% súkkulaði) stungið í rjómann. Gott á bragðið og smart í útliti!

Engin ummæli: