föstudagur, 25. maí 2007

Dóttirin í Danmörku

var að kvarta yfir því að ég hefði ekkert bloggað, sagðist hafa farið hundrað sinnum inn á síðuna mína í gær til að athuga, án árangurs. Þannig að það er best að standa undir væntingum og blogga...

Um daginn komu tvær ungar stelpur í búðina. Ég spurði þær hvort ég gæti aðstoðað og önnur þeirra svaraði: "Við viljum bara sjá" og greinilega voru þetta ekki Íslendingar. Svo fóru þær að skoða vörurnar og töluðu saman á meðan á tungumáli sem ég átti pínu erfitt að átta mig á í fyrstu. Það er að segja, ég var alveg viss um að þetta væri annað hvort norska eða sænska, en einhverra hluta vegna gat ég (manneskjan sem bjó í Noregi í tæp sex ár) ekki alveg neglt það niður. Svo ég spurði og fékk að vita að þær væru norskar, frá Molde. Og þá byrjaði ballið, ég ætlaði að sjálfsögðu að spjalla við þær á norsku (spyrja hvað þær væru að gera á Íslandi o.s.frv.) - en af því ég var að rembast við að tala dönsku um páskana þegar ég var í Danmörku þá kom bara eitthvað óskiljanlegt sambland dönsku og norsku út úr munninum á mér. Sagði "I" í staðinn fyrir "dere" og "kun" í staðinn fyrir "bare" og svo framvegis. Restin var norska. Til að kóróna allt saman fór ég alveg í kerfi þegar ég heyrði hvernig ég talaði, svo þetta varð afar skrautlegt samtal af minni hálfu.

Já, það er nú meira hvernig þessi heili minn getur starfað undarlega. Þegar ég flutti til Noregs hafði ég nýlega fengið þýskuverðlaun á stúdentsprófi en svo þegar ég ætlaði að tala þýsku við sjúkling sem lá á geðsjúkrahúsinu þar sem ég var að vinna þá var öll þýskukunnátta fokin út í veður og vind. Hið sama gerðist meira að segja með enskuna, þegar ég reyndi að tala ensku þá komu alltaf norsk orð upp í hugann og ég gat ekki munað einföldustu ensk orð. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig fólk sem kann mörg tungumál fer að því að skipta á milli þeirra og tala rétt tungumál hverju sinni án þess að allt fari í rugl!

(Hrefna mín, loksins þegar ég blogga segi ég svo sögu sem ég var búin að segja þér, sorrý!)

Engin ummæli: