fimmtudagur, 31. maí 2007

"Where can I buy tourist stuff?"

Farfuglarnir eru komnir, ekki bara þessir vængjuðu og fiðruðu, heldur líka þessir sem ganga uppréttir á tveimur fótum. Þeir "villast" sumir hverjir inn í búðina til okkar og eru þá ýmist að spyrja til vegar hingað og þangað (eins og fyrirsögn þessa pistils vísar til) eða skoða búsáhöldin. Sumir segjast skoða allar búsáhaldaverslanir sem þeir komist í tæri við enda séu það skemmtilegustu verslunirnar. Hvert svo sem erindið er þá lífga þessir blessaðir túristar uppá tilveruna :-)

þriðjudagur, 29. maí 2007

"Áttu heima í tjaldi"

Þessi gullvæga setning hnaut oft af vörum mömmu einnar stelpu sem ég lék mér stundum við þegar ég var lítil. Ástæðan var sú að ég (eða einhver annar í krakkahópnum) hafði gleymt að loka útidyrunum á eftir mér. Blessuð konan hafði töluvert skap og manni fannst ekkert sérlega gaman þegar hún sagði þetta, þó meira í hæðnistón en reiðilega. Allavega, orsök þess að mér datt þetta í hug er sú að Máni, annar tveggja heimiliskatta okkar, opnar ítrekað útihurðina. Fyrst var það bara til að komast inn en nú er hann farinn að opna líka til að komast út. Hann er auðvitað hæstánægður með að vera svona sálfbjarga en okkur er minna skemmt yfir þessum hæfileika hans. Í fyrsta lagi klórar hann hurðina og skemmir hana, í öðru lagi kann hann ekki að loka henni. Um daginn kom ég t.d. upp eftir að hafa verið niðri að horfa á sjónvarpið og þá var ískalt uppi enda útihurðin galopin. Meira vesenið að kötturinn skuli ekki geta lokað á eftir sér...

mánudagur, 28. maí 2007

Dóttirin komin heim

þannig að það hefur sem sagt fjölgað um einn í húsinu. Mikið sem það er nú alltaf notalegt að hafa öll börnin heima við en það er víst gangur lífsins að þau fara að heiman og fara að lifa sínu eigin lífi. Annars skil ég ekki alveg hvernig stendur á því, þegar hún var hér heima í desember fékk ég í bakið og hið sama gerðist í gær. Ég fékk þursabit og var öll rammskökk og með verki í samræmi við það. Svo í dag gat ég ekki hugsað mér að fara í sund svona skökk öll og það rifjaðist upp fyrir mér að einu sinni fyrir mörgum árum síðan þá fór ég í tívolí þegar ég var svona í bakinu og við það að fara í eitthvað tæki í tívolíinu (kolkrabba) þá lagaðist ég mikið í bakinu. Þannig að ég ákvað að gera tilraun, fór inn í stofu, setti hressilega plötu á fóninn og fór að hreyfa mig með músíkinni. Fyrst rólega en svo af meiri krafti og loks var ég farin að hoppa og snúa uppá mig í leiðinni (hef sjálfsagt litið út eins og brjáluð manneskja en sem betur fer var enginn heima til að horfa á mig). Í einu hoppinu heyrði ég smell og vissi að þá hefði losnað um eitthvað í bakinu. Fór svo í heita sturtu og endaði á að láta ískalt vatn renna á bakið og leið miklu betur á eftir. Er reyndar ósköp aum ennþá í öllum vöðvum hægra megin í bakinu en þetta er samt alveg meiriháttar betrumbæting á ástandinu.

Annars var Rósa vinkona mín stödd hér norðan heiða um helgina og það var voða gaman að hitta hana. Saman fórum við svo áðan að hitta aðra æskuvinkonu og það var líka mjög notalegt. Hún bauð okkur uppá rúllutertu sem hún var búin að skera í sneiðar, svo er þeyttur rjómi settur ofan á sneiðarnar og súkkulaðiplötu (þunnt 70% súkkulaði) stungið í rjómann. Gott á bragðið og smart í útliti!

föstudagur, 25. maí 2007

Dóttirin í Danmörku

var að kvarta yfir því að ég hefði ekkert bloggað, sagðist hafa farið hundrað sinnum inn á síðuna mína í gær til að athuga, án árangurs. Þannig að það er best að standa undir væntingum og blogga...

Um daginn komu tvær ungar stelpur í búðina. Ég spurði þær hvort ég gæti aðstoðað og önnur þeirra svaraði: "Við viljum bara sjá" og greinilega voru þetta ekki Íslendingar. Svo fóru þær að skoða vörurnar og töluðu saman á meðan á tungumáli sem ég átti pínu erfitt að átta mig á í fyrstu. Það er að segja, ég var alveg viss um að þetta væri annað hvort norska eða sænska, en einhverra hluta vegna gat ég (manneskjan sem bjó í Noregi í tæp sex ár) ekki alveg neglt það niður. Svo ég spurði og fékk að vita að þær væru norskar, frá Molde. Og þá byrjaði ballið, ég ætlaði að sjálfsögðu að spjalla við þær á norsku (spyrja hvað þær væru að gera á Íslandi o.s.frv.) - en af því ég var að rembast við að tala dönsku um páskana þegar ég var í Danmörku þá kom bara eitthvað óskiljanlegt sambland dönsku og norsku út úr munninum á mér. Sagði "I" í staðinn fyrir "dere" og "kun" í staðinn fyrir "bare" og svo framvegis. Restin var norska. Til að kóróna allt saman fór ég alveg í kerfi þegar ég heyrði hvernig ég talaði, svo þetta varð afar skrautlegt samtal af minni hálfu.

Já, það er nú meira hvernig þessi heili minn getur starfað undarlega. Þegar ég flutti til Noregs hafði ég nýlega fengið þýskuverðlaun á stúdentsprófi en svo þegar ég ætlaði að tala þýsku við sjúkling sem lá á geðsjúkrahúsinu þar sem ég var að vinna þá var öll þýskukunnátta fokin út í veður og vind. Hið sama gerðist meira að segja með enskuna, þegar ég reyndi að tala ensku þá komu alltaf norsk orð upp í hugann og ég gat ekki munað einföldustu ensk orð. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig fólk sem kann mörg tungumál fer að því að skipta á milli þeirra og tala rétt tungumál hverju sinni án þess að allt fari í rugl!

(Hrefna mín, loksins þegar ég blogga segi ég svo sögu sem ég var búin að segja þér, sorrý!)

laugardagur, 19. maí 2007

Einhver bloggleti í gangi


þessa dagana. Skrýtið hvernig það koma svona tímabil þar sem mér finnst ég ekki hafa neitt að segja, þó það sé hvorki meira né minna um að vera heldur en á öðrum tímabilum. Lífið gengur bara sinn vanagang, allir þokkalega sprækir. Ísak er byrjaður í prófum, Hrefna er að lesa undir próf úti í kóngsins Köben og fyrsta prófið hjá Andra er á föstudaginn í næstu viku. Kuldaboli hefur verið þaulsetinn hér norðan heiða undanfarnar vikur og ekkert lát virðist þar á. Ég vil samt frekar hafa kulda heldur en rigningu. Sólin hefur náð að brjótast út úr skýjunum stund og stund og í gærmorgun var ég svo heppin að vera einmitt úti að ganga þegar sólin heiðraði okkur með nærveru sinni. Og á göngu meðfram Gleránni sáum við meira að segja Straumönd sem sat á steini og fékk sér blund, með höfuð undir væng. Lítið fór hins vegar fyrir fuglunum í Kjarnaskógi núna áðan, það var helst að heyrðist í einstaka þresti og hrossagauki. Máni og Birta láta líka lítið fyrir sér fara þessa dagana, þreyja þorrann og bíða eftir betra veðri...

sunnudagur, 13. maí 2007

Já ég er snillingur - eða þannig

Ísak bað mig fyrir löngu síðan að baka skinkusnúða (líklega fyrir svona tveimur til þremur mánuðum síðan) og ég keypti skinkumyrju fyrir löngu síðan en hafði mig aldrei af stað í að baka. Í morgun vöknuðum við Valur snemma og eftir að hafa farið í sund og borðað morgunmat ákvað ég að nú væri rétti tíminn kominnn til að baka. Skellti í deig, án þess að nefna neitt við Ísak, og hugsaði með mér að ég ætlaði að bjóða honum að búa til hornin með mér þegar deigið væri búið að lyfta sér. Svo fór ég að þvo þvott, ryksuga og þrífa baðið. Í miðjum klíðum leit ég á ísak sem sat fyrir framan tölvuna og sagði að nú skyldi hann hætta í tölvunni og fara að leika frekar við vini sína. Svo hélt ég áfram að þrífa. Það var ekki fyrr en Ísak var búinn að mæla sér mót við vin sinn og var á leiðinni út úr dyrunum sem ég mundi eftir því að ég hafði ætlað að bjóða honum að baka með mér. Þá var það náttúrulega orðið of seint og hann var hálf spældur yfir þessu. Já, það er ekki einleikið hvað ég get verið gleymin stundum!

þriðjudagur, 8. maí 2007

Mæli ekki með því að byrja að lesa góða bók

rétt fyrir svefninn. Ég fór í bókabúð í gærkvöldi til að nýta 1000 kr. ávísunina sem við fengum senda um daginn frá Félagi Bókaútgefanda og keypti eina bók handa Val og eina handa mér. Valur fékk bókina "Utan alfaraleiða" um jeppaleiðir á hálendinu eftir Jón G. Snæland en ég fékk bókina "Listin að stjórna eigin lífi, virkjaðu þinn innri kraft" eftir Randi B. Noyes.
Í gegnum tíðina hef ég lesið nokkrar bækur sem myndu flokkast undir að vera sjálfshjálparbækur og eru þær mjög misjafnar að gæðum. Þörf mín fyrir að lesa slíkar bókmenntir hefur komið í bylgjum og er ansi langt síðan ég las síðast bók í þessum flokki. Undanfarið hefur samt verið einhver stöðnun hjá mér eða óánægja með sjálfa mig, kannski einfaldlega af því ég hef haft rýmri tíma til að hugsa en mörg síðustu ár, kannski af því börnin eru bráðum uppkomin og þurfa ekki jafn mikla umönnun og áður, kannski af því ég hef löngun til að vaxa og þroskast en ekki hjakka alltaf í sama farinu.
Hvað um það, ég byrjaði sem sagt að lesa þessa bók um hálf ellefuleytið í gærkvöldi og ætlaði bara rétt að kíkja á hana áður en ég slykki ljósið og færi að sofa. En gat ekki slitið mig frá henni og las og las. Var samt alltaf að hugsa að þetta væri bók sem þyrfti að lesa hægt og virkilega íhuga. Hætti þegar ég var hálfnuð með bókina og ætlaði að fara að sofa en gat með engu móti sofnað. Hugurinn var svo virkur að það var ekki séns að ég gæti slökkt á honum. Þannig að ég sofnaði ekki fyrr en seint og um síðir og einhverra hluta vegna var ég vöknuð klukkan sex í morgun. Er samt ótrúlega hress í dag, enn sem komið er allavega...

mánudagur, 7. maí 2007

Það virkaði vel

að vera búin að fastsetja göngutúr fyrirfram. Við Unnur gengum í tæpan klukkutíma í 3ja stiga hita (kulda) og fórum m.a. út í Naustahverfi. Það er búið að byggja alveg rosalega mikið þar, hús út um allt, meira að segja rétt við golfvöllinn. Sem minnir mig á það að pabbi gamallar skóla- og skátasystur minnar hafði fest sér hús á því svæði en dó um daginn og verður jarðaður á morgun. Sorglegt.
En það er nú meira hvað útivist og vinkonuspjall hefur góð áhrif á mann, við erum þegar búnar að skipuleggja næsta túr. Samt ótrúlegt hvað það gengur illa að finna tíma sem hentar okkur báðum, en kannski ekki skrýtið þar sem hún vinnur vaktavinnu og ég vinn til skiptis fyrri- og seinniparta í búðinni.
Annars er Valur að vinna á Króknum í dag og á morgun og hringdi áðan til að biðja mig að taka vin sinn Grissom upp á dvd. Ætli sé ekki best að fara í það verk, ég geri þetta svo sjaldan að það tekur mig óratíma að finna rétta stöð og vera viss um að ég sé að ýta á réttu takkana...

sunnudagur, 6. maí 2007

Áframhaldandi leti

Veit ekki hvað kom eiginlega yfir mig. Fór ekki í sund í þrjá daga og stóð varla í lappirnar í gær fyrir leti og þreytu. Spurning hvort það er lækkandi loftþrýstingur sem hefur þessi áhrif? Má allavega vona að þetta sé ekki bara minn eðlislægi persónuleiki að skína í gegn... Valur lét hins vegar engan bilbug á sér finna, fór í ræktina og eldaði þar að auki frábæran indverskan mat í gær sem Sunna og Kiddi borðuðu með okkur. Dagurinn í dag var aðeins skárri, ég fór í sund í morgun ásamt eiginmanninum, þvoði þvott, ryksugaði og skúraði eldhúsgólfið. Er búin að mæla mér mót við vinkonu mína á morgun og við ætlum að fara út að ganga saman, svo það er gulltryggt að ég leggst ekki bara í leti þegar ég er búin að vinna. Það er nú ágætt!

fimmtudagur, 3. maí 2007

Var að laga til í gömlum myndum


og rakst þá meðal annars á þessa skemmtilegu mynd af mömmu með dætrasonum sínum (segir maður svona?), þeim Ísaki og Sigurði. Myndin var tekin í fyrrasumar þegar Sigurður var í heimsókn hjá okkur (já og mamma líka).

Vaknaði í morgun

með inngróið koddafar á hægri vanga og stóra bólu á vinstri vanga. Klukkutíma síðar er bæði koddafarið og bólan enn á sama stað. Var löt og sleppti því að fara í sund, nokkuð sem gerist ekki oft. Er að fara að vinna klukkan tíu og sit hér og velti fyrir mér hvort ég á að fara í sund núna (þó seint sé, þarf hvort eð er að baða mig), eða fara og ganga einn hring í Kjarnaskógi. Æ, ég veit það ekki, nenni eiginlega engu akkúrat í augnablikinu. Eyddi síðasta hálftímanum í að skoða myndir inni á flickr.com þannig að letin er greinilega alls ráðandi í dag. En nú er kominn tími til að hætta þessu og hrista af sér slenið.

miðvikudagur, 2. maí 2007

þriðjudagur, 1. maí 2007

Vorverkin í garðinum

var þema dagsins hér hjá okkur í Vinaminni. Við rökuðum lauf og klipptum þær trjáplöntur sem Valur var ekki búinn að klippa um daginn. Svo færðu Valur og Andri seljuna sem lagðist nánast á hliðina í roki í vetur. Hún stendur núna rétt við "hólinn" og þar sem seljan var er nú kominn glótoppur sem var að kafna inn á milli stórakvists, þyrnirósar og rauðrunnarósar. Svo er bara að vona að plönturnar lifi þessa flutninga af. Á milli verka fengum við okkur kaffi úti en í morgun fórum við út að hlaupa.

Tja, það er að segja, Valur fór út að hlaupa í morgun en ég fór út að ganga/skokka/hlaupa rétt eftir hádegið (nýbúin að borða, voða sniðug). Ætla að sjá hvað skrokkurinn á mér segir við þessu, hvort hné og mjaðmir fara að kvarta. Ef ekki þá er aldrei að vita nema ég prufi þetta áfram. Sem krakki fannst mér rosalega gaman að hlaupa og eins og barna er siður þá hljóp ég oft í stað þess að ganga. Eftir að ég komst á fullorðinsár hef ég nokkrum sinnum gert tilraun til að hlaupa en líklega alltaf farið of geyst af stað, endað með bólgin hné og gefist upp. En nú er eitthvað hlaupaæði í kringum mig, Valur er að hlaupa, Sunna og Kiddi eru að hlaupa og Fríða bloggari undirbýr sig undir maraþon með því að hlaupa Eyjafjarðarhringinn. Verður maður ekki bara að taka þátt í þessu?