föstudagur, 15. september 2006

Sundið

var sérlega ljúft í dag, að minnsta kosti framan af. Þegar ég byrjaði að synda reglulega að nýju eftir áratuga hlé velti ég því oft fyrir mér hvað það væru mikil forréttindi. Að geta farið í sund á morgnana fyrir vinnu, sama hvernig sem viðrar, og svo er afslöppunin í heita pottinum á eftir alveg gulls ígildi. Smám saman verður þetta að vana og maður hættir að hugsa um það hvað þetta er frábært allt saman.

En í morgun var alveg sérlega yndislegt að synda. Ég var óvenju seint á ferð og það var verið að kenna þremur bekkjum skólasund, með tilheyrandi hávaða og látum í krökkunum. Sólin skein og ég fann að ég er farin að hressast eftir þessa pesti sem hefur verið að angra mig undanfarið. Að vísu var ég reyndar nærri búin að lenda í árekstri við mann sem synti allt í einu þvert í veg fyrir mig rétt í því andartaki sem ég var að spyrna mér frá bakkanum. Ég þurfti að snarbremsa og hann baðst afsökunar og þá ætlaði ég að segja að þetta væri í góðu lagi en röddin í mér var ekki alveg að hlýða svo það heyrðist bara eitthvað krunk í mér.

Svo kláraði ég dagskammtinn (er núna 750 metrar, var 1000 metrar fyrir veikindin) og fór í pottinn. Sat þar og hlustaði á skvaldrið í krökkunum og horfði á geisla sólarinnar smella léttum kossi á allt sem á vegi þeirra varð þegar ég fann að það byrjaði að leka úr nefinu á mér. Minnug þess að hafa fengið blóðnasir í gær greip ég um nefið á mér og jú jú, það var byrjað að fossa úr því á ný. Dreif mig upp úr pottinum og inn i hús og mætti á leiðinni manninum sem ég hafði nærri klesst á. Hann leit undrandi á mig og spurði hvort ég hefði lent í árekstri við einhvern annan og slasað mig... ég sagði að þetta væru bara saklausar blóðnasir og í þetta sinn heyrðist alla vega hvað ég sagði, hæsin aðeins á undanhaldi.

Þessi friðsæla sundferð endaði með því að ég þurfti að standa heillengi í sturtuklefanum á meðan ég beið eftir því að blóðnasirnar hættu - sem þær gerðu fyrir rest. En ekki áður en kona ein hafði sagt mér söguna af mömmu sinni sem var alltaf að fá blóðnasir og þá kom í ljós að hún var með of háan blóðþrýsting. Ég fullvissaði konuna hins vegar um að ekkert væri að mínum blóðþrýstingi, ég væri bara búin að snýta mér svo mikið undanfarið ...

Engin ummæli: