Ég tók hinsvegar meðvitaða ákvörðun um að stressa mig ekki upp út af þessu og hef verið sallaróleg þann tíma sem liðinn er. Byrjaði reyndar með því að panta pítsu s.l. laugardag en eldaði hrísgrjónagraut á sunnudaginn og fiskibollur í karrýsósu á mánudaginn. Á þriðjudeginum splæsti ég Subway á strákana því þá var ég sjálf á súpufundi hjá Félagi kvenna í atvinnurekstri og á miðvikudaginn var ég með lambanagga með súrsætri sósu og hrísgrjónum. Ísak borðaði naggana með bestu lyst en sá eldri var nú ekki alveg jafn hrifinn og ég sá að ég yrði að hafa einhvern "alvöru" mat kvöldið eftir. Var svo heppin að í Fréttablaðinu þann dag var uppskrift að kjúklingabringum með pestói og fannst alveg gráupplagt að elda þær. En þar sem Ísak skellti sér í bíó með félögum sínum þá vorum við Andri bara tvö í mat og þess vegna var töluverður afgangur af matnum. Honum var komið fyrir inni í ísskáp, við hliðina á afgöngunum af hrísgrjónagrautnum og lambanöggunum.
Í dag vissi ég ekki hvað ég átti að elda en blaðið Birta kom mér til bjargar, eða öllu heldur Halla Bára Gestsdóttir blaðamaður. Hún var með uppskrift að tómatsúpu með makkarónum og ég var alveg viss um að súpan myndi falla í kramið hjá yngri syninum. Var ekki eins viss um þann eldri en hann var hvort eð er á leiðinni á handboltaæfingu og myndi því ekki borða mikið. Þegar ég var að saxa laukinn (þrjá skalottulauka) varð mér í smá stund hugsað til þess að ef til vill væri uppskriftin í stærra lagi fyrir okkur þrjú. Sú hugsun staldraði þó ekki lengi við og ég hélt áfram að gera súpuna. Dreypti á einu rauðvínsglasi við eldamennskuna og var harla ánægð með sjálfa mig. Ég gæti sko alveg eldað!
Þetta var alvöru súpa, engin pakkasúpa, og ég varaði drengina við því að þetta væri sko "the real thing" og þess vegna svolítið þykk. Ísak smakkaði súpuna og kvað upp þann dóm að hún væri góð. Ég varð auðvitað yfir mig glöð og þegar ég var búin að setja harðsoðna eggið ofaní súpuna mína og raspa parmesan ost yfir hana smakkaði ég líka og var alveg sammála syninum. Sá eldri sagði fátt. Eftir smá stund, þegar Ísak var ca. hálfnaður með skammtinn sinn, spurði hann hvort það væri til afgangur af hrísgrjónagraut. Þá var svarti piparinn farinn að segja til sín (NB! bróðir hans fann ekki einu sinni piparbragð enda vanur sterkum mat föður síns) og skyndilega var súpan ekki svo góð lengur.
Ég kyngdi stoltinu og sótti grjónagraut í ísskápinn og gaf honum. Handboltastrákurinn lét einn disk nægja og ég varð pakksödd af einum diski. Þannig að ég sit uppi með tæpan lítra af súpu í afgang. Er einhver svangur? Sá hinn sami getur valið um nagga, kjúkling eða súpu...