miðvikudagur, 17. maí 2006

Í hverjum hópi nemenda

er yfirleitt einn sem skrifar svo afspyrnu illa að ég á í mestu vandræðum með að fara yfir prófið hjá viðkomandi. Hingað til hafa þetta nú oftast verið karlmenn en það er kvenmaður sem á þennan vafasama heiður í ár. Það er nógu leiðinlegt að fara yfir próf, þó það bætist ekki við að þurfa að eyða löngum tíma í að klóra sig fram úr því sem stendur á blaðinu. Þykist maður nú samt ýmsu vanur.

Annars er ég hálf miður mín í dag. Í sundinu í morgun frétti ég að ein af fastagestunum hefði fengið heilablóðfall í síðustu viku. Þessi kona (sem er ekki nema ca. tíu árum eldri en ég) heilsar mér alltaf glaðlega og er ægilega hress og mikill orkubolti. Nú liggur hún á sjúkrahúsi og á erfitt með hreyfingu og tjáningu. Mér dauðbrá við þessar fréttir og er ekki búin að jafna mig ennþá. Skrýtin tilviljun að í síðustu viku fór ég á bókasafnið og tók að láni bókina "Afmörkuð stund" eftir Ingólf Margeirsson, en hún fjallar einmitt um reynslu hans af því að hafa fengið heilablóðfall. Þetta er reyndar mjög góð bók og vel þess virði að lesa hana.

En nú er best að halda áfram að fara yfir próf ;-)

Engin ummæli: