þriðjudagur, 23. maí 2006

Ef einhver vegfarandi

hefði átt leið fram hjá grænu húsi við Stekkjargerði í gærkvöldi hefði hann orðið vitni að furðulegu atviki. Kona nokkur kom keyrandi og lagði bíl sínum inni í bílskúr við húsið. Hún kom út úr bílskúrnum og ætlaði að taka á sprett inn í hús til að komast sem fyrst inn úr hríðinni. En hún hafði vart tekið nema tvö eða þrjú skref þegar fótunum var skyndilega kippt undan henni, líkt og hún hefði orðið fyrir skoti, og hún féll í götuna. Vinstra hnéð var bogið og hún lá þarna öskrandi af sársauka í óratíma að því er virtist og hélt um hnéð. Tíminn var líklega ekki nema tvær mínútur í mesta lagi en það voru ekki fögur hljóð sem hún gaf frá sér. Smám saman virtist hún þó ná að yfirvinna sársaukann og eftir smá stund staulaðist hún á fætur. Bíllyklarnir höfðu flogið nokkra metra í burtu við fallið og hún beygði sig niður með erfiðismunum og tók þá upp. Tröppurnar að húsinu voru næsta hindrun en með því að stíga í hægri fótinn fyrst og styðja sig með höndunum tókst henni að hálf skríða, hálf ganga upp tröppurnar. Þegar inn var komið hné hún niður í sæti í forstofunni og lét það eftir sér að fara að gráta. Sársaukinn sem hafði verið nánast óbærilegur í byrjun var í rénum en hún grét engu að síður í smá stund. Ellefu ára syni hennar stóð ekki á sama en mamman reyndi að fullvissa hann um að allt væri í góðu lagi, hún hefði bara meitt sig aðeins og það myndi jafna sig. Tók því næst upp símann og hringdi í eiginmanninn, sem var fjarverandi, til þess að láta vorkenna sér. Að símtalinu loknu staulaðist hún inn í herbergi eldri sonarins þar sem hún vissi að væri teygjubindi að finna og batt utan um hnéð. Þegar það var búið haltraði hún niður stigann, eitt þrep í einu, niður í kjallara og fór að horfa á sjónvarpið. Ennþá var samt sársaukastingur í hnénu og hún ákvað að taka ibufen áður en hún færi að sofa.

Eins og lesandann rennir vafalaust í grun um, þá er konan engin önnur en ég. Og hvað gerðist? Jú, hnéskelin á mér fór úr liði, ekki í fyrsta sinn, en þó held ég að það séu örugglega tíu ár síðan það gerðist síðast. Þá small hún ekki í liðinn af sjálfu sér eins og í gær, heldur þurfti Valur að hjálpa til. En mikið hrikalega er þetta vont!

Engin ummæli: