mánudagur, 6. janúar 2014

Bókhald, tanndráttur, ljósmyndadagbók ofl.


Er þetta ekki gríðarlega spennandi fyrirsögn? Hehe eða þannig ... Jæja hún er að minnsta kosti lýsandi fyrir það sem er í gangi hjá mér í dag. Ég er byrjuð að vinna á fullu í bókhaldinu sem á að vera tilbúið 5. febrúar, og þarf helst að vera búin að klára löngu fyrir þann tíma. Við Valur förum nefnilega til Danmerkur um mánaðamótin, til að vera viðstödd þegar Hrefna útskrifast úr læknadeildinni, og þá þarf þetta að vera klárt. Þannig að fyrir utan venjulega vinnu í búðinni á laugardaginn, þá fór helgin að mestu leyti í bókhaldsvinnu hjá mér og ég er langt komin með þá reikninga sem ég var komin með hingað heim. En svo kom Sunna áðan með risastóran bunka í viðbót ... svo þetta er ekki búið enn. Enda langmestu vörukaupin á árinu sem eiga sér stað í nóvember og desember.

Í morgun var ég svo hjá tannlækni og eins ömurlegt og það nú er, þá þurfti að draga úr mér jaxl. Sá hinn sami var að plaga mig í byrjun desember og það var víst bara tímaspursmál hvenær hann yrði aftur ómögulegur, svo það eina sem hægt var að gera í stöðunni var að fjarlægja hann. Það byrjaði nú reyndar ekki vel, því hluti af deyfingunni rann ofan í hálsinn á mér og ég fékk hrikalega óþægilega tilfinningu í hálsinn í kjölfarið. Fannst ég ekki geta kyngt og fékk hálfgerða köfnunartilfinningu. En það varði nú sem betur fer bara stutt. Jaxlinn var ekki á því að gefast upp baráttulaust, svo þetta tók tímann sinn, en heim var ég komin ca. einum og hálfum tíma síðar. Var sem betur fer búin að redda mér fríi í vinnunni í dag, enda hef ég verið hálf lurkum lamin einhvern veginn, og með verki ef ég fæ vökva eða kalt loft í sárið.

Annars eru kannski einhverjir sem muna eftir því að árið 2012 byrjaði ég að halda daglega ljósmyndadagbók í forriti sem heitir blipfoto.com. Það gekk út á að taka eina ljósmynd á dag og setja inn á þessa vefsíðu, en myndin verður að vera tekin sama dag og má ekkert svindla á því. Þetta gekk vel hjá mér alveg þar til ég þurrkaði óvart út af korti sem ég hafði tekið myndir á, og átti þá allt í einu ekki mynd fyrir einn dag. Það þurfti ekki meira til, þó mér tækist síðar að endurheimta myndina af kortinu, þá hafði ég ekki tekið mynd næsta dag heldur, og þar með gafst ég upp á að gera þetta daglega. Hef þó sett inn myndir þar svona endrum og sinnum.

Hins vegar er þetta þroskandi og heldur manni við efnið í ljósmynduninni. Þannig að núna þegar nokkrar konur í ljósmyndaklúbbnum mínum ætla í svona 365 daga verkefni, þá er ég að hugsa um að taka þátt. Það eina sem ég veit ekki alveg, er hvort ég á að birta myndirnar hér á blogginu, eða á blipfoto síðunni minni. Til að byrja með hef ég þó gert það, og setti upp tengil á ljósmyndasíðuna efst til hægri hér á blogginu, svona ef einhver vill fylgjast með. En já kannski skipti ég um skoðun og hef myndirnar bara hér inni. Kosturinn við að hafa þær á blippinu er sá að maður neyðist jú til að taka mynd á réttum degi og getur ekki svindlað, en á móti kemur að myndirnar kannski týnast svolítið þar inni. Æ ég veit það ekki ...

Ái, þarna fékk ég mér tesopa og fékk verkjasting þegar volgur vökvinn rann óvart ofan í holuna sem tannsi skyldi eftir. Það var þó gott að klára bara þennan tanndrátt því þá er einu áhyggjuefninu færra.

Og já best að hætta þessu slóri og halda áfram í bókhaldinu. Ég get að vísu ekki unnið í sjálfu kerfinu meðan búðin er opin, en get farið yfir það sem ég er búin að gera og villuleitað.

Engin ummæli: