Það er reyndar alveg nóg stress í tengslum við vinnuna, en ég er svo lánsöm að vera í fríi þessa helgi og mér sýnist hún muni nánast eingöngu vera notuð í hvíld. Ég keyrði mig út fyrir viku síðan, en þá vann ég sex daga í röð og þar af 10 tíma einn daginn, og er enn að súpa seyðið af því. Núna er svo aftur framundan sex daga vinnuvika ... og á fimmtudaginn hefst kvöldopnun á Glerártorgi, en þá verður opið til kl. 22 öll kvöld fram til jóla (og kl. 23 á Þorláksmessu). Við erum líka enn á fullu að panta vörur og það er alltaf jafn tímafrekt og svo eigum við eftir að gera vinnuskýrslu, sem mér finnst líka alltaf frekar erfitt.
En já hm ... ég er sem sagt í fríi í dag, en eins og sést þá er vinnan aldrei langt undan, svona andlega séð.
Í gær fór ég út að ganga en gerði annars nákvæmlega ekki neitt. Hélt ég yrði hressari í dag en vaknaði þreytt í morgun og með hjartslátt og eyrnasuð, svo þá sá ég hvernig dagurinn í dag yrði. Ég harkaði nú samt af mér og fór í sund með Val um hálf tíuleytið. Það var voða notalegt, enda fáir í sundi svona á sunnudagsmorgnum. Við fengum okkur svo kaffi þegar við komum heim og já svo fór frúin í sófann og hefur verið þar í dag.
Ég var reyndar líka óvenju dugleg í félagslífinu í vikunni sem leið. Á þriðjudagskvöldið voru litlu jól hjá ljósmyndaklúbbnum, á fimmtudagskvöldið var jólahlaðborð hjá Læknastofunum og á föstudagskvöldið fór ég út að borða með kvennaklúbbnum mínum. Allt mjög skemmtilegt og ég er ánægð með að hafa drifið mig af stað, þó þetta sprengi nú alveg skalann hjá mér hvað kvöld-útstáelsi snertir.
Jeppinn var eitthvað að stríða mér í vikunni og var straumlaus einn daginn. Við gátum fengið lánað hleðslutæki og hlaðið hann, en til að hlaða geymana enn frekar þá fór ég rúnt fram í fjörð á föstudaginn fyrir vinnu. Það var ískalt úti, eða 16-20 gráður, allt eftir því hvar í bænum maður var. Ég tók myndavélina með og smellti af nokkrum frostmyndum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli