Við fengum góða gesti í síðustu viku þegar Anna systir og Sigurður sonur hennar komu og stoppuðu í 3 daga. Það var svo gaman og notalegt að hafa þau í heimsókn og Sigurður orðinn þvílíkt duglegur að tala íslensku. Ég gat fengið mig lausa úr vinnunni að langmestu leyti og bara dinglast með Önnu. Við fórum m.a. í bíltúr fram í fjörð, en þegar við vorum komin tæplega 30 km. frameftir þá sá ég að bíllinn var að verða bensínlaus ... hehe hafði náttúrulega ekki dottið í hug að tékka á því áður en við lögðum af stað. Eina ráðið var að bruna aftur inn til Akureyrar, taka bensín og leggja aftur í hann. Þá var klukkan reyndar orðin svo margt að það var kominn tími á hádegismat og við fórum á veitingastaðinn Silvu í Eyjafjarðarsveit. Það er sannarlega hægt að mæla með þeim stað. Svo ókum við enn lengra og kíktum inn á Smámunasafn Sverris Hermannssonar en það er í þriðja sinn sem ég fer þangað og hef alltaf gaman af. Þegar hér var komið sögu þurfti ég reyndar að mæta í vinnu, svo við drifum okkur í bæinn aftur.
Daginn eftir fórum við svo að skoða Davíðshús og þaðan að skoða stórfenglega sýningu Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur í Listagilinu. Mæli með því að fólk kíki á þá sýningu ef það er statt á Akureyri eða í nágrenni. Á meðan við vorum í menningunni gekk Sigurður á Súlur og var snöggur að því. Um kvöldið náðum við svo öll að borða saman áður en Andri fór í vinnuna, en hann er að vinna sem þjónn. En já tíminn leið svo alltof hratt og allt í einu voru þau bara farin aftur.
Nú á ég bara eftir að vinna í 3 daga og þá er ég komin í 4ra vikna sumarfrí. Það er gott að vera það lengi í fríi því í fyrra man ég að þá var ég í 3ja vikna fríi og fyrstu vikuna var ég enn með hugann við vinnuna, aðra vikuna naut ég þess að vera í fríi en þriðju vikuna var ég aftur farin að hugsa um vinnuna. Þannig að nú ætti ég a.m.k. að ná tveimur "raunverulegum" frívikum. Ja, ef maður sleppir þeirri staðreynd að ég þarf víst ábyggilega að vinna eitthvað aðeins í bókhaldi.
Nóg um það, nú er ég að fara að drífa mig í háttinn, góða nótt.
2 ummæli:
Djúp mynd!
Já ég er bara nokkuð ánægð með þessa :)
Skrifa ummæli