föstudagur, 19. júlí 2013

Útilega og góðir gestir

Já það er nóg að gera í sumarfríinu ;-) Fyrst gerðist það nú reyndar markvert að við keyptum okkur hjólhýsi. Það var hálfgerð skyndiákvörðun (en við höfum svo sem daðrað við þá hugsun áður án þess að nokkuð yrði úr í það skiptið). Og þar sem við vorum komin með hjólhýsi, þá lá beinast við að drífa sig í útilegu, sem og við gerðum. Lögðum af stað á þriðjudegi og ókum sem leið lá austur í Borgarfjörð Eystri. Þar plöntuðum við hjólhýsinu niður á tjaldstæðinu, reyndar ekki alveg á besta stað, en það slapp nú allt fyrir horn. Svo þegar átti að tengja hýsið við rafmagn kom í ljós að á tjaldstæðinu var 3ja fasa rafmagn en við bara með hefðbundnar klær. Þau á tjaldstæðinu áttu ekki millistykki því þeim hafði öllum verið stolið (fáránlegt!). Við vorum samt svo heppin að það fannst millistykki í bænum sem við gátum fengið lánað.

Við vorum 3 nætur í Borgarfirði Eystri og fannst alveg frábært að vera þarna. Borðuðum fiskisúpu í Álfasteini en elduðum annars sjálf. Meðal annars keyptum við Keilu í Fiskverkun Kalla Sveins, sem Valur marineraði og steikti svo á pönnu. Daginn eftir að við komum var þvílíkt dásemdarveður og við bara tókum lífinu með ró, gengum um þorpið, tókum myndir og lágum í leti. Næsta dag fórum við í ferð í Loðmundarfjörð í ágætis veðri en svo fór reyndar að hellirigna seinnipartinn og rigndi bara töluvert um kvöldið og nóttina. Við höfðum jafnvel ætlað að halda áfram austur fyrir land en spáin var ekki nógu góð, svo við ákváðum að fara frekar heim aftur og sjá svo bara til með meiri ferðalög.

Heim komum við á föstudagskvöldi og eins og við var að búast þá fór helgin í þreytu-breakdown og sunnudagurinn var einn allsherjar sófadagur hjá frúnni ... Einhverra hluta vegna þá er eiginlega enn sorglegra að vera ónýt af þreytu í sumarfríinu, heldur en þegar ég er að vinna. Sennilega af því maður hefur einhverjar óraunhæfar væntingar um að í sumarfríi eigi allt að vera svo æðislegt.

Á þriðjudaginn komu svo tengdaforeldrar mínir í heimsókn. Gunna og Matti hafa ekki komið lengi og það var virkilega gaman að fá þau. Hún er 87 ára á árinu og hann er orðinn 88 ára, svo það er nú meira en að segja það fyrir þau að skreppa norður í land. Við tókum lífinu mest með ró en fórum þó á Flugsafnið í gær og síðan á veitingastaðinn Silvu í Eyjafjarðarsveit þar sem við fengum góða grænmetissúpu og brauð. Þau fóru svo aftur suður í dag og hið sama gerði Ísak sem er að keppa á tölvuleikjamóti í HR um helgina.

Við erum svo búin að pakka flest öllu í hjólhýsið og ætlum að drífa okkur í aðra útilegu á morgun. Meiningin er að gista í Lundi í Öxarfirði eða á Raufarhöfn, sjáum til með það. Ég hef aldrei komið á Langanes og það er spáð góðu veðri á þessu svæði um helgina, svo það lofar góðu.

Hér má sjá nokkrar myndir úr ferðalaginu um daginn.






Engin ummæli: