laugardagur, 6. júlí 2013

Komin í sumarfrí


Líkamlega að minnsta kosti... það tekur aðeins lengri tíma að komast andlega í frí frá vinnunni. Sérstaklega þar sem reksturinn hefur alfarið verið á mínum herðum síðustu 4 vikur, og þann tíma hef ég verið með hugann við þetta nánast dag og nótt. Það er að segja, ég hef verið að vinna í pöntunum heima á kvöldin og stundum mætt fyrr í vinnuna til að ná að gera hluti þar í friði áður en búðin opnar. Að ekki sé minnst á blessað bókhaldið sem ég ákvað að taka duglega syrpu í, til þess að þurfa ekki að vinna bókhaldsvinnu í sumarfríinu.

Það eru 4 pör búin að skrá gjafalista hjá okkur um næstu helgi og þá þarf að passa uppá að hlutirnir á óskalistanum séu til. Annað á að vera „under control“ held ég. Og bara svo það sé alveg á hreinu, þá treysti ég Sunnu fullkomlega til að sjá um að allt gangi sem smurt, það er ekki málið. Vandamálið er bara heilinn minn, sem heldur áfram að velta sér uppúr vinnutengdum hugsunum...

Annars ætlum við bara að byrja á því að slaka aðeins á hér heima. Ég er hálf lúin og ekki alveg tilbúin að stökkva af stað burt úr bænum. En markmiðið er samt að ferðast eitthvað og þá líklega bara „elta sólina“ eins og okkur Íslendinum er tamt að gera. En áður en hægt er að leggja af stað þarf ég líka að baka þurrkex til að taka með í nesti. Og kannski líka súkkulaðismákökurnar sem eru án hveitis. Já svo þarf ég að stytta nýju „ferðabuxurnar“ sem ég keypti í Kaupmannahöfn s.l. haust, og klára að prjóna lopapeysuna sem ég hef geymt ókláraða í heilt ár núna, en tók loks fram aftur um daginn þegar Anna var hérna. Þannig að verkefnin vantar ekki. En í dag ætla ég að liggja í leti!!


Engin ummæli: