miðvikudagur, 22. maí 2013

Same old, same old ...


Já það er fyndið (eða sorglegt) hvað ég er alltaf að berjast við sömu vindmyllurnar. Áðan rakst ég á dagbók sem ég byrjaði að skrifa sumarið 2011 og endar í október 2012. Þar sá ég m.a. á eftirfarandi færslu:
8. júlí 2012
Þreytt!!!
Hefur einhver heyrt þetta áður? Nei, örugglega ekki. Veit ekki hvað ég er búin að vera lengi í núverandi þreytukasti en líklega þrjár vikur, eða síðan ég vann síðast heila vinnuviku + laugardag, eða 6 daga í röð. 

Svo mörg voru þau orð. Og ef við spólum áfram til dagsins í dag, þá vann ég sem sagt 6 daga í röð í síðustu viku, og hef verið eins og drusla síðan.

(Ég virðist seint ætla að læra af reynslunni ... dett alltaf ofaní sömu holuna, þó ég viti nákvæmlega hvar hún er staðsett.)

Sófadýr allan sunnudaginn og allan mánudaginn. Vaknaði þreytt og illa fyrir kölluð í gærmorgun, en fór samt í sund. Synti 8 ferðir og fór svo í „legvatnið“ í smá stund. Stóð of snöggt upp þaðan, fékk blóðþrýstingsfall og var heppin að detta ekki á hausinn því mig svimaði svo. Var þreytt allan tímann í vinnunni og því miður þurfti ég í klippingu og litun eftir vinnu, svo þetta varð langur dagur. Var komin með heljarinnar höfuðverk, hálssærindi og beinverki um kvöldmatarleytið. Sofnaði á sófanum eftir kvöldmat, svaf í 11 tíma í nótt en var samt ennþá veik þegar ég vaknaði í morgun. Endalausar snýtur framan af og ennþá sami vondi höfuðverkurinn. Sljó yfir höfðinu og leið eins og ég væri með háan hita.

Og þar sem gigtarkast lýsir sér eins og flensa, þá veit ég aldrei hvað er hvað - a.m.k. ekki svona í byrjun. Enda las ég einhvers staðar að þessi einkenni, sem flestir tengja við flensu, séu í raun til komin vegna þess að ónæmiskerfið er á fullu að vinna. Einkennin eru sem sagt ekki tengd “veikinni/flensunni“ sem slíkri, heldur starfsemi ónæmiskerfisins.

Vona bara að þetta núverandi kast mitt standi ekki í þrjár vikur - segi ekki meira.

Eitt sem er fyndið við að lesa gamlar dagbækur, er að óminnishegrinn miskunnar sig greinilega yfir mig, þannig að ég man ekki milli ára/mánuða hvað ég hef verið þreytt. Í minningunni fannst mér eins og ég hefði átt betra tímabil eftir Kristnes dvölina, en núna sá ég að það hefði bara verið ímyndun. Ég var þreytt allt sumarið og haustið. Komst á þrjósku + adrenalín-flæði í gegnum jólavertíðina og hrundi í janúar ... og hef verið ónýt síðan.

Það fer alveg að verða spurning um að gera gagngera endurskoðun á lífi sínu.  Ekki þar fyrir, það eru ekki margir kostir í stöðunni, og engir góðir. En það er hálfgerð bilun að lifa lífinu á þennan hátt. Eða, eins og einhver (sumir segja Albert Einstein) orðaði það svo skemmtilega:
Insanity: doing the same thing over and over again and expecting different results.  
P.S. Ég veit að þetta er enn ein hörmungar bloggfærslan hjá mér. Lofa að skrifa um eitthvað skemmtilegra á morgun. En það er eins og ég þurfi að skrifa hluti til að hugsa um þá og sortera í höfðinu á mér. Vafalaust á þetta tímabil í lífi mínu eftir að taka enda og það má gjarnan gera það sem allra fyrst, enda komin 5 ár, og úthaldið á þrotum. Ef til vill leynist einhver lexía í þessu öllu. Eitthvað sem ég átta mig á síðar meir. Kannski verð ég einhvern tímann þakklát fyrir þetta þreytutímabil, hver veit.

Engin ummæli: