mánudagur, 27. maí 2013

Nostalgía

Jæja þá er ég loks farin að líkjast sjálfri mér aftur - að minnsta kosti þar til ég dett í næsta gigtar/þreytukast ;-)

Í tilefni af 25 ára stúdentsafmælinu mínu datt ég í að skoða gamlar ljósmyndir. Ég hef óendanlega gaman af því að skoða gamlar myndir og núna ákvað ég að skanna nokkrar myndir til gamans.


Útskriftin fór fram í Akureyrarkirkju og þessi mynd er tekin fyrir utan kirkjuna. Valur var myndasmiðurinn. Hér er mamma í íslenska þjóðbúningnum og Hrefna upptekin við að skoða skólaskírteinið mitt og má ekkert vera að því að horfa í myndavélina.


Mæðgurnar á leiðinni í bílinn eftir útskriftarathöfnina.


Næst fór allur stúdentaskarinn í Lystigarðinn þar sem tekin var hópmynd af okkur. Valur notaði tækifærið og smellti mynd af hópnum.


Ég varð stúdent frá VMA 1988, fjórum árum á eftir jafnöldrum mínum, sem flestir urðu stúdentar frá MA. Í millitíðinni hafði ég tekið sjúkraliðapróf og eignast dóttur. Hrefna er fædd í nóvember 1983 og er því 4ra ára þarna. Hana langaði voðalega mikið að fá að vera með mömmu sinni á hópmyndinni, en það gekk víst ekki alveg upp.




Hér er bekkurinn minn, H-bekkur (H stendur fyrir Heilsugæslubraut, sem var síðar breytt í Náttúrufræðibraut). Stærstur hluti stelpnanna lærði hjúkrun og langflestar starfa við það í dag. Það var bara einn strákur í bekknum, og þegar við héldum bekkjarpartý þá fékk hann að taka tvo vini sína með sér, svo hann væri ekki alveg einn á báti með öllum þessum stelpum. 


Fjölskyldumynd: Pabbi, ég og mamma. Pabbi hafði fengið heilablóðfall einhverjum árum áður og var kannski ekki alveg með á nótunum þarna, en mamma klæddi hann upp í tilefni dagsins. Systkini mín bjuggu bæði erlendis á þessum tíma svo hvorugt þeirra var viðstatt þennan dag. 


Um kvöldið var svo farið út að borða í Sjallann. Þessar myndir af okkur Val eru teknar þegar við vorum búin að klæða okkur uppá fyrir kvöldið. Ég veit nú ekki af hverju ég er svona alvarleg á þessari mynd. Dragtin mín fína sést samt vel hér en Valur gaf mér hana í útskriftargjöf. 


Valur minn aldeilis glæsilegur á þessari mynd. 


Og ég bara nokkuð kát með þetta allt saman :-)


Í lokin kemur hér mynd sem tekin var af bekknum mínum í stúdentsafmælinu um daginn. Við vorum 7 sem mættum á laugardagskvöldinu. Ég í rauða kjólnum mínum - já og dökkhærð ;-) Myndgæðin eru reyndar ekkert sérstök.


1 ummæli:

Elín Kjartansdóttir sagði...

Gaman að skoða þessar myndir. Ég man foreldra þína.