er nafn á kvikmynd með Jack Nicholson og Morgan Freeman. Hún fjallar um tvo eldri menn sem eru dauðvona og þrátt fyrir ólíkan bakgrunn (annar er forríkur en hinn verkamaður) ná þeir á einhvern hátt saman. Þeir ákveða að gera lista yfir þá hluti sem þá langar til að gera áður en þeir deyja og myndin fjallar um það hvernig þeir fara í gegnum listann (the bucket list), framkvæma hlutina og öðlast lífsgleði í leiðinni.
Það er vel skiljanlegt að fólk sem á takmarkaðan tíma eftir til að lifa, velti því fyrir sér í hvað það vilji nota tímann sem eftir er, og hafi áhuga á að gera eitthvað markvisst við þann tíma. Um daginn gekk myndband á netinu sem sýndi síðasta tímann í lífi ungs pilts Zachary Sobiech en hann fór m.a. að semja tónlist þegar hann vissi að hann myndi deyja úr krabbameini. Ég horfði á þetta myndband um daginn og verð að segja að það lætur engan ósnortinn. Zach lést 20 maí s.l. en meðan hann lifði sýndi hann svo sannarlega úr hverju hann var gerður.
Þegar ég sló upp orðunum „bucket list “ á netinu rakst ég líka á vefsíðu stúlku sem gerði sinn eigin lista yfir hluti sem hana langaði að framkvæma áður en hún myndi deyja. Þetta var ung stúlka í Bretlandi og hún lést í byrjun árs 2013.
Málið er bara, að maður ætti ekki að þurfa að vera deyjandi til að velta því fyrir sér hvað mann langar að gera í lífinu. Þetta þurfa ekki að vera stórir hlutir en bara eitthvað sem mann langar virkilega til að gera.
Einhverra hluta vegna hef ég aldrei sest niður (já alveg bráðnauðsynlegt að sitja ... eða ekki ...) og virkilega hugsað út í það hvað MIG LANGAR til að gera/framkvæma/fá út úr lífinu. Ég hef bara verið eins og trjádrumbur sem fleytt er út í á í Síberíu, berst með straumnum út í sjó og endar á Langanesi á Íslandi, án þess að fá nokkru um það ráðið. Að hluta til held ég vegna þess að ég hef einhvern veginn ekki áttað mig nógu vel á þeirri staðreynd að við ráðum ótrúlega miklu sjálf um það hvernig okkur reiðir af í lífinu.
Ég hef verið „fangi“ eigin skoðana að svo mörgu leyti. Það er að segja, við höfum öll okkar skoðanir um lífið og tilveruna, um eigin getu, um samhengi hlutanna o.s.frv. Þessar skoðanir upplifum við sem réttar og efumst ef til vill aldrei um réttmæti þeirra. Sem dæmi um skoðanir sem ég hef haft má nefna:
- Ég hélt að ég gæti ekki lært stærðfræði
- Ég trúði því að ég væri fölsk og gæti ekki sungið
- Ég hélt að ég væri ekkert sérstaklega gáfuð
- Ég hélt að ég væri bara frekar ljót heldur en hitt
- Ég hélt í hreinskilni sagt að ég hefði enga sérstaka hæfileika
- Ég hélt að ég væri leiðinleg
- Ég hélt að ég væri ekki góð móðir
Ef við setjumst niður (já kemur það nú aftur, bráðnauðsynlegt að sitja ....) og virkilega förum í gegnum þær skoðanir sem við höfum - skrifum þær niður t.d. og skoðum réttmæti þeirra, þá sjáum við líklega að sumt af þessu er bara rugl og vitleysa. Eitthvað er jafnvel algjörlega fáránlegt og byggist á einhverju allt öðru en sannleika. Þannig að þá er okkur ekkert að vanbúnaði að velja sjálf hvaða skoðanir við viljum hafa. Ég get t.d. valið að trúa því að ég geti lært stærðfræði og í kjölfarið farið í nám í viðskiptafræði í háskóla og staðist erfitt stærðfræðipróf (eins og ég jú gerði). Ég get líka prófað að fara í inntökupróf í kór og komist inn - hei! ég er ekki fölsk!.
En já sem sagt - ef við hættum að láta okkar eigin takmarkandi skoðanir ráða yfir okkur þá opnast alveg nýr heimur. Heimur þar sem við getum valið hvað okkur langar að gera - og gert akkúrat það. Við þurfum ekki að vera dauðvona til að lifa lífinu. Við getum gert okkar eigin „bucket lista“ og farið í gegnum hann eins hægt eða hratt og við viljum. Svona eins og Marci Nault gerði árið 2008 þegar hún spurði sjálfa sig: Hvað vil ég fá út úr lífinu? Ef ég væri ekki hrædd og þyrfti ekki að fylgja ákveðnum leikreglum, hvernig myndi ég lifa lífinu? Í kjölfarið bjó hún til lista yfir 101 draum sem hún átti sér og hefur núna framkvæmt 89 atriði á þessum lista.
Þannig að nú er stóra spurningin sú - hvað langar mig, Guðnýju Pálínu Sæmundsdóttur, til að gera við líf mitt? Hvað myndi ég gera ef ég léti alla hræðslu lönd og leið? Hvaða litlu og stóru hlutir myndu fara á draumalistann minn?
P.S. Ef einhvern langar til að gera sinn eigin draumalista, eða sjá hvaða lista aðrir hafa, þá er til vefsíða bucketlist.org, sem ég mæli með að kíkja á.